Hvenær verð ég spurður?

Tónlistarmenn eru flytjendur og höfundar, hvorugur getur án hins verið. Reyndar eru höfundar oft flytjendur að eigin efni en þó er hitt algengara höfundar þurfi flytjendur að tónsmíðum sínum. STEF hefur séð um höfundrréttarmál en FÍH um réttindi flytjenda. Einn allra þekktasti lögfræðingur landsins sem skoðaði flytjendarétt fyrir mig fyrir nokkrum árum sagði mér blákalt að réttindamál flytjenda væru á steinaldarstigi. Ég held að síðustu fréttir um fyrirtækið tonlist.is segi ofurlitla sögu af stöðu flytjenda.

Stefán Hjörleifsson sem stofnaði tonlist.is var styrktur af hagsmunasamtökum flytjenda og höfunda til að koma tonlist.is á koppinn en seldi svo afkvæmið Senu fyrir væna fúlgu og sjálfan sig með. Ég hef oft spurt mig að því hvernig það megi vera að ég sé inná þessum grunni með megnið af því efni sem ég hef flutt, án þess að ég hafi nokkurn tímann gefið leyfi fyrir slíku. Svörin sem ég fékk þegar ég fór að efast um að rétt hafi verið staðið að málum voru þau að yfirráð útgefanda yfir flutningsrétti á lögunum gæfu honum rétt til að falbjóða mig á vefnum. Þetta sé síðan allt samþykkt af stéttafélaginu mínu á þeim fosendum að verið sé að búa til gagnagrunn sem nýtast eigi öllum hagsmunaaðilum. Hafi þessi hugsun verið það sem þetta átti að snúast um þá er sú forsenda fokin út um gluggann með sölu vefsins til SENU. Þess utan tel ég afar vafasamt að það sé hægt að ákveða án samráðs við mig að tonlist.is bjóði uppá afnot af mér í mánaðaráskrift, að tonlist.is geti gefið mig í fríu niðurhali, eins og hefur gerst hvað eftir annað ef tilefni hefur verið til eins og afmæli fyrirtækisins og fleiri stórviðburðir. Ég hef aldrei samþykkt neitt af þessu, reyndar aldrei verið spurður, sem er svo sem ekki nýtt í þessum bransa.  Þegar SENA ákvað á sínum tíma að selja disk með SS pylsupakka þá var enginn spurður, þegar lög af Mannakornadiskum hafa verið sett á hina og þessa safndiskana með einkennilegum nöfum, þá er enginn spurður,  þegar jólaplata Brunaliðsins Með eld í hjarta breyttist í diskinn 11 jólalög, var enginn spurður.

Ég hef ásamt félaga mínum Magnúsi Eiríkssyni varið undanförnum árum í að fá einhverja niðurstöðu í réttindamál okkar. Sú ganga  gengur hægt en gengur þó. Ég fagna umræðunni sem átt hefur sér stað að undanförnu og hvet til að henni sé haldið áfram af fullum þunga. Yfirburða staða eins fyrirtækis á viðkvæmum og litlum markaði er vandmeðfarið vald og leiðir því miður til misnotkunar. Tónlistarmönnum er mismunað eftir því hvar þeir eru skráðir með sitt efni, stjörnugjafir á tonlist.is er bara eitt lítið dæmi um slíka misnotkun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég held, Pálmi, að FÍH sé aumasta stéttarfélag sem ég hef kynnst. Ég reyndar sagði mig úr því eftir mjög stutta veru vegna þess að það getur ekki fylgt því eftir að lágmarkstaxtar séu virtir. Reyndar sýnist mér að allt of stór hluti tónlistarmanna drekki bara launin sín út á vinnustaðnum!

Á meðan tónlistarmennirnir virða ekki sjálfir vinnu sína meira er ekki við því að búast að aðrir geri það heldur. 

Haukur Nikulásson, 25.5.2007 kl. 14:58

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, það þarf að halda þessari umræðu gangandi . Ég er að vísu ekki FÍH en í stéttarfélagi sem á mikilla hagsmuna að gæta varðandi td. safnið í RÚV . Ég veit ekki til þess að neinir fundir hafi verið haldnir í FIH eða öðrum stéttarfélögum sem þar eiga talsverðan eignarétt um hvernig beri að vernda hann núna þegar ohfið er komið til að vera. Miklar bollaleggingar eru innan dyra í RUV um að hlaða efni niður á Ipod td. En ætla þeir að semja við stéttarfélög eða einstaklinga?  Allstaðar er sótt að höfundarétti og það þarf því að standa vörð um stéttarfélögin og fylgjast vel með þeim.

María Kristjánsdóttir, 25.5.2007 kl. 16:17

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Pálmi. Ég er hjartanlega sammála þér og vona að barátta ykkar Magga gangi vel. Ef hægt er að leggja ykkur lið er ég, og eflaust margir fleiri, boðinn og búinn til þess.

Ég og mín hljómsveit, Á móti sól, vorum á samningi hjá Skífunni/Senu í nokkur ár og fengum lítið sem ekkert út úr því. Því samstarfi var slitið af hálfu Skífunnar/Senu, enda að sjálfsögðu um einhliða samning að ræða, en sú uppsögn hefur reynst okkur hin mesta gæfa því við höfum séð umtalsverða peninga af sölu á þeim 3 plötum sem við höfum sjálfir gefið út eftir að samningnum var rift. Peninga sem manni hafði alltaf verið talin trú um að væri ómögulegt að afla með plötusölu. Og ýmsir undarlegir reikningar sýndir því til staðfestingar.

Mér hefur oft dottið í hug að það gæti verið sniðugur leikur að stofna einhverskonar samtök "einyrkja", þ.e. þeirra sem kjósa að gefa sjálfir út sitt efni. Hvort sem það er rétt leið eða einhver önnur finnst mér ótækt annað en að gera eitthvað í því hvernig Sena hagar sér í krafti aðstöðu sinnar. Fyrsta skrefið gæti verið að allir sem ekki eru á samningi hjá Senu taki lögin sín útaf tonlist.is. Mín/okkar lög hafa verið þar síðan vefurinn opnaði og við höfum aldrei fengið krónu fyrir. Hvaða glóra er í því?

Heimir Eyvindarson, 25.5.2007 kl. 17:03

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sæll Pálmi!

Málinu algerlega óviðkomandi = hvar á landinu býrðu núna ?

Las færslu frá þér fyrir einhvejum dögum þar sem þú sagðist vera á leiðinni suður?

Kveðja úr löndum Ynglinga: ásgeir

Ásgeir Rúnar Helgason, 25.5.2007 kl. 18:56

5 Smámynd: Haukur Viðar

Samtök einyrkja hljómar ekki svo illa. Ég kynnti mér STEF og FÍH talsvert þegar ég gerði verkefni í skólanum í fyrravetur. Rakst á margt hlægilegt eins og til dæmis PDF-skjalið "Flokkun tónverka" sem kætir mig enn þann dag í dag

Haukur Viðar, 25.5.2007 kl. 20:05

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæl verið þið öll ...   Haukur ekki dettur mér ekki í hug að fría mig af ákveðnu ábyrgðaleysi. Ég las ekki alltaf smáa letrið í samningum og ég átti það til að drekka út launin mín á börunum. Hinsvegar fólst ekki í því frítt veiðileyfi á mig.

María - ég er sannfærður um að ef ekki verður haldið utan um þann hafsjó af efni sem finnst í viðamiklu tónlistarsafni RUV þá má alveg eins búast við einhverju rugli. 

Heimir - ég styð hugmynd þína um Indi útgáfu þeirra sem kjósa að gefa út sjálfir. Slíkt myndi samt engu skila nema það yrði fullkomið mótvægi við stóru útgáfuna. Við höfum séð hvernig SENA dominerar flest svið útgáfumála og t.d. fæ ég enn hláturskast þegar mér verður hugsað til ísl. tónlistarverlaunanna og þá sérstaklega þeirra síðustu. Ekki endilega verlaunanna heldur þess sem hengt var við hverja únefningu sem ástæðu fyrir viðkomandi útnefnigu. En svona er þetta bara. Svona var þetta þegar Jón Ólafsson í Hljómplötuútgáfunni/Skífunni dró menn á asnaeyrunum og SENA er einfaldlega skilgetið afkvæmi þess tíma þegar menn sömdu af sér.

Ásgeir -  ég hef búið á Akureyri um langt skeið og fer eins og sönnum sveitavargi af og til í bæinn.

Pálmi Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 20:27

7 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Haukur Viðar ... óæðri og æðri tónlist var eitt það fyrsta sem ég heyrði þegar ég kom suður að gerast atvinnutónlistarmaður. Minnist þess þegar vinur minn sótti um skólavist í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Í viðtali leyfði hann sér að segjast hafa mestan áhuga á jazzi þegar hann var spurður útí uppáhaldstónlist. Honum var hafnað þrátt fyrir að vera búinn að fá loforð um skólavist. Þetta hefur vissulega breytst en ennþá eimir eftir af þessum gamla dinosaur hugsunarhætti.

Pálmi Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 20:32

8 Smámynd: Haukur Viðar

Já þetta er alveg út í hött. Ég verð að hætta þessu pönkstússi og vinda mér í mótettur og madrigala

Haukur Viðar, 25.5.2007 kl. 21:20

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Pálmi.  Fyrir um 18-20 árum síðan flutti ég inn enska hljómsveit Shark Taboo sem var ein af Goth-rokkinu sem kraumaði í London þá. Haldandi að það væri nóg að koma með þá til landsins og tala við vinnumálastofnun að mig minnir fékk ég að heyra það að FÍH samþykkti ekki komu þeirra til landsins. ÞEIR VÆRU AÐ TAKA VINNU FRÁ ÍSLENSKUM TÓNLISTARMÖNNUM!!!  Við kynntum fullt af íslenskum böndum með sem upphitun ma. Dr. Gunna - Svarthvíta drauminn. Hljómsveitin spilaði upp á uppihald fyrir sig og laun fyrir ljósa- og hljóðmann. Komu svo aftur á okkar vegum 2 árum seinna enda heilluð af landinu.

Þessi samtök eru greinilega eins og Dagsbrún var, verkalýðsforingjaeign í stéttarbaráttu á bryggjunni. Ekki hagsmunasamtök tónlistarmanna. Og árið er 2007.

Íslenskir tónlistarmenn hafa fæstir farið vel út úr samskiptum við ráðandi  útgáfur á Íslandi, það vita allir sem hafa fylgst með því.

Og hlutafélagavæðing RÚV býður upp á að selja menningarverðmæti til fyrirtækja eins og SENU, tonlist.is eða  réttrúandi einkavina fyrir slikk enda engin ábyrgð lengur.

Þetta er lénsveldið Ísland. 

Ævar Rafn Kjartansson, 25.5.2007 kl. 22:03

10 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Gleymdi... Ljósmyndarar td. hjá Morgunblaðinu EIGA sín verk og MBL. borgar fyrir birtinguna í hvert skipti sem einhver falast eftir viðkomandi mynd. Þarna er höfundarétturinn virtur.

Ævar Rafn Kjartansson, 25.5.2007 kl. 22:06

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hæ þú ert flinkur að skrifa..viltu taka þátt í æavintýrasögukeppninni á blogginu mínu?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.5.2007 kl. 22:39

12 Smámynd: Jens Guð

  Mig rámar í að Megas hafi farið í mál við Steina hf.  á sínum tíma vegna þess að lag með honum var sett á safnplötu að honum forspurðum.  Mig minnir að þetta hafi verið lagið "Fatlafól".  Megas vann málið. 

  Á sama tíma hótaði Björk málaferlum vegna þess að lag sem hún söng inn á sólóplötu Bjögga Gísla var sömuleiðis sett á safnplötu í óþökk Bjarkar.  Ef ég man þetta rétt þá buðu Steinar henni sætti í málinu í kjölfar þess að Megas vann sinn mál. 

Jens Guð, 25.5.2007 kl. 23:13

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Allavegana þá kaupi ég bara diska út úr búð, ekkert niðurhal.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.5.2007 kl. 23:22

14 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

takk fyrir komment gott fólk ... Megas fór í mál á forsendum sæmdarréttar listamanns og vann málið... þ.e. hann taldi brotið á sér með því að rífa heildstætt verk úr samhengi og henda lagi á einhverja útgáfu. Nú virðist sem öldin sé allt önnur því bensínstöðva/hagkaupa/pulsupakka útgáfur virðast ganga upp og það þó menn mótmæli og fari í mál. Sbr. mál Gulla Briem sem fannst ekki nógu kúl að vera seldur með pulsupakka frá SS. Mér skilst að það sé eitt eftirminnilegasti svipur á dómara sem sést hefur þegar SS pulsupakkinn var lagður fram sem sönnunargagn, gaddfreðinn eftir veru í frystikistu Gulla Briem. Hann tapaði málinu á hæpnum forsendum og til gamans má geta að eftir að hann ákvað að fara í málið var hann útilokaður frá allri vinnu hjá fyrirtækinu. Ég á sjálfur framundan nokkuð stranga göngu þegar ég læt skera upp næsta leiðindamál og ég skal svo sannarlega leyfa ykkur að fylgjast með. En réttindi flytjenda eru ennþá á steinaldarstigi eins og lögmaðurinn benti mér á um árið. Það hefur eiginlega ekkert breyst. Það er bara svindlað með öðru sniði.

Pálmi Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 23:30

15 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Annars er ég á leið til Vestmannaeyja í fyrramálið til að leika með Blúskompaníinu á árlegri jazzhátíð þeirra eyjamanna. Það er bara tilhlökkunarefni því jazz og blús er Vestmannaeyingum hugleikinn. Óskar Þórarinsson skipstjóri er mikill jazzgeggjari og til eru magnaðar sögur af honum þegar kemur að jazztónlist. Við veiðum sama með flugu og meistari Miles Davis er aldrei lang undan. Þetta er það góða við að vera tónlistarmaður; að spila með góðum félögum og hitta gott fólk. Glataðar misvelinnréttaðar tónlistarútgáfur gleymast í það minnsta um stund.  

Pálmi Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 23:43

16 identicon

Gaman að lesa bloggið þitt, Pálmi. Keep on rockin' in the free world!

Ragnar Hólm (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 23:47

17 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Annað.... Nú hef ég verið að sækja mér tab af lögum á vefnum til að læra. Á flestum stærri  síðunum eru þau horfin vegna höfundarréttarlaga eða hótana um málsókn. Hvað finnst þér um þetta þegar fólk er að pikka upp lög og setja á vefinn tab. Er verið að brjóta á höfundi?

Og góða skemmtun í eyjum, ég er vanalega aðstoðarmaður á bát á sjóstönginni sem verður um þessa helgi. Gaman að fylgjast með hvað tónlistarlífið þar er orðið blómlegt. Það átti eiginlega ekkert nema minning um mann og Einsi kaldi séns fyrir 20 árum síðan þar. Eða þannig....

Ævar Rafn Kjartansson, 25.5.2007 kl. 23:55

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér er hreyft við þörfu umræðuefni því mismunur á rétti höfunda, textahöfunda og flytjenda tónlistar, rétti ljósmyndara og kvikmyndatökumanna og rétti rithöfunda er ótrúlega mikill. Þetta segi ég í ljósi þess að ég hef reynslu af öllu þessu.

Það er skemmst frá því að segja að réttindi rithöfunda og ljósmyundara bera af. Ef bókaútgefandi gefur ekki út bókina á ný eftir ákveðinn árafjölda missir hann allan rétt á henni til rithöfundarins. Ég á því á ný allan rétt á fyrstu átta bókunum sem ég skrifaði rétt eins og um ný handrit væri að ræða.æ  

Til samanburðar má geta þess að enda þótt fyrstu plöturnar mínar hafi verið gefnar út fyrir meira en 40 árum hefur ekkert af þeim réttindum flust til mín. Á þessum 40 árum fluttist rétturinn frá Hljóðfæraverslun Sigríðar til SG-hljómplatna, þaðan til Fálkans, frá Fálkanum til Steina, frá Steinum til Skífunnar, frá Skífunni til Senu o. s. frv.

Ljósmyndarar eiga allan rétt á ljósmyndum sínum ásamt þeim sem þeir vinna hjá, en kvikmyndatökumenn hafa ótrúlega lítinn rétt.

Á sínum tíma samdi ég hundruð lagatexta fyrir útgefendur sem ekkert sinntu réttindamálum vegna þeirra og þess vegna kom ekkert til mín peningalega fyrir höfundarréttinn fyrir að hafa samið þessa texta.

Áratugum saman virtist réttur minn sem flytjanda ekki vera neins virði.

Ég hef ekki tíma til að standa í því að reyna að kynna mér þessi mál því að maður sem er að komast á ellilaun finnur að hann þarf að nota allan sinn tíma áður en það verður um seinan til að sinna skapandi störfum sem sækja að honum.  

Ómar Ragnarsson, 26.5.2007 kl. 00:31

19 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég var nú kannski ekki endilega að tala um útgáfu heldur frekar einhverskonar minni samtök, kannski aðallega ætluð til þess að sparka aðeins í rassinn á okkur sjálfum og minna hvern annan á að láta ekki fara með okkur eins og hálfvita.

Ég segi eins og þú að smáa letrið skipti mig engu máli þegar fyrsti samningurinn var undirritaður og svipaða sögu held ég að alltof margir hafi að segja. Síðan eldist maður og augun opnast smátt og smátt þangað til manni á endanum ofbýður vitleysan.

Ég held að við sjálfir þurfum að vera miklu dugmeiri. Ef t.d. nokkrir einyrkjar tækju sig saman og gengju í Samtök hljómplötuframleiðenda mætti eflaust uppræta einhvern hluta spillingarinnar sem viðgengst þar á bæ. Spillingu sem kristallaðist t.d. í kolröngum lista yfir 25 söluhæstu íslensku plötur ársins 2006 sem birtist í mogganum um daginn ásamt viðtali við Jónatan Garðarsson og Eið Arnarsson sem báðir blésu það út að Sena ætti 18 af 20 söluhæstu titlum ársins þrátt fyrir að vita upp á hár að um helber ósannindi væri að ræða.

Og svo mætti lengi telja..........

Heimir Eyvindarson, 26.5.2007 kl. 00:42

20 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ómar vinur - takk fyrir innleggið sem segir eiginlega allt sem segja þarf um réttindi flytjenda og hvernig á þeim er troðið að hluta til vegna þess að flytjendur hafa ekki fengið þann stuðning sem þeir eiga svo sannarlega skilinn frá stéttarfélagi sínu ... en svo það sé klárt, þá ætla ég aldrei á eftirlaun og hef því fínan tíma til að pirra útgefendur og mun gera það meðan eitthvað er að hafa á þá.  Heimir - ég skil hvert þú ert að fara en varðandi 25 söluhæstu diska ársins -  afhverju ekki að hreinlega fletta ofan af þessu rugli opinberlega þ.e. fá hið sanna uppá yfirborðið. 

Pálmi Gunnarsson, 26.5.2007 kl. 01:24

21 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ frændi. Góður pistill hjá þér og þarft mál að koma almennilega af stað inn í umræðuna. Ég veit það sjálf að höfundarréttur varðandi ritað efni er mjög sterkur hérna, en ég fór sjálf einu sinni í mál við stórt fyrirtæki út af rituðu efni eftir mig sem þeir misnotuðu og ég vann málið! Réttindi listamanna hverju nafni sem þeir nefnast virðast hins vegar vera eitthvað út og suður og enginn almennilegur flötur á þeim. Gangi þér og þínum vel í baráttunni.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 26.5.2007 kl. 02:17

22 identicon

Ég er alveg sammála, Pálmi eftir að hafa lesið pistil þinn. Það er furðulegt hvernig hægt er að fara með það sem listamenn hafa skapað án þess að tala nokkurntíman við ykkur... annars smá útúrdúr; mér finnst flutningurinn á "Göngum yfir brúna" sem er á síðunni þinni alveg magnaður;lagið náttúrulega stórkostlegt. Tekið upp á tónleikum, heyri ég. Er þetta til á CD?

Brattur (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 09:23

23 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Væri gaman að vita hvort það sé mögulegt fyrir annað fyrirtæki en tonlist.is að selja tónlist úr þessum gagnagrunni. Einkaréttur tonlist.is á grunninum er mjög hæpin frá mörgum sjónarhornum.

Ingi Björn Sigurðsson, 26.5.2007 kl. 10:38

24 Smámynd: Heiða  Þórðar

Var bara svona rétt að hugsa um hvort þú gætir samið lag við þennan texta:?

Mikið er hún Heiða góð,

yndisrósin bjarta.

Ennþá liggur hennar slóð,

inn í hversmanns hjarta.......(allur réttur áskilin)

Innlitsknús á þig og þína á þessum fallega degi

Heiða Þórðar, 27.5.2007 kl. 14:06

25 identicon

Mér hefur oft þótt það frekar dapurt hvernig farið er með höfundarréttar varin hugverk hér á landi, það virðist hver sem er geta tekið hvaða hugverk sem er og farið með þau eins og þeim sýnist. Nýlega notuðu t.d Esso, þemað úr "Back to the future" til auglýsinga, N1 notar "Don´t stop me now" óspart. Raggi Bjarna fór illa með "Smells like teen spirit," svo fátt eitt sé nefnt, listinn er endalaus.

Daði (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 21:28

26 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Kominn frá Vestmannaeyjum, alveg endurnærður. Spilaði á geggjuðum tónliekum með mínu frábæra liði. Ég er þakklátur ykkur fyrir viðbrögðin og skora á ykkur að lesa það sem Heimir Eyvindsson er að blogga. Eða eins og daninn sagði sem stráði um sig með íslenskum málsháttum þegar hann var í stuði ... “oft veltir margir þúfa einu hlassi„

Pálmi Gunnarsson, 28.5.2007 kl. 15:24

27 Smámynd: Rannveig H

Takk fyrir tónleikana þeir í eyjum þeir voru frábærir

Rannveig H, 29.5.2007 kl. 10:41

28 identicon

Sælinú!

Athyglisverðar og löngu tímabærar umræður. Það er gaman að fylgjast með hegðun Smekkleysumanna í þessari umræðu. Þeir spila sig ýmist næs gæja eða þegja þunnu hljóði. Minnist þess ekki að Grammið/Smekkleysa hafi nokkurn tíma greitt höfundum efnis á Rokk í Reykjavík plötunni. Þrátt fyrir að hafa selt plötuna í þúsundum eintaka í 25 ár (2/3 tímabilsins án leyfis listamanna).

E Kr P (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 11:22

29 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Missti því miður af þér hér í Eyjum.

Ólafur Ragnarsson, 30.5.2007 kl. 20:20

30 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Heiða - lagið er í vinnslu ..  Ragnheiður takk fyrir að líta á okkur í Eyjum og velkomin á bloggið ...  E. Kr.  Já Smekkleysa er kannske ekkert áfjáð í að greiða eitt eða neitt fyrir Rokk í Reykjavík., ekki meðan enginn kvartar  ...  mig minnir að ég hafi afsalað mér rétti varðandi myndina hans Friðriks en ekki diskinn, best að skoða málið.   Ólafur - þú kemur bara næst

Pálmi Gunnarsson, 30.5.2007 kl. 21:58

31 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Þetta er þörf og góð umræða. Þessi tónlistarbransaheimur er alger frumskógur og skiljanlegt að margir átti sig ekki á sínum rétti og eins og grannt hefur komið fram, nenni því ekki. Ég hef sjálfur unnið í tónlistarbransanum í 20 ár og hef mikla reynslu af samskiftum við listamenn og útgefendur og í langflestum tilfellum hefur hún verið góð. Ég hef aldrei komið nálægt útgáfuhliðinni á bransanum og þekki þau mál lítið og satt að segja forðast þá hlið mikið. Mér finnst svo oft vera leiðindi í kringum þau mál.

Ég ber mikla virðingu fyrir litlum útgefendum á borð við Smekkleysu og 12 tóna o.fl sem ég tel hafa lagt mikinn metnað í sína útgáfu. Þetta er erfiður bransi og ekki mikið uppúr honum að hafa. Ég veit að bæði þessi fyrirtæki hafa lagt metnað í hag listamannsins enda útgáfan meira byggð á tónlistarlegum metnaði frekar en viðskiftalegum, þó þessir 2 hlutar þurfa svo sannarlega að vinna saman.

Í gegnum árin hafa örugglega margir orðnir fúlir í útgáfuna og ekkert við því að segja. Sökin getur legið á báðum hliðum. Mér finnst samt leiðinlegt að sjá svona nafnlaus komment eins og hjá E Kr P hér fyrir ofan þar sem hann vænir Smekkleysu um svik. Ég spurði Ása útgáfustjóra Smekkleysu um málið og hann sagði mér að Smekkleysa væri ekki útgefandi á þessari plötu heldur dreifingaraðili. Fyrirtækið Hugrenningur sá um útgáfuna og öll uppgjör vegna plötunnar renna til þess fyrirtæki sem á þá að sjá um allar greiðslur vegna samninga. STEF á svo að sjá um höfundarréttagjöld eins og vanalega. Þannig að í þessu tilfelli virðast þetta vera sleggjudómar hjá óskráðum og ekki gott innlegg inní mjög fína umræðu.

 Ég hef séð um dreifingu fyrir Smekkleysu og fleiri fyrirtæki undanfarin ár og þykir mjög vænt um þessi fyrirtæki. Bransinn er alltaf að verða erfiðari og erfiðari. Samkeppnin við niðurhal erfið og þar eru ýmsar brotalamir sem ég held að höfundar þurfi að skoða. 

Listamönnum ráðlegg ég svo eindregið að hafa alltaf undirritaða samninga við útgefendur. Það er alltaf best fyrir báða aðila. Stundum eru lætin svo mikil að koma plötu út að svona mál gleymist. Þá geta komið upp ágreiningsefni sem er langbest að höndla fyrir báða aðila ef samningur er fyrir hendi.

 Sendi öllum listamönnum baráttukveður. Þið hafið auðgað mitt líf meira en nokkuð annað í gegnum tíðina.

Kristján Kristjánsson, 31.5.2007 kl. 13:25

32 identicon

Sælinú aftur og þakka þér Kristján fyrir vinsamlegar ábendingar um fáfræði mína í ólgusjó íslenskra höfundarréttar- og útgáfumála. Staðreyndin er sú að við vitum ekki neitt og hvers vegna? Kannski vegna þess að við tónlistarmenn erum vanir ríkjandi aðstæðum, "frá örófi alda" og finnst þ.a.l. ástandið "eðlilegt?  Kannski vegna þess að útgefendur og dreifingaraðilar hafa ekki staðið sig í stykkinu hvað snertir upplýsingaskyldu við flytjendur um réttindamál þeirra? Á sínum tíma gerðu eigendur hugverka í myndinni "Rokk í Reykjavík" samning við kvikmyndafyrirtæki Friðriks: Hugrenning um að falla frá kröfum um stefgjöld í 8 ár. Þessi samningur var skriflegur og biðu tónlistarmenn í röðum eftir því að skrifa undir hann og sýna Friðriki stuðning í afar góðu og gildu málefni. Grammið gaf síðan hljómplötuna út og allir voru sáttir. Þetta var árið 1982 og árin liðu. 1989 (ef ég man rétt) þá urðu Hugrenningur og Grammið gjaldþrota. Er ekki með nákvæmar, sagnfræðilegar dagsetningar því gæti einhverju skeikað þar um. Hugrenningur breytti væntanlega kennitölu sinni og varð að Ísl. Kvikmyndasamsteypunni og Grammið að Smekkleysu. Þessi "nýju" fyrirtæki héldu áfram samvinnu sinni við útgáfu og dreifingu á "Rokk í Reykjavík" 8 ára samningstími var útrunninn og einhversstaðar læðist að mér, fávísum leikmanni, sá grunur um að fuglinn Fönix hafi átt að semja við listamenn upp á nýtt eða gilda samningar gjaldþrotafyrirtækja út í hið óendanlega? Síðan eru liðin 17 ár og eina fyrirtækið sem greiðir og hefur greitt okkur minni spámönnum fyrir spilun á efni téðrar myndar er RUV!

Einar Kr. Pálsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 18:25

33 identicon

Sæll Pálmi
Ég sem sjálfstæður útgefandi á eigin geisladiskum hvet þig til að halda þessari umræðu á lofti. Það er t.d. slatti af lögum eftir mig á tónlist.is og það hefur aldrei verið talað við mig vegna þess. Varðandi Brunaliðsdiskinn, þá hlýtur að þurfa að gera samning við artista varðandi það að breyta nafni á "hugverki". Er í lagi að taka fram Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar og gefa út undir öðru nafni?

Haraldur Reynisson (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 00:20

34 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Einu sinni var til fyrirtæki sem hét Demantur svo kom Hljómplötuútgáfan ef ég man rétt síðan Skífan, þetta var á hendi Jóns Ólafssonar ... á sama tíma var til eitthvað sem hét Steinar og þegar það fór á hausinn Steinar ehf þegar það fór á hausinn held ég Spor.  Síðan keypti Jón Ólafs Steinar Berg og Spor eða hvað það hét en þess ber að geta að þegar fyrirtækin urðu gjaldþrota þá fluttust útgáfuréttir til eins og maður færir rass milli stóla, átakalaust nema það er ekki siðlaust að flytja rass milli stóla og ekki heldur glæpsamlegt.  Á sínum tíma keypti Steinar sem síðan hét Spor eða eitthvað svoleiðis allt efni Fálkans og þar á meðal voru fyrstu diskarnir með Mannakornum. Allt þetta dæmi fluttist á milli gjaldþrota fyrirtækja án þess að nokkurn tíman væri við okkur talað um þessa hreppaflutninga eða að bústjórar sæu nokkuð að því að þessi fyrirtæki vippuðu þessu á milli kennitala. Svo keypti Jón Steinar Berg með húð og hári og hann keypti jörði í Borgarfirði fyrir útgáfuréttina sem hann hafði fært milli fyrirtækja eins og rass milli stóla. Ef það er einhver sem getur sannfært mig um að þetta sé eðlilegt þá gefi hann sig fram í hvelli. Takk fyrir kommentin Einar, það er ekkert sem er eðlilegt við þessi mál.  Halli Reynis, gaman að heyra í þér og til lukku með alla þín fínu útgáfu. Ég mun skoða þetta einkennilega mál þegar Með eld í hjarta breyttist alltíeinu í 11 jólalög.

Pálmi Gunnarsson, 2.6.2007 kl. 01:21

35 identicon

Takk fyrir svarið Pálmi og stuðninginn! Það eru einmitt svona umræður sem fá mig til að efast um eigin trúverðugleika. Er ég ruglaður, gamall og bitur maður, sem fer með illa ígrundað fleipur?...er tilfinning mín sönn. Maður getur svosem farið offari, með reiðina að leiðarljósi. Vona að svo sé ekki. Hingað til hefi ég ekki tapað svefni útaf þessum málum.

Einar Kr. Pálsson (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 07:38

36 identicon

Mér þætti gaman að vita hvað "keligrís" ísl. tónlistarmenningar: Bubbi Morthens, hefur um þessi mál að segja!

Kveðja

Einar Kr. Pálsson (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 07:55

37 identicon

Það er sýnt að téður Ásbjörn "Bubbi Morthens" Kristinsson hefur engan áhuga á samræðum okkar öreiganna. Hann er upptekinn, þessa stundina, við að lesa inn á auglýsingu hjá B&L.

Einar Kr. Pálsson (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 19:05

38 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Bubbi er Bubbi og þannig er nú það ... kallinn hefur tekjur af því að lesa inná bílaauglýsingar og ég ætla svo sem ekkert að fjargviðrast útí það. Það er hans mál hvernig hann lifir sínu lífi sem tónlistarmaður og eru bílar ekki úr stáli.

Pálmi Gunnarsson, 2.6.2007 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband