Af Búhssum og Balsebússum

Eftir að hafa horft á þátt um Jesús Búðirnar í sjónvarpinu í gærkveldi, þá datt mér í hug að henda eftirfarandi kafla úr sögu sem ég er með í tölvunni í vinnslu  -  þessar Jesúsbúðir eru austfirskar.

II

Ég fékk snemma áhuga á Guði, Jesús, dýrðlingum og Maríum. Fyrstu alvarlegu kynni mín af himnafegðunum voru þegar móðir mín fyrir tilstilli Bergþóru Ásgrímsdóttur, úr hvítasunnusöfnuði þorpsins, sendi mig í sunnudagaskóla þar sem messað var yfir okkur um himnaríki og helvíti og okkur syndugum krakkaskrílnum gefnar litlar snotrar bíblíumyndir í lok hverrar messu. Mér fundust þessar myndir alltaf dálítið fyndnar, fallegt fólki í hreinum hvítum kyrtlum að strá pálmalaufblöðum um sólstafateiknaðar götur og torg, skeggsnyrtir hjarðmenn með langa stafi, þrifaleg lömb og drifhvítar dúfur pössuðu illa við grámygluna og fótrakann í Útsveit. Bergþóra hvítasunnukona var kapítuli út af fyrir sig og átti alla mína athygli. Þessi hundrað og þrátíu kílóa kona hafði snúist í einu vetfangi til trúar.  - Guð laust mig auman syndarann á milli eyrnanna og sendi mér elskhugann eina og sanna til að verma sálina;  þrumar hún yfir mér yfir rjúkandi kaffibolla í eldhúsinu heima.  -  Þegar ég tók við honum í sundlauginni um árið koma hann til mín í dúfulíki og hreinsaði mig að innan sem utan; -  Diddi guðsmaður bróðir hennar sá um niðurdýfinguna og gekk hart fram, ákveðinn í að færa bersyndugri systur sinni nýjan mann. Viðstaddir skírnina sögðu að það hefði þurft að blása lífi í Bergþóru eftir niðurdýfinguna. En dúfan kom og Bergþóra gekk í það heilaga í annað sinn.     

Bergþóra stingur uppí sig stórum kandísmola,  - minn blessaði frelsari gaf mér lausn frá öllum mínum syndum stórum og smáum. Ég sé að mamma á erfitt með að halda aftur af sér þar sem hún hnoðar deig í lummur.  Þú varst nú varla svo slæm Bergþóra mín að það hafi staðið í honum Jésús að hreinsa þig;  Bergþóra hrekkur í einni svipan uppá háa séið,  - ekki slæm, ekki slæm!!  kandísfreyðandi munnvatnið frussast í allar áttir -  ég var svo syndug að það hefði orðið erfitt fyrir mig að fá inngöngu í helvíti; ég var kvalinn dag og nótt af öllum þeim verstu löstum sem til eru og hugsanir mínar voru rotnari en hákarlsbeitan hjá Stjána á Súðinni.  Bergþóra stendur með erfiðismunum upp frá borðinu og með upplyftum höndum er skipt um tóntegund;  - en nú er ég hrein eins og nýfallinn mjöll fyrir elsku Jésús sem læknar og græðir, hrein mey fyrir fallega frelsarann minn, halelúja, halelúja, þökk sé þér góði Jesús, minn elskaði unnusti á himnum, halelúja. Mamma djöflast á deiginu eins og hún eigi lífið að leysa og ég sé að hún skemmtir sér.  Heldur þú að Jesús hafi verið svartur, svartur eins og Satan!  Ég veit ekki hvað fékk mig til að láta þetta út úr mér og hefði ég betur látið það eiga sig. Bergþóra horfir á mig um stund, það er eins og hún nái ekki alveg spurningunni. Svo gómar hún mig eldsnöggt með feitri krumlunni og lyftir mér upp og yfir borðið. Hún heldur mér svo nálægt sér að ég sé stíflaðar svitaholurnar á þrútnu andlitinu og eldrauð, æðasprungin augun lýsa af ofsa. Fýlan útúr henni ætlar mig lifandi að drepa og mér verður skyndilega óglatt.  Balsebúb og hans svörtu satansenglar tala í gegnum þig andskotans auminginn þinn og hórkrógi. Svo skellir Bergþóra mér niður þannig að ég enda á hnjánum fyrir framana hana. Hún heldur mér niðri með annarri krumlunni sem er grafinn í öxlina á mér en með hinni bendir hún til himins  - Jesús læknar, hans heilaga orð þvær syndir okkar og þínar líka Sveinn svarti andskoti,  elsku Jesús þvoðu af honum sálina, settu hann á suðu svo hann endi ekki í vistinn hjá Balsebúb sem væri reyndar alveg mátulegt á hann, gerðu það fyrir mig að hreinsa Svein djöful af syndinni. Og  líka hana Stínu af syndinni sem bjó til Svein andskota. Ef hún Stína hefði ekki verið með brókarsótt þá væri ég ekki hér að biðja þessum litla djöfli griða. En hún Stína er vinkona mín svo góði Jesús komdu nú með þvottapokann þinn og þvoðu Svenna að framan og aftan, að innan og utan í Jesús nafni amen - segðu amen andskotinn þinn -  Bergþóra slær mig utan undir.  Mamma stöðvar Bergþóru áður en ég fæ annað högg  - hingað og ekki lengra Bergþóra, svona lætur þú ekki við hann Svein sem hefur alltaf verið góður við þig, hættu .þessu eins og skot.  Við þetta inngrip móður minnar er allt loft úr Bergþóru sem hlammar sé niður við eldhúsborðið og snýr sér að kaffidrykkju og kandísmolasogi.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hahaha frábært! Ég sá öll 130kg af henni Bergþóru og stífluðu svitaholurnar ljóslifandi fyrir mér!!

Heiða B. Heiðars, 11.10.2007 kl. 17:48

2 Smámynd: Adam Ásgeir Óskarsson

Sæll minn kæri.

Þetta hefði getað verið ein af sögunum sem ég hef fengið að heyra á ferðum okkar til eða frá góðri veiðiá. Vona að sagan af hákarlaveiðunum sé líka í þessari bók.

Takk fyrir síðasta tölvupóst, er að vinna mig í gegnum súpuna :-)

Haltu þessum skrifum áfram sem lengst.

Adam Ásgeir Óskarsson, 11.10.2007 kl. 19:05

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Snilldar skrif hjá þér, hlakka til að lesa meira af þessari sögu, eða verður ekki framhald??

Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2007 kl. 22:12

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

 Þú ert ansi góður penni Pálmi, það er virkilega gaman að lesa pistlana þína vinur ,takk fyrir mig kæri  vinur.

kv.Linda L Hilmarsdóttir.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 11.10.2007 kl. 22:24

5 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Snilldar skrif -- gaman að lesa þín skrif

Halldór Sigurðsson, 11.10.2007 kl. 22:29

6 Smámynd: Lárus Gabríel Guðmundsson

Tveir þumlar upp ! Frábær týpa þessi Bergþóra !

Lárus Gabríel Guðmundsson, 11.10.2007 kl. 23:24

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Frábær og ljóslifandi frásögn. Takk fyrir að sýna.

Marta B Helgadóttir, 12.10.2007 kl. 00:07

8 identicon

Góður

Þórarinn Blöndal (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 00:28

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bros allann hringinn. Virkilega geislandi og fjörugur texti, sem ég vona að þú hnoðir saman í skruddu.  Maður sem hefur svo mörgu og misjöfnu að segja frá og hefur verið rasskelltur um víða velli lífsins og sem í ofanálag hefur slíka frásagnagáfu, ætti að vera kærkominn inn á bókmenntasviðið. Sotlight og alles. Bæði Óskar og Nóbel hér ef ekki Ópel.

Hlakka virkilega til að sjá meira af þessu.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2007 kl. 03:03

10 identicon

Það er ekki á þig logið Pálmi að þú er snilldarpenni .

Þetta er alveg hræðilega fyndin saga  .

Einar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 11:12

11 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Frábærlega skemmtileg ... og skuggaleg... lesning.

Takk kærlega

Ragnhildur Jónsdóttir, 12.10.2007 kl. 12:13

12 Smámynd: Heiða  Þórðar

Frábær lesning!

Verð að minnst hér á annað aukreytis! Mér var gefin diskur, stolin og coperaður einhverrstaðar frá. Höfundarlaun og stefgjöld skulu rukkast með C-gíróseðli til þjófsins. Kasta af mér allri ábyrgð þar.

Á disknum stendur með stórum svörtum tússi; Til Heiðu B. (Bergþóru) Pálmi G. (rímar og allt...;))

Síðan þessi diskur barst í hús, hefur húsfreyjunni (sem er ég...) ekki orðið mikið úr verki!

Hefur til að mynda tekið mig 1 1/2 viku að mála eitt stk. bleikt barnaherbergi, með grasi. Skúraði reyndar í gær í "slowmotion"... uppþvottavélin vinnur í hægagangi auk þvottavélarinnar.

En...

...þvílík unaðstilfinning sem fer um mig við að hlusta á þig, finna fyrir englunum sem dansa um heimilið mitt undir fallegum söng þínum.

Bubbi er komin ofaní skúffu! Góða helgi til þín og þinna.

Heiða Þórðar, 13.10.2007 kl. 13:58

13 Smámynd: Fishandchips

Alltaf flottur....

Ég var ekki nema 10 - 12 ára þegar þú komst fram á sviðið og fékk bara í hnén. Frammistaðan í kvöld, fékk bara líka í hnén, en eiginmaðurinn fékk að njóta. Get enganvegin skilið hvernig þú yngist upp með hverju árinu Ekki svo gott hérna megin

Fishandchips, 14.10.2007 kl. 02:09

14 identicon

Kæri Pálmi;

Ég varð bara að segja þér hvað mér fannst þú góður í þættinum í gærkveldi.

Þegar þið Magnús Eiríks. leggið saman er ekki að sökunum að spyrja.

 Vonandi vinnið þið keppnina með stæl.

 Hef alltaf haft gaman af Eurovision og á keppnina á spólum frá ´86.

   Bestu kveðjur.

Gunnlaug Ólafs. (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 12:15

15 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Pálmi, þú ert alltaf góður. Í upphafi lagsins sem þú söngst í gær fann ég fyrir áhrifum fyrri laga sem Magnús Eiríksson gefur samið og þá fyrir þig sem flytjanda. En áfram Pálmi, alltaf bestur.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 14.10.2007 kl. 14:35

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þið félagar báruð af.  "Húsið fullt af fyllibyttum, leigubílar koma og fara..." Ekki laust viða ljúfsárann hroll hjá manni, sem man slíka tíma.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 18:40

17 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Sæll vinur og til hamingju með gærdaginn,þetta var mjög svo grípandi  og skemmtilegt lag og ekki spillti textinn fyrir,dæturnar tóku allt stofugólfið fyrir og dönsuð við dillandi sönginn þinn og Hrundar og skemmtu allir  sér konunglega og nú stendur Isabelin mín hjá mér og vill hún senda þér þúsund kossa biðjum að heilsa og hafið það sem allra best.linda og fjölsk.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.10.2007 kl. 19:59

18 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Kæri Pálmi þú ert besti söngvari í heimi og ég óska þess að þú vinnir keppnina.mér þykir þú skemmtilegur og lögin þín,í morgun horfði é lagið aftur og gat ég ekki hætt að dansa.ég elska þig og alexandra líka.kveðja frá Isabel Diljá og Alexöndru von athenu

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.10.2007 kl. 20:05

19 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

 - einu sinni þoldi ég ekki hól, nú finnst mér það þægilegt ...  takk fyrir mig

Pálmi Gunnarsson, 18.10.2007 kl. 23:54

20 identicon

Rakst hér inn fyrir tilviljun, sagan er frábær og Berþóra frábær. Finnst næstum eins og ég þekki hana.

Svo vorðuð þið mjög góðir þarna á laugardagskvöldið, þrælgóðir.

Theodóra (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 12:32

21 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábært skrif og lifandi frásögn. Þú ert snilldarpenni frændi ein við er að búast

Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.10.2007 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband