Verndun jökulsánna í Skagafirði

20. Október 2006 var stofnaður áhugahópur um verndun jökulsánna í Skagafirði. Hópurinn hefur síðan þá beint sjónum fólks að óafturkræfum áhrifum virkjana í ánum, allt frá jökli til sjávar, og áhrifum þeirra á skagfirskt samfélag.  Um samtökin má lesa nánar á heimsíðu þeirra:  http://www.fiski.net/jokular/    Hvet ég alla náttúruunnendur að skoða heimasíðuna en  efirfarandi fréttatilkynning frá 12. mars síðastliðinn er tekin af henni.

Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði lýsir yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillögu um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

Mikil andstaða er í Skagafirði við þau virkjunaráform sem þröngur en valdamikill hópur hefur á prjónunum. Þar er aðeins horft til skamms tíma og ekkert tillit tekið til náttúrufars á svæðinu. Stíflur í Jökulsánum og Héraðsvötnum myndu hafa mjög alvarleg áhrif á lífríki alls láglendis Skagafjarðar og sömuleiðis á hrygningar- og uppeldisstöðvar nytjafiska í Skagafirði. Þá er alveg ljóst að ferðaþjónustu í héraðinu yrði greitt þungt högg verði ráðist í virkjanirnar og sumar greinar hennar leggjast af, svo sem hinar geysivinsælu og sívaxandi flúðasiglingar. Fráleitt er að tala um hreina orku í tengslum við þessar virkjanir og fórnarkostnaðurinn þeim samfara algjörlega óréttlætanlegur.  Skynsamlegra er að efla ímynd Skagafjarðar sem héraðs með hreina og óspillta náttúru þar sem áhersla verði lögð á matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fjölbreyttan smáiðnað. Með friðlýsingunni opnast möguleiki á stofnun þjóðgarðs, sem hugsanlega yrði hluti af enn stærri þjóðgarði og næði a.m.k. yfir Hofsjökul og umhverfi hans, m.a. Þjórsárver og Kerlingafjöll.

Áhugahópurinn skorar á þingheim allan að samþykkja tillöguna eins og hún liggur fyrir. Full ástæða er til að ætla að auk þingmanna Vg, sem eru flutningsmenn tillögunnar, muni a.m.k. þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar styðja tillöguna, enda er beinlínis tekið fram í stefnuyfirlýsingu hennar „Fagra Ísland“, að „tryggja skuli friðun jökulánna í Skagafirði“ . Það er einnig von okkar að aðrir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, sjái og skilji að mál er orðið að huga betur að náttúru Íslands og samhengi hennar en verið hefur fram til þessa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ansans ári er nú líklegt að verði af álveri á Bakka norðan Húsavíkur þá verði Jökulárnar virkjaðar, því það er nú ljóst að ekki fæst næg orka með gufuaflsvirkjunum á Þeystareykjasvæðinu, eins og komið hefur fram í fréttum. Þá verður dæminu stillt þannig upp, að valið verði milli Jökulsár á Fjöllum, Skjálfandafljóts ellegar Jökulánna í Skagafirði. Þá komist menn að þeirri niðurstöðu að þær verði virkjaðar frekar en hinir tveir kostirnir.

Nöldrari (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 17:24

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er 100% sammála því sem þú skrifar Pálmi.
Ég finn fyrir vanmátt og sorg þegar ég hugsa um að sumir íslendingar elski peninga meira en fallega náttúru.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.3.2008 kl. 18:55

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek heilshugar undir þetta með þér og vísa að gefnu tilefni sérstaklega í tvær síðustu færslur mínar og eiginlega flestallar hinar þess utan.

Ég tek líka undir orð Gunnars Helga, fégræðgin er orðin allri skynsemi yfirsterkari hjá ótrúlega valdamiklum hópi fólks og hún stefnir framtíð okkar og afkomenda okkar í voða.

Virkjanaóðir stóriðjufíklar verða að gera sér grein fyrir því, að þeir eru að leika sér með afkomu margra atvinnugreina með framferði sínu og virkjun á einu svæði getur haft ótrúlega mikil neikvæð áhrif á önnur.

Þetta verður að stöðva.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.3.2008 kl. 20:36

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef það er meirihlutavilji fólksins á svæðinu að ekki eigi að hrófla við þessum ám, þá á auðvitað að virða þá ósk. En einhvernveginn grunar mig nú samt að þetta sé pínulítill hávær minnihluti

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband