Obbolítill ég

Ég rýni oft í stjörnurnar. Stjörnubjartur himinn, túnglið, sólin, óravíddir himingeimsins heilla mig. Allt svo yfirþyrmandi stórt, ég svo obbolítill og forgengilegur.  Ef ég verð duglegur að fara í ræktina og læt ekki eftir mér of mikinn rjóma útí fiskisúpuna og nammi, á ég eftir nokkur ár, trúlega áratugi. Já ég er soddan krýli í hinu stóra samhengi. Ég er hinsvegar ágætur leikari í eðli mínu, get belgt mig út þegar við á, látið eins og ég sé ómissandi, að heimurinn geti bara ekki verið án minnar háæruverðugu persónu, að mínar hugmyndir um allt milli himins og jarðar séu stórmerkilegar pælingar. Svo gýs undir Vatnajökli, land skelfur, talað er um hættu af loftsteinum sem gereyða muni öllu lífi á jörðinni, sjónvarpsskjárinn sýnir mér lítið barn liggjandi í blóði sínu eftir stríðsátök og allur vindur er úr mér. 

Eðlisfræðingurinn og hugsuðurinn Stephen Hawking er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, hann heldur mér við jörðina. Fyrir nokkru sagði hann í viðtali  á BBC að menn þyrftu að fara að huga að landnámi í fjarlægum sólkerfum ef tryggja ætti mannkyni líf, og það mætti ekki taka of langan tíma. Hann nefndi að hamfarir eins og kjarnorkustyrjöld og árekstur við loftsteina yrði hugsanlega til þess að má allt líf af jörðinni , þar að auki gengjum við þannig á náttúruauðlindir með tilheyrandi mengun vatns og lofts að styttra væri í endalokin en okkur óraði fyrir. Það má vel vera að við  eigum nokkur þægileg árhundruð framundan á jörðinni og trúlega getum við, ef við  hugsum dæmið uppá nýtt, framlengt dvöl okkar í einhvern tíma. En til þess þarf hugarfarsbreytingu og hún byrjar hjá mér og þér. Hún hefur með afstöðu okkar til náttúrunnar að gera og hvernig við komum fram við hvort annað. Það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir nýja hugsun, en einmitt núna. 

 

 


mbl.is Þrívíðar myndir af sólinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Já Pálmi við erum ægilega smá í víðerni alheimsins. Ég hef nýlega eignast stjörnukíkir svona amtör+ týpu og maður er agndofa í hvert sinn sem maður horfir í glerið. Ísak Newton reiknaði og reiknaði út endalok mannkyns og eftir margra ára pælingar og yfirlegu yfir reiknistokknum fékk hann út tölu.  Sú tala á samkvæmt hans útreiknningum að vera 2050. Hvort eitthvað komi fyrir þetta ár eða hvað það gæti orðið er ekki aðalatriðið en hugsunin ein að tilvera okkar sé svona brothætt sem raun ber ætti að vera hvatning fyrir mannkynið að eyða meira púðri og peningum í æðri vísindi eins og geimferðir og viðhald mannkyns, frekar en eyðingu þess í einhverju hagsmunapoti hér á jörðu niðri.

Magnús Jónsson, 25.4.2007 kl. 11:47

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir flottan pistil.  Orð í tíma töluð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.4.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæll Magnús og takk fyrir innlitið. Það eina sem við eigum er augnablikið .. og það krefst æfingar að halda sig þar. Flestum er tamara að lifa í komandi dögum eða eftirsjá vegna tapaðs tíma.

Pálmi Gunnarsson, 25.4.2007 kl. 12:28

4 identicon

Þessi pistill sannar (reyndar hinir fyrri líka) hversu mikið erindi þú átt í bloggheima með hugleiðingar þínar. Hér eru grundvallargildin til umræðu. Ég átti einu sinni spjall við unga stúlku um þessi gildi sem þú kemur svo vel til skila í hugleiðingu þinni. Hún sagðist hafa vera alin upp við það að taka eftir fegurðinni í kringum sig, hvort sem það var landslagið, himinninn, tunglið og stjörnurnar eða falleg sál.  Hún sagðist vera mjög svo lituð af þessu uppeldi og það birtist í mörgum myndum, t.d. því að ef hún sæi eitthvað fallegt eða sérstakt í kringum sig væru það ósjálfráð viðbrögð að hafa orð á því og gefa sér tíma til að staldra við og njóta þess. Í hennar huga væri þetta svo eðlilegt og sjálfsagt en þegar hún gerði þetta einhvers staðar þar sem hún væri stödd með jafnöldrum sínum þá liði henni stundum eins og litið væri á hana sem einhverja geimveru  Það væri eins og krakkarnir næðu bara ekki upp í hvað hún væri að meina, það kæmi bara eitthvað hmmm, ... og svo væri bara haldið áfram að tala um nýjasta þáttinn af One Tree Hill eða hvort einhver væri búinn að downlóda diskinum með Mika inn á Ipodinn sinn. já, það er svo sannarlega rétt: Hugfarsbreytingin byrjar hjá okkur, hverju og einu, og hún þolir ekki langa bið.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 14:30

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Enginn veit hvar er upphaf eða endir. Stundum hef ég leikið mér að því að hugsa um það að vel gætum við verið mannabúr, sbr. fiskabúr, hjá langtum stærra samfélagi. Þegar maður er svona obbolítill þá gerir maður sér ekki grein fyrir stærðinni. T.d. litla hambjöllulirfan sem við fundum hér heima um daginn,(mynd af henni á síðunni minni)    sem sást varla með berum augum, gerir sér örugglega ekki grein fyrir í hverskonar ógnarbákni hún lifir í.

Mín kenning er sú að við erum aðeins til skemmtunar og skrauts   hjá okkur mun öflugra samfélagi einhversstaðar í óravíddum alheimsins.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                 s

Rúna Guðfinnsdóttir, 26.4.2007 kl. 09:42

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Í skólanum í fallegu náttúrunni í sveitinni hérna í Englandi gekk allt út að að skynja og skoða. Allan heiminn og tilvistina í samhengi við hvert annað. Sem agnarlítil húsmóðir frá Íslandi upplifði ég svo sterklega alla þessa tengingu og núna er ég svo þakklát fyrir að hafa opnað augun fyrir öllu þessu stórkostlega og fagra í veröldinni, lífinu og mannlífinu. Myndin sem stundum er dregin upp af þessum heimi af fjölmiðlum er ekki alltaf falleg og alls ekki sönn nema að litlum hluta. Það myndi svo mikið hjálpa ef við gætum haft betri mynd af hvar við erum og hvert við violjum í framhaldinu fara. Allt buyrjar í hugsuninni og því skiptir myndin máli og tilfinningin sem fer með sem við sjáum fyrir okkur.

Takk fyrir gefandi blogg Pálmi minn.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.4.2007 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband