Þung spor

Ég er að undirbúa mig andlega fyrir hin þungu spor. Það geri ég best með því að rölta í ræktina, tölta á brettinu og lyfta lóðum. Alveg merkilegt hvað nokkrir mánuðir í líkamlegu púli hafa gerbreytt ákveðnum hlutföllum í lífi mínu að mestu með jákvæðum hætti. Í raun er það eina neikvæða við spriklið að fatalagerinn er í tómu tjóni, nú má ég ekki fara í neitt sem áður smellpassaði á íturvaxinn líkamann án þess að líta út eins og fuglahræða. Ekki það, farið hefur fé betra því ekki er Armani eða Boss fyrir að fara í skápnum. Ég er einn af þessum svifaseinu sem fer ekki í fataverslun fyrr en næðir um beran búkinn og fjölskyldan neitar að fara með mér í bæinn. Þannig að næst á dagskrá er að berja á búðarfælninni og versla föt. Annað sem ræktarátakið hefur haft í för með sér er óendanlegur léttleiki líkamans í tilverunni. Tíu kíló af mör fokin útí veður og vind,  sixpakkinn kominn í leitirnar og brjóskassin sem hafði um nokkurt skeið kallað á notkun brjóstahaldara að kvenna sið orðinn stífur og stæltur á ný. Ætli fyrstu sporin mín í ræktina hafi ekki verið í svipuðum þyngdarklassa og þau sem ég nú er að undirbúa mig andlega undir og aðdragandinn svipaður eða fjögur ár. En þau eru nauðsynleg, því með þeim legg ég mitt af mörkunum um framtíð Íslands, nýti heilagan rétt minn sem fullveðja þjóðfélagsþegns til að hafa áhrif á framvindu mála. 

Vá, er ég að trúa þessari vitleysu, hvernig get ég látið þetta út úr mér !!  Trúi ég því að eitthvað breytist þó valdahlutföll breytist eftir kosningar. Trúi ég því að eitthvað annað afl en það sem nú hefur stýrt skútunni muni taka á óréttlæti, misskiptingu, umhverfismálum, málefnum aldraðra og fatlaðra svo ég nefni nú eitthvað sem ekki er í lagi, ef það fær til þess umboð. Veit ekki, en held þó að hverju þjóðfélagi sé nauðsynlegt að stokka upp spilin af og til og gera hreint útí horn. En áður en ég sekk uppfyrir haus í eigin stjórnmálaspeki þá ætla ég spyrja hana Týru mína ráða. Ef hún svarar með einu mjái og lygnir aftur augunum þýðir það já ef hún leggur eyrun aftur og setur stýrið í lóðrétta stöðu og mjáar tvisvar þá þýðir það nei. Það er verst að Týra er farinn á flakk að veiða mýs og skoða högna þannig að ég verð eina ferðina enn að ganga hin þungu spor og gera upp hug minn ráðgjafalaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ekki spurning Hrafnkell - maður verður léttur eins og fjöður, andleg og líkamlega og trúlega rétt pólitískt hugsandi.

Pálmi Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 13:03

2 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Takið endilega þátt í æsispennandi kosningagetraun: http://sigfus.blog.is/blog/sigfus/entry/207012/

Sigfús Þ. Sigmundsson, 11.5.2007 kl. 14:10

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Gott hjá þér, Pálmi, gaman að lesa þetta. Það sama gerðist hjá mér fyrir þremur árum, fór að hreyfa mig, ganga á jökla og hlaupa með sjónum. Þessi sömu tíu kíló hurfu og hafa ekki sýnt sig enn. Einnig hugsaði ég skýrar og varð því enn blárri. Eins og orkan í alheimi er núll, þá náum við að núlla hver annan á morgun, þannig að atkvæði Hrafnkels ræður úrslitum!

Ívar Pálsson, 11.5.2007 kl. 14:16

4 identicon

Frábært að þú finnir þetta í ludninni. Ef þú vilt ná enn meiri árangri ættir þú að koma með mér í tvær vikur til Póllands og hreinsa burt allar gamlar syndir. Það er detoxsumarfí sem gildir og getur þú lesið meira um meðferðina á detox.is

Velkominn Pálmi!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 14:24

5 Smámynd: Hrólfur Guðmundsson

Kannski ég fari og versli á mig föt.  Mín eru flest útæld eftir langvarandi sukk og svínarí.

Hrólfur Guðmundsson, 11.5.2007 kl. 15:45

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Það er enginn að segja að þú eigir að hætta að vera fýlupoki og kjaftaskur, bara léttur eins og fjöður.  Maður breytir ekki endilega garðhekkinu þó það sé snyrt aðeins á köntunum.  Sigfús - góð hugmynd en þar sem ég fékk óbrigðula spádómsgáfu í vöggugjöf og er hættur að drekka rauðvín þá verð ég að passa.  Félagi Hrólfur, fyrst þú ætlar að kaupa þér ný föt þá ertu trúlega hættur langvarandi sukki og svínaríi sem er fínt. Jónína - ég ætla að lesa um detoxið, reyndar er ég búinn að vera á annan áratug í nokkurskonar langtíma afeitrun þannig að það er ekki víst að detoxið dragi mig til Póllands, hinsvegar hef ég frétt af fínni fluguveiðiá í Póllandi.

Pálmi Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 16:12

7 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Félagi Hrólfur ég kíkti við hjá þér og skemmti mér konunglega. Sá í leiðinni að ég hef misreiknað mig alvarlega, þú drekkur gin úr tebolla og allt.  Blessaður vertu þá ekki að eyða peningum í ný föt. Its a bloody waste of fabric.

Pálmi Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 16:20

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veistu að ég hef spurt mig að þessu sama um hvað verður eftir kosningar Pálmi minn.  Veistu að ég held að ef við náum að skipta um ríkisstjórn, og þeir flokkar sem nu hafa verið sem lengst í andstöðu, þá muni eitthvað breytast.  Og þá er ég að tala um að allt þetta fólk sem þar er hefur verið að hlusta á grasrótina.  Þau hafa einmitt verið að hlusta meðan stjórnvöld hafa setið við hlýja kjötkatla upp í fílabeinsturnum og eru langt í burtu frá fólkinu í landinu.  Það sést best á hvernig þau tala, ekki við fólk heldur yfir það.  Ég er hrædd og er alvarlega að hugsa um hvort ég eigi að loka mig inni á morgun og vita ekkert fyrr en morguninn eftir hvernig allt fer.  Ég veit að ég mun taka þátt í þessu.  Ég hef lagt mitt af mörkum og gert allt sem ég hef getað.  Þannig að ef allt fer á versta veg, þá er það sárt. Ef hins vegar við fáum góða kosningu þá vil ég ekki missa af því.  Bróðir minn sem er eðalsjalli gekk fram hjá mér í dag, ég brosti og ætlaði að heilsa, en hann setti upp ljótan svip og leit í aðra átt.  Ég var ekki sár, en hugsaði mitt.

Við verðum alltaf að bera ábyrgð á því sem við gerum.  Það mun ég gera líka. Og ég er stolt af því sem ég hef verið að vinna að.  Ég tel mig vera að vinna að því að allir hér á landi hafi það betra.  Eitthvað sem stjórnvöld hafa gleymt.  Það þýðir ekki fyrir þá að koma núna rétt fyrir kosningar og lofa milljörðum í eitthvað sem þeir hefðu getað auðveldlega gert s.l. 12 ár.  Og hafa þráfaldlega fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um þessi 12 ár.  Hvað heldur þetta fólk að við séum eiginlega ?

Ég nenni ekki í ræktina, en ég vann mér inn nuddtíma hjá Stúdíó Dan í Óbeislaðri fegurð um daginn og ég ætla mér svo sannarlega að taka þann tíma fljótlega eftir kosningar.  Það hlýtur að vera draumur í dós.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.5.2007 kl. 22:37

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Pálmi Pálmi. Takk fyrir áminninguna um bætta andlega líðan með ræktinni. Nú mun ég drífa mig aftur eftir næstum 2ja ára pásu.

Varðandi kosningarnar; vogun vinnur vogun tapar.

Jóna Á. Gísladóttir, 11.5.2007 kl. 22:46

10 identicon

Enda lítur þú glæsilega út Pálmi minn.   Leynir sér ekki að þér líður vel, að innan og utan. 

Góða helgi

Linda Björk (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 23:46

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Lotte Berk æfingarnar eru engu líkar..láta mann líta út eins og fyrrum ballettdansara.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.5.2007 kl. 23:46

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert skemmtilegur penni Pálmi. Ég geri bara eins og Mark Twain. Þegar hellist yfir mig þörf til þess að hreyfa mig, þá leggst ég í sófan og tilfinningin líður hjá.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.5.2007 kl. 00:05

13 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Einn af mínum allra bestu vinum frá í gamla daga var kall sem vann með mér á pokaloftinu í síldarverkssmiðjunni. Alger gullmoli. Ég kallaði hann Andvarann því maðurinn var úberslakur. Hann kom syfjaður á vaktina, svaf megnið af henni, standandi við pokasílóið þá sjaldan hann stóð við það, tók margar kaffipásur ásamt vini sínum sem svipað var komið fyrir og lagði sig ávallt á eftir hverri pásu. Ég trúi að hann hafi sofið í það minnsta 16 klukkustundir á hverjum sólarhring. Ég er alveg með það á hreinu að hann hefur sofið af sér allar kosningar. Hann var alltaf eins og fjöl. Mark hefði verið ánægður með hann.

Pálmi Gunnarsson, 12.5.2007 kl. 00:17

14 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég hef aldrei, segi og skrifa aldrei í heilsuræktarstöð stigið. Ég er alltaf á leiðinni, stendur til boða frjáls afnot af lítilli stöð fyrir 2000 kr. pr. mánuð. Er það ekki vel sloppið? Ég er alger lúðulaki þessa dagana og letingi. Kannski ég taki ykkur til fyrirmyndar og skelli mér mín fyrstu spor í átt til betra lífs?? Frábært hjá þér Pálmi, öfunda þig.

Rúna Guðfinnsdóttir, 12.5.2007 kl. 01:14

15 Smámynd: Steingrímur Helgason

Pálmi, ef að þú lætur Ninnu litlu plata þig til Póllands & reka rör upp í einstefnuventilinn, þá er okkar frændskapur af.

S.

Steingrímur Helgason, 12.5.2007 kl. 01:29

16 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Jú Anna mikið rétt síldarbræðslan á Vopnafirði var það -  ...  Steingrímur minn - ég læt mér ekki detta í huga að fara til Póllands í hreinsun en í skoðunar og veiðiferð það er allt annar handleggur. Góðan kosningadag öll sömul

Pálmi Gunnarsson, 12.5.2007 kl. 01:36

17 Smámynd: www.zordis.com

Flott skrifin þín og góðar umræður í kjölfar!  Ætli breytingar hefjist ekki í okkar eigin hugarfari, hreinn líkami, hrein sál ... 

www.zordis.com, 12.5.2007 kl. 08:54

18 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Kjósum nú rétt! Allir hafa gott af breytingum, það hristir upp í heilasellunum! Menn eru búnir að vera of lengi í þægindunum að maka krókinn, tími til að breyta!

G.Helga Ingadóttir, 12.5.2007 kl. 09:45

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er að fara til Póllands í júní, Krakow. Pústurörið fær að vera í friði fyrir heimsóknum þá sem endranær (fyrir utan þegar ég fór í ristilskoðun fyrir nokrum mánuðum síðan). Djö.. var það vont

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.5.2007 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband