15.5.2007 | 17:09
Þjóðarsátt - þjóðarsátt - þjóðarsátt
Ég er kominn heim í heiðardalinn eftir bráðskemmtilega ferð í höfuðborgina. Söng með Palla á Nasa og fór svo heima að horfa á kosningasjónvarp en missti meðvitund eftir að Guðmundur Steingríms hafði fellt stjórnina nokkrum sinnum. Íslenskri þjóð óska ég til hamingju með sigurinn í kosningunum. Allir virðast hafa unnið stórsigur sem þýðir að þjóðin er sigurvegarinn en það vekur mig til umhugsunar um hvort eitthvað sé í íslenska kranavatninu sem rugli boðefni í heilum landsmanna.
Víst er að íslenska þjóðin uppskar eins og hún sáði og nú þýðir ekkert annað en bretta upp ermar og þjóðarsátta til hægri og vinstri. Þjóðarsátt um allar virkjanirnar sem á að reisa og öll fallvötnin sem á að temja er fyrst á dagskrá. Þjóðarsátt þarf um einkavæðingu þeirra horrimarfyrirtækja sem ennþá eru í eigu ríkisins og þjóðarsátt um kosningaloforðavíxilinn uppá nokkur hundruð milljarða sem gefinn var út fyrir kosningar er á forgangslista. Það þarf að nást sátt um þjóðarauðlindina þ.e. hversu langt megi ganga í að svindla á kvótakerfinu. Best að láta LÍÚ og sjávarútvegsráðherrann um þá hugmyndavinnu, þeir eru hagvanir. Ef illa gengur að ná lendingu má fá Kristján Júl og Þorstein Baldvins til að lemja sáttina saman.
Ná þarf sátt um gamlingjavandann þ.e. hversu langt megi ganga á rétt þeirra án þess að það fari yfir velsæmismörk og það sama á að sjálfsögðu við um alla minnihlutahópa sem þvælast fyrir í þjóðfélaginu og gera ekkert annað en vera með leiðindi og heimta aukin útgjöld. Ná þarf sátt um sölu lands til fárra útvaldra, sú sátt gæti miðast við hversu mikil ítök jarðarkaupendur yrðu að hafa í fjármálastofnunum. Svo legg ég til útgáfu á 2012 með Ómari og Jóni Sig. Klárlega hittari og myndi greiða götu sátta um allt milli himins og jarðar.
Nú þarf ég að fara að hugsa um eitthvað annað en pólitík því framundan er alþjóðleg tónlistarhátíð á Akureyri. Ég veit ekki hvort þið sáuð heimildamyndina um argentísku tangóhljómsveitina í sjónvarpinu í gærkvöldi en þessi ótrúlega hljómsveit verður eitt af aðalnúmerum hátíðarinnar. Ef þið sáuð ekki þáttinn þá verður hann endursýndur næsta sunnudagsmorgun, missið ekki af honum fyrir nokkurn mun. Svo í framhaldinu gætuð þið brugðið undir ykkur betri fætinum helgina 31 maí - 3 júní og komið norður á hátíð. Fyrir forvitna læt ég link heimasíðu hátíðarinnar fylgja með www.aimfestival.is
Athugasemdir
Hvernig var textinn?
Ég er kominn heim í heiðardalinn ég er kominn heim með slitna skó. Kominn heim að heilsa mömmu kominn heim í leit að ró. Kominn heim til að hlusta á lækinn sem hjalar við mosató, kominn heim til að...? Nú mátt þú halda áfram...
Guðrún Magnea Helgadóttir, 15.5.2007 kl. 19:18
Mér líst vel á þessa tónlistarhátíð. En þetta með þjóðarsáttina. Við erum alltaf að gera þjóðarsáttir. Ef við byggjum ekki við eina alsherjarþjóðarsátt þá væri heldur betur ófriðvænlegt í landinu. Það þarf hins vegar að laga velferðarhallann fyrir aldraða og öryrkja. Það á að vera þóðarsátt um það. Synd að missa af þér á NASA
Jón Magnússon, 15.5.2007 kl. 21:21
Hvað finnst þér um Jóhann/Groban lagið??
Ásdís Sigurðardóttir, 15.5.2007 kl. 21:30
Sæll Jón og til hamingju með þingsætið. Þið Frjálslyndir voruð með mörg góð mál á stefnuskrá og trú mín er að þið eigið eftir að láta mikið að ykkur kveða í framtíðinni. Það er laukrétt hjá þér - aldraðir og öryrkjar eiga að vera næstir á dagskrá yfir nauðsynlegar endurbætur á velferðakerfinu, en það á ég eftir að sjá gerast. Gangi þér vel vinur.
Ásdís - já það er þetta með lagastuldinn .... ég held að einhver af klassísku snillingunum hafi einhverntímann sagt að öll tónlist væri fengin að láni. Ég held að það sé margt til í því. Einhver minnti á að viðlagið í Söknuði væri sláandi líkt viðlagi gamla írska slagarans Oh Danny boy og þannig væri trúlega hægt að spinna hvert einasta lag sem samið hefur verið.
Guðrún Magnea - ég er kominn heim í heiðardalinn, ég er kominn heim með slitna skó.
Pálmi Gunnarsson, 15.5.2007 kl. 21:55
Sem betur fer er þetta satt: Heima er best.
Jóna Á. Gísladóttir, 15.5.2007 kl. 22:05
já satt er það heima er best
Gunnlaugur Halldór Halldórsson, 15.5.2007 kl. 23:25
kvitt ! Það er gott með menningu og listir
ljós
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 16.5.2007 kl. 05:49
Hef aldrei lagt leið mína á Nasa, en hefði alveg verið til að leggja lykkju á leið mína sl. helgi; þú ert snillingur!
Heima er best. Heima með Pálma syngjandi hlýtur að vera allra best.
Óska þér og þínum gleðidags, stútfullan af unaðstundum, innpakkaðan með rauðri slaufu frá mér.
Heiða Þórðar, 16.5.2007 kl. 07:49
Einhver von á að fá að sjá Mannakornum bregða fyrir einhversstaðar á næstunni? *depla-bláum-augum-ótt-og-títt*
Hugarfluga, 16.5.2007 kl. 21:28
Og ég hélt að ég væri kaldhæðinn! Ég er greinilega bara volghæðinn. En sammála. Við þurfum þjóðarsátt um sölu Landsvirkjunar, einkavæðingu öldrunarþjónustu með maximum skilvirkni að leiðarljósi, samstöðu um brottkast undirmálsfisks, stuðning við aukna "friðargæslu", stuðning við Bush og hverjir eigi olíuleiðslur Íraks. Vil benda á að aldraðir eru seinþreyttir til vandræða enda vanir skorti. Þarna getur næsta ríkisstjórn sparað! Jafnvel nógu mikið til að auka ábyrgðir sínar til Landsvirkjunar og gera að fýsilegri fjárfestingarkosti fyrir Rio Tinto. Bara hugmynd.
En Pálmi........ Eikin er að koma saman á rás2 fljótlega. Hríslan og staumurinn var andvirkjanasinnað framtak. Eigum við ekki að setja saman prógram um að bjarga Þjórsá? Jarða þessa fasista með rokki?
Ævar Rafn Kjartansson, 16.5.2007 kl. 23:37
Sæll frændi
Sama hvar þú drepur niður fæti, alltaf á toppnum! Líst feikna vel á þessa tónlistarhátíð ykkar norðan heiða. Hefði verið gaman að sjá og heyra dýrðina. Vinir okkar á Djúpavogi verða með sína hammond hátíð um næstu mánaðarmót. Slóðin hjá þeim er ww.djupivogur.is/hammond/ Á hátíðinni koma fram margir ótrúlegir snillingar m.a. menn sem sem legið hafa undir feldi í c.a. 30 ár. Bíð mest eftir að heyra í Hrund sem er SÖNGKONAN í mínum huga. Fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa til baka á Norðurljósablús. Ótrúleg upplifun að heyra í henni sem og ykkur. Hafðu það sem best.
kv. Bjössi
Björn Sigfinns. (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 23:47
gaman að heyra í ykkur og takk fyrir uppörvandi og hlýjar kveðjur... ekki veitir af í norðangarranum. Ég held ég fari með það rétt að við Mannakorn séum með tónleika í Salnum í Kópavogi 23 júní. Við höfum haldið fjöldann allan af tónleikum í þessu litla en afar skemmtilega tónleikahúsi og hljóðritað efni á tvo diska. Ævar - ég er svo sannarlega til í að afvirkja og afála með tónlist hvenær sem er og skemmtilegt að Ekin skuli vera að skríða úr hýði. Bjössi frændi frá Hornafirði - takk fyrir síðast.
Pálmi Gunnarsson, 17.5.2007 kl. 10:28
Þú ert ágætur penni, þér er sem sagt margt til lista lagt. Fínt að eiga þig að Bloggvini, nú get ég farið beina leið að textanum þínum og það er flott. Takk fyrir svarið þitt.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 17.5.2007 kl. 16:35
Salurinn? 23. júní? It's a date!!!!
Hugarfluga, 21.5.2007 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.