17.4.2007 | 01:18
Það kvað vera fallegt í Kína
Ástandið í stórum hluta fljótsins Yangtze er afar alvarlegt segir í MBL. Jæja já er það slæmt? 14 milljarðar tonna af úrgangi er dálítið mikið en Kína er jú stórt land og þar búa margir. Kínverjar eru nýbúnir að fatta bílinn, ískápa og verðbréf og ráða nú um stundir ekki alveg við sig í gengdarlausu velmegunarruglinu. Víst eru 14 milljarðar tonna mikill skítur og slæmt hvað kínverski fiskurinn á erfitt með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. En þarf ég nokkuð að vera að tala um Kínverjana og þeirra flór. Á ég ekki bara að líta mér nær því nægur er vor íslenski úrgangur.
Þegar ég var á leið í veiði um daginn og keyrði út með Eyjafirði áttaði ég mig á því hversu mikið augnayndi baggaplast á girðingum er. Það var sunnanþeyr og báðum megin vegar á margra kílómetra svæði voru girðingar þaktar þessu náttúruvæna efni, sem er orðið grænt á litinn að auki. Þegar ég svo kastaði á uppáhaldsstaðinn í ánni var botninn þakinn baggaplasti. Baggaplast er létt og fýkur auðveldlega yfir hæðir, frá bændum en AÐEINS ef því er sleppt lausu eftir notkun. Kannski gleyma bændur hvað plastið er létt. Eða halda að það sjái um sig sjálft eftir notkun. Eða kannski er þeim andskotans sama um eitthvað baggaplast. Hafa líka í nógu að snúast við að selja jarðir.
Mér sýndist það eftir partíið hjá framhaldsskólanemum í Höllinni á Akureyri, þar sem ungarnir okkar brugðu á leik, að hugsanlega séu þarna limirnir að dansa eftir höfðinu. Varla lófastór blettur frá höll niður í miðbæ sem ekki hafði fengið andlitslyftingu af brotnum bjórflöskum og öðru smálegu sem leiðinlegt er að burðast með þegar farið er á djammið.
En þetta er ungt og leikur sér, benti vinur minn mér á þegar ég ræddi losun rusls í miðbæ Akureyrar. Má vera, má vera - en fjandakornið ekki bændur!
Mengun Yangtze-fljótsins óafturkallanleg" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2007 | 13:48
Það er svo skrýtið
Mér finnst við hæfi að fyrsta bloggfærslan sé nokkuð löng enda er mér talsvert mikið niðri fyrir.
Það er merkilegt hvað mannskepnan er skrýtin skepna. Þegar mest liggur við að hún noti vitið sem henni er gefið í þó nokkrum mæli farnast henni oftast illa. Vitfirringin sem hrjáð hefur mannkyn um aldir og gerir enn, blóðug stríð manna á milli með tilheyrandi hernaðarbrölti og skepnuskap er skýrasta dæmið um þetta. Þegar sagan er skoðuð sést skrifað á annarri hverri síðu hvernig snarklikkaðir einstaklingar hafa náð valdastöðum, oftast með fulltingi þeirra sem taldir eru með réttu ráði, það er þjóðfélagsþegnanna sem standa að baki klikkhausunum. Margir frægir komast í heiðurhöll klikkhausa Hitler; Stalín og núna í seinni tíð, Bush og Blair og hvað þeir nú allir heita sem bera fyrir sig lýðræðiskjöldinn þegar þeir þurfa að fara á skytterí. Ekki verður litið framhjá mönnunum með stóru heilana sem hafa með vísindaþekkingu sinni búið svo um hnútana, að með einni skipan er hægt að rústa heiminum eins og við þekkjum hann í dag. Að öllum líkindum á það eftir að gerast þó maður leiði hugann helst ekki inná þær brautir. En þrátt fyrir upplýsingaöldina geysa ennþá ægileg stríð með tilheyrandi andskotagangi, í skjóli trúarbragða og landvinninga. Þar ríður illskan vökrum hesti. Íslenska þjóðin hefur á liðnum árum ekki þurft að hafa stórar áhyggjur af stríðsleikjum fullorðinna nema þegar samviskan býður henni að gefa í Rauðakross baukinn eða senda jólapakka til barna sem eiga í fæstum tilfellum nokkra von um eðlilegt líf. Hér er enginn her sem að gagni kemur þó Bjössi B vilji her og leyniþjónustu. Miðnesheiðarherstöðin sem nú er aflögð í bili, gat varla talist meira en léttur æfingavöllur sem bæði var sjálfsagt og eðlilegt að við létum vinum okkar í té. Vinum sem bægt hafa illum öflum frá okkar litla landi frá lokum síðustu heimsstyrjaldar. Hingað komu þeir á ögurstundu og breyttu í einni svipan bakbognum horgemlingum sem nýskriðnir voru út úr lúsariðandi moldarkofunum og höfðu vart í kjaftinn á sér, í velefnað fyrirfólk sem dansaði um helgar á Borginni og þakkaði guði í hljóðri bæn í sunnudagsmessum fyrir stríðsgullið.
Hverjum er það fyrst og fremst að þakka að Íslendingar eru taldir með hamingjusömustu þjóðum í heimi? Svarið er einfalt. Seinni heimstyrjöldinni og frelsisvindunum sem fylgdu herjum bandamanna. Svo hvern fjandann erum við að mótmæla byssumönnum og hergagnaframleiðendum? Seinni heimsstyrjöldin með öllum sínum hörmungum lagði grunninn að heimsfrægri hamingju okkar. Það voru herþjóðirnar Bretland og Bandaríkin sem leystu okkur endanlega úr hlekkjum fortíðar sem einkennst hafði af eymd og volæði, lúsartínslu og forpokuðu rímnavæli. Stórfenglegur uppruni íslensku þjóðarinnar sem fram að þessu hafði verið það eina sem híft gat sjálfsvirðingu hinna armæddu nýlenduþræla upp fyrir núll gráðuna, varð alltíeinu svo ómerkilegur við hlið hámenningarinnar og velsældarinnar sem bandamenn færðu okkur á silfurfati. Slefandi af langvarandi niðurlægingu sultar og seyru hengdi þjóðin sig á kjötkatla herraþjóðanna og hangir þar enn.
Hitt er svo annað mál hvort uppruni okkar var yfir höfuð nokkuð til að halda á lofti nema í fáum undantekningatilfellum. Hetjuljóminn sem lýsti af norsku ræningjunum sem hingað flúðu undan ofríki hins hárprúða Haralds og hjuggu mann og annan í frístundum, virtist lítið meira en týra á kolu í samanburði við ljómann af frelsisljósinu em lýsti hinn nýja veg. Það er dálítið kaldhæðnislegt að á meðan við gleymdum vafasömum upprunanum og gengum fylktu liði inní yfirlýst hamingjulandið, sátu Hitler og hans meðreiðarsveinar í grunni þúsundáraríkisins í útópískri sjálfsfróun, yfirkomnir af aðdáun á tandurhreinum kynstofni sögueyjunnar. Í þeirra augum var Ísland fyriheitna landið; land hreinleikans, og fólkið sem það byggði, óspillt af baneitruðum áhrifum óæskilegra kynstofna. Sögurnar, stútfullar af hetjudáðum, dulúð og Wagnerrískum útblæstri, féllu eins og flís við rass að hugmyndafræði þýsku stjórnarherranna.
En Guð er góður og með snilldarútspili þess sem öllu ræður forðaði hann okkur frá eilífum gæsagangi Hitlers og leiddi okkur inn í nýja tíma sem gerði okkur að hamingjusömustu þjóð í heimi.
Eftir að stríðsgróðinn hafði hlaðið ofurlitlu fitulagi á horaða kroppana hófst uppbygging hins nýuppgötvaða eylands. Ísland var komið á kortið, þannig lagað. Herstöðin á Miðnesheiði og radarstöðin á Stokksnesi svo fátt eitt sé nefnt, voru mikilvægar Stóra bróður og það setti okkur í vænlega stöðu. Allir græddu á hermanginu og öflug fyrirtæki urðu til. Kolkrabbinn skreið úr fylgsni sínu sveiflandi liðugum örmum sínum og Kommúnistar hófu að andæfa með árvissum Keflavíkurgöngum. Þjóðin var endurfædd.
Frá þessum árdögum frelsis og framfara hefur Íslendingum stöðugt vaxið ásmegin. Nú er svo komið að vart finnst sú þjóð á þessari hraðskreiðu steinkúlu sem kallast Móðir Jörð, sem jafnast á við Íslendinga í atgervi, andlegu og líkamlegu. Í það minnsta kemur það fram í ræðum og riti á hátíðis- og tyllidögum. -Innhald þessara oft svo keimlíku hátíðaræða fyrirmanna lýðveldisins er yfirleitt á einn veg. Hér óspillt stjórnarfar, atvinnuleysi í lágmarki, vel hlúð að öldruðum og veikum, umhverfisvernd í hávegum höfð, glæpir fátíðir og menning og listir samsvarandi því sem best gerist. Ekki að undra ofvöxtinn í hamingjunni miðað við alla þessa andlegu og veraldlegu auðlegð.
Hátíðarithöfundarnir vitna að sjálfsögðu í þá sem frægastir eru á hverjum tíma svona eins og til eigna sér að hluta til frægðina. Í seinni tíð eru það Vigdís, Björk, Friðrik Þór og Kristján Jóhannsson sem eru vinsæl, þó Kristján hafi aðeins fallið vegna eðlilegra norðlenskra skapsveifla, og svo má ekki gleyma skáldajöfrinum mesta Halldóri Kiljan Laxness sem er nú mestur og bestur. Við montum okkur í þessum ræðum af því að hafa lúbarið breska ljónið til hlýðni í tvöhundruðmílna þrasinu, ekki einu sinn heldur tvisvar og svo er vinsælt að nefna það þegar við skutum skjólshúsi yfir Rússa og Bandaríkjamenn þegar grunnurinn að heimsfriðnum sem reyndar lætur nú bíða svolítið eftir sér, var lagður fyrir tilstilli kúrekahetjunnar og Gorba. Þetta er sígilt hátíðarræðufóður.
Í þessu frægramannatali verður ekki gengið framhjá einum þekktasta syni Íslands fyrr og síðar, Leifi Eiríkssyni. Leifur Eiríksson sem frekjurnar í Noregi vilja alltíeinu eigna sér var að sjálfsögðu rammíslenskur. Þessi frægi sæfari sem sigldi út um allt í leit að fyrirheitna landinu rambaði fyrir tilviljun á Ameríku fyrstur hvítra manna og verður þessi ótrúlega heppni víkingsins að teljast heppni sögunnar. Verst er að við getum ekki sannað landafundinn, því þá gætum við án þess að blikna gert tilkall til Ameríku og sett Bush á hliðarlínuna.
Hátíðarræðurnar tíunda reyndar ekki nema að litlu leyti þá staðreynd að á Íslandi búa tvær þjóðir. Önnur sem fær meira og hin sem fær minna og sú sem fær minna fær miklu miklu minna en sú sem fær næstum því allt. Til þess að halda þessu á þennan veginn kjósum við nokkra tugi láglaunamanna og kvenna til að sitja á rassinum í steinhúsinu við Austurvöll í tómum leiðindum; tala viturlega úr pontu og reyna sem mest þeir geta að tryggja sig fyrir næstu kosningabaráttu og búa í haginn fyrir feit eftilaun. Í steinhúsinu við Austurvöll fæðast orðin innihaldsrýr. Meira að segja kommarnir sem sungu hér á árum áður Nallann við hvert tækifæri og áttu það til að klóra í Kolkrabbann og íhaldið, eru að mestu hættir að tala um jöfnuð og bræðralag nema svona smá gusu rétt fyrir kosningar,líta jafnvel hýru auga til erkifjandans íhaldsins. Þeir sem harðast héldu uppi vörnum fyrir karla og kerlingar á hungurlaunum eru farnir að skilja að til þess að halda þjóðinni í jafnvægi þarf að skipta völdum og áhrifum á mjög svo ákveðinn hátt. Að lág laun þorra landsmanna og forgjafir á silfurfati til fárra útvalinna séu og verði um alla framtíð forsendur framfara og hagsældar. Og sú er staðan mánuð fyrir kosningar á því herrans ári 2007.