27.4.2007 | 14:01
Mig dreymdi draum ...
... hann var einhvern veginn svona:
Ég er hættur að vinna og eyði áhyggjulaus tímanum í karabíska hafinu. Hringi heim til að athuga heilsufar minna nánustu, síðan stutt símtal við verðbréfamiðlarann þar sem við tökum stöðuna, ráðfæri mig við hann um kaup á bréfum í góðum fyrirtækjum. Skoða MBL. Allt í lukkunnar velstandi á klakanum, þjóðarsátt um fleiri virkjanir, fleiri álver í höfn. Herþoturnar frá kære nordiske farnar að æfa árásir á Akureyrarflugvöll, svona eins og þær frá USA í den. Dreg mannakorn dagsins:
Ég trúi á heilagan mammon, skapara velsældar minnar
Ég trúi á afhendingu þjóðarauðæva, einkavæðingu ríkisstofnana, misnotkun valds og létta spillingu
Ég trúi á flokkinn minn,
leiðtogann minn,
samfélag útvalinna,
fyrirgefningu smáyfirsjóna,
upprisu einkavæðingar
og eilífa kaupmáttaraukningu mína.
AMEN
Vakna.
Á næstu dögum leggst ég undir hnífinn og læt taka draumastöðina úr sambandi ... fyrir fullt og allt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
26.4.2007 | 15:14
Fréttir og EKKIfréttir!
Þegar ég las þessa frétt, sem m.a. fjallaði um handtöku konu í annarlegu ástandi í miðborg Reykjavíkur, datt mér í hug hvort ekki væri athugandi hjá mbl að hafa sérstakan dálk þar sem sagðar væru daglegar fréttir af fólki sem er í annarlegur ástandi í miðbæ Reykjavíkur af völdum áfengisneyslu. Frétt eins og þessi finnst mér dæmigerð EKKIfrétt, skilar engu inní forvarnarumræðuna, eykur aðeins andúð hins almenna borgara á helvítis eiturlyfjapakkinu í stað þess að beina athyglinni að því sem raunverulega skiptir máli.
Fíkniefni fundust við húsleit í Breiðholti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
25.4.2007 | 10:32
Obbolítill ég
Ég rýni oft í stjörnurnar. Stjörnubjartur himinn, túnglið, sólin, óravíddir himingeimsins heilla mig. Allt svo yfirþyrmandi stórt, ég svo obbolítill og forgengilegur. Ef ég verð duglegur að fara í ræktina og læt ekki eftir mér of mikinn rjóma útí fiskisúpuna og nammi, á ég eftir nokkur ár, trúlega áratugi. Já ég er soddan krýli í hinu stóra samhengi. Ég er hinsvegar ágætur leikari í eðli mínu, get belgt mig út þegar við á, látið eins og ég sé ómissandi, að heimurinn geti bara ekki verið án minnar háæruverðugu persónu, að mínar hugmyndir um allt milli himins og jarðar séu stórmerkilegar pælingar. Svo gýs undir Vatnajökli, land skelfur, talað er um hættu af loftsteinum sem gereyða muni öllu lífi á jörðinni, sjónvarpsskjárinn sýnir mér lítið barn liggjandi í blóði sínu eftir stríðsátök og allur vindur er úr mér.
Eðlisfræðingurinn og hugsuðurinn Stephen Hawking er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, hann heldur mér við jörðina. Fyrir nokkru sagði hann í viðtali á BBC að menn þyrftu að fara að huga að landnámi í fjarlægum sólkerfum ef tryggja ætti mannkyni líf, og það mætti ekki taka of langan tíma. Hann nefndi að hamfarir eins og kjarnorkustyrjöld og árekstur við loftsteina yrði hugsanlega til þess að má allt líf af jörðinni , þar að auki gengjum við þannig á náttúruauðlindir með tilheyrandi mengun vatns og lofts að styttra væri í endalokin en okkur óraði fyrir. Það má vel vera að við eigum nokkur þægileg árhundruð framundan á jörðinni og trúlega getum við, ef við hugsum dæmið uppá nýtt, framlengt dvöl okkar í einhvern tíma. En til þess þarf hugarfarsbreytingu og hún byrjar hjá mér og þér. Hún hefur með afstöðu okkar til náttúrunnar að gera og hvernig við komum fram við hvort annað. Það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir nýja hugsun, en einmitt núna.
Þrívíðar myndir af sólinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.4.2007 | 12:21
Slakamynduníhagkerfihjöðnunfasteignaverðshækkana - pepp
Á lítilli eyju við nyrsta haf býr þjóð, hamingjusöm þjóð. Ef eitthvað bjátar á, fá eyjarskeggjar pepplesningu sem er til þess gerð að láta fólki líða betur næstu árin.
Í þeirri lesningu er talað um slakamyndun í hagkerfi, vaxtarspretti, bylgju fjárfestinga íslenskra fyrirtækja erlendis, mikla uppbyggingu í efnahagslífinu, samdrátt í útflutningi, aukningu og samdrátt á innflutningi,viðskiptahalla, landsframleiðslu,vöxt þjóðarútgjalda, neyslu og fjárfestingar, hagvöxt, Þjóðarútgjöld, neyslu og fjárfestingar, samdrátt í fjáfestingum, stóriðjuframkvæmdir,smávægilegan samdrátt í einkaneyslu,bata í utanríkisviðskiptum,framleiðsluspenna í hagkerfinu,lækkun á gengi krónunnar, hækkun launa,hjöðnun fasteignaverðshækkana (ha) mótverkandi áhrif,gengis - og launabreytingar, verðbólgu, verðbólgumarkmið,hækkun tekna, lækkun skatta, aukin kaupmátt ráðstöfunartekna, öra eignamyndun, hækkun eignaverðs, hagkerfi í jafvægi, meðaltal hagvaxtar, helstu óvissuþætti, frekari stóriðjuframkvæmdir,ástand á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, gengi krónunnar og endurnýjun kjarasamninga.
Það sem brennur á mér prívat og persónulega eftir pepplesninguna er þetta. Því í ósköpunum er þörf á að nota svona mörg leiðinleg orð til að lýsa því hvernig hamingjulandið muni líta út næstu árin. ha
Meira jafnvægi að komast á í hagkerfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.4.2007 | 18:02
Að höggva mann og annan
Strákurinn minn vann í Sádí Arabíu um skeið. Ég pumpaði hann að sjálfsögðu um land og þjóð eins og það kom honum fyrir sjónir. Fátt hafði hann gott um Sáda að segja. Einn vina hans fór á torgið á föstudegi eftir bænir og fylgdist með aftöku sem aulýst hafði verið eins og um rokktónleika væri að ræða. Trúlega hefur forvitnin dregið hann áfram á asnaeyrunum. Hann þurfti áfallahjálp eftir sýninguna. Í viðtali við aðalböðul Sáda segist hann hreykinn af vinnunni sinni og að hann gangi glaður til verka, fyrir Guð. Sádar deyfa þá sem eiga að hálshöggvast fyrir aftöku. Þeir hálshöggva fyrir morð,framhjáhald, eitulyfjasmygl, samkynhneigð svo eitthvað sé nefnt. Fyrir minni glæpi höggva þeir hendur og fætur af fólki, eða húðstrýkja. Sádar höggva mest af Nigeríumönnum ef mið er tekið af lista Amnesty Int. Strákurinn minn sagði mér að meðan hann hefði dvalið í SA hefðu útlendingar verið í meirihluta þeirra sem höggnir voru. En hvað er ég að viðra þetta. Jú ég er á móti dauðarefsingum, hvort sem þær eru framkvæmdar með sverði eða eitri og ég er andsnúinn löndum sem fara illa með fólk. Þegar við friðelskandi Íslendingar lögðumst svo lágt að senda forseta Alþingis í opinbera heimsókn í karlkjólaveldið leið mér ekki vel. Sádí Arabía er eitt allra ógeðslegasta einræðisríki í heimi og mannréttindabrot eitt af aðalsmerkjum þess. Við slík ríki eigum við ekki að eiga tengsl með nokkrum hætti.
Fjórar aftökur í Sádí Arabíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
22.4.2007 | 12:51
Ölæði, brjálæði
Mér er sagt að molikúl alkóhóls sé furðulegt útlits, á eftir að skoða mynd af því en kemur mér satt best að segja ekkert á óvart. Allavega verður einstaklingur sem hefur innbyrt vel af vímugjöfum furðulegur bæði í hegðun og hugsun. Ég hef þó nokkra reynslu af inntöku gleðigjafa af ýmsum sortum. Hló og skemmti mér í fyrstu en svo kárnaði gamanið, stjórnleysi drykkjusýkinnar tók yfir og ég var hættur að ráða ferðinni, sem ég trúlega réð aldrei. Áhrif alkóhóls og annarra vímugjafa á hausinn eru þessi: Eftir inntöku í miklu magni, geðfatlast einstaklingurinn um stund. Kemur það fram með ýmsum hætti sem ekki er ástæða til að tíunda. Ef einstaklingurinn er ofnæmur endar gamanið gjarnan með varanlegri geðfötlun eða dauða. Neysluhóparnir eru þeir ofnæmu og svo hófneytendur. Benda má á að áhrif áfengis og dóps á taugakerfið eru eins hjá báðum neysluhópunum.
Læt fylgja með kvæði eftir vin minn og samstarfsfélaga Magnús Eiríksson. Braginn er að finna á samnefndum diski sem við hljóðrituðum fyrir nokkrum áratugum.
Í ljúfum leik
Liggur einn og yfirgefinn
einhvers staðar útí horni
orðinn mjög af elli blakkur
áfengi og reyk
Var hann þó á lífsins morgni
oft í fylgd með góðum drengjum
glumdi rokk í silfurstrengjum
allt í ljúfum leik
Magnaður með rafmagnskrafti
menn gat látið halda kjafti
yfirgnæfði allt og alla
allt í ljúfum leik
Sé ég ennþá káta karla
koma heim og standa varla
en það er bara í minningunni
allt í ljúfum leik
Tóku tvísöng vældu hlógu
teygðu langt á typpi mjóu
drukku reyktu duttu dóu
allt í ljúfum leik
Ölæði þolanda og geranda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
19.4.2007 | 14:07
Stríð og friður
Ég er á móti stríði með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgja. Allar götur síðan ég fæddist um miðja síðustu öld hafa stríð geisað einhvers staðar í heiminum. Ég hef notið þeirra froréttinda að lifa í landi þar sem menn eru ekki neyddir í her með lögum, til að læra hvernig á að drepa fólk. Ég hef þó ekki sloppið alveg því ákveðið var á átakatímum að Íslendingar þyrftu verndara með vopn. Nú eru þeir farnir með þotur og liðssafnað og farið hefur fé betra. Frá því stríðsmangarinn Bush yngri komst til valda og fór að tala um öxulveldi hins illa í öðru hverju orði hefur staðan í heimsmálum versnað svo um munar. Lygar, botnlaus spilling, peninga- og valdagræðgi hafa einkennt stjórnartíð hans og eftir liggja hundruðir þúsunda manna í valnum og sér ekki fyrir endann á hörmungunum. Við Íslendingar skráðum okkur í lið með stríðsherranum á sínum tíma sem er trúlega versti skammarblettur sem á þjóðina hefur fallið. Fyrir það þurfum við að kvitta með einhverjum hætti, gætum til að mynda byrjað með að bjóða einni og einni írakskri fjölskyldu með sár á sálinni skjól. Bush fer frá sem betur fer og ég vona svo sannarlega fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar og allrar heimsbyggðarinnar að við stjórnartaumum taki fólk með fulla vasa af mannúð og samkennd. Fólk sem hefur nægjanlega breitt bak til að þrífa til eftir sundurspillta stjórnartíð G. W. Bush og co.
Ef ég á leið um Langholtsveginn, stoppa ég gjarnan hjá gatnamótunum sem tilheyra Mótmælanda Íslands númer 1. Horfi á karlinn sem stendur vaktina og les spjaldið hans. Ég hef aldrei séð þar neitt skrifað sem ekki stenst.
18.4.2007 | 17:50
Vöntun á auknum hagvexti á Vestfjörðum
Það er nú meira stuðið á stjórnmálamönnum þessa dagana. Loforð um betri tíð og blóm í haga renna frá þeim eins og sprækur lækur að vori. Ég skil vel að stjórnarandstaðan lofi en á erfitt með að skilja loforðapakkann hjá stjórnarherrunum ef skoðað er hversu vel þeim hefur tekist til við stjórn skútunnar, að eigin sögn, undanfarin 12 ár. Miðað við það þarf svo sem litlu við að bæta velmegunina. Þó virðist eins og bráðvanti aukinn hagvöxt á Vestfjörðum ef mið er tekið af áhyggjufullum formanni Framsóknarflokksins. En það er til lausn við hverjum vanda og í tilfelli Vestfirðinga felst hún í olíuhreinsunarstöð sem býr til 500 ný störf og er svona millimengandi. En þar sem ég tel að olíuhreinsun á Vestfjörðum sé ekki málið þá legg ég til miklu betri hugmynd sem myndi búa til óhuggulega mikla peninga og allt að því óbærilegan aukinn hagvöxt. Og þar sem það var Jón sem sagði að það bráðvantaði aukinn hagvöxt á Vestfjörðum þá ætla ég að gefa honum hugmyndina. Hrindi hann henni í framkvæmd eða í það minnsta lofi hann að hrinda henni í framkvæmd, mun lifna við í koti karls . Gjörðu svo vel Jón og njóttu vel. Hugmyndin: Ríkistjórn Íslands með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar býðst til að geyma allan kjarnorkuúrgang heimsins gegn gjaldi. Framkvæmdin: Borað yrði inní bergið á Vestfjörðum og búnar til hvelfingar sem geymdu úrganginn. Loftmengun og sjónmengun heyrði sögunni til. Líka blánkheit þ.e. þeir ríku myndu halda áfram að verða ríkir og þeir sem minna eiga myndu eignast aðeins meira. Jón, hættu nú þessu hagvaxtarvöntunarbulli sem enginn skilur, hringdu í Bush og Pútín og bjóddu þeim uppí dans. Þeir munu borga og brosa.
Fullyrðingar um mengun frá olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum standast ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.4.2007 | 23:42
Hollywood 4
Ef þú selur heimildamynd sem er gerð í Evrópu til USA og hún fær sýningu í auglýsingasjónvarpi þá er nokkuð öruggt að gerð er krafa um endurklippingu útfrá auglýsingaslottum. Þau koma samviskusamlega á 10 -15 mínútna fresti. Kúnstin er að klippa smá æsing rétt fyrir hvert slott þannig að áhorfendur sem þjóta í eldhúsið og fá sér majonessamloku,bjór eða jónu nenni að koma aftur að horfa Þetta sagði mér ólyginn innkaupastjóri á heimildamyndamessu sem ég tók þátt í fyrir nokkrum árum. Trúlega bullsh eða hvað ... allflestar bandarískar kvikmyndir virðast gerðar fyrir majonesin. Ef setningin er of löng eða djúp fer myndin ekki í bestu bíóin. Þess vegna eru sérstakir bíósalir í USA fyrir þá sem komast í gegnum langar setningar án þess að sofna. Ekki er ég frá því að við séum að verða alveg eins enda hrifnir af Kananum og því sem hann hefur uppá að bjóða. Ég náði mér í mynd um daginn sem ég tel eina mestu mynd allra tíma, stríðsádeiluna Come and See (Idi i smotri) eftir rússneska leikstjórann Elem Klimov. Mynd sem ég skoða með reglulegu millibili til að slípa stríðsandúð og horfa á gargandi snilld í leiðinni. Ég bauð félögum í heimabíó en þegar við vorum komnir inní miðja mynd voru þeir sofnaðir. Ég veit svo sem ekki hvern fjandann ég var að reyna vitandi að þessir góðu vinir mínir eru báðir Seagal menn og hlakka mikið til að sjá Die Hard 4 næsta sumar.
Framhaldsmyndasumar í Hollywood | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2007 | 14:01
Landsfundur hér og landsfundur þar
Landsfundur hér og landsfundur þar þau taka drjúgt þessa dagana hin löngu drykkjarhorn. Auðvitað eigum við að skemmta okkur þegar líður að kosningum. Ég minnist þess þegar ég og vinur minn sem ég drakk með á bóhemtímabilinu, biðum í óþreyju eftir kosningunum svona rétt eins verið væri að bíða eftir fæðingu barnsins síns. Reyndar byrjuðum við að bíða nokkrum mánuðum fyrir kosningar og ákváðum í leiðinni að biðin ætti að vera skemmtileg, sambland af alvöru og gamni, meira þó af gamni. Þegar nálgaðist stóra daginn vorum við oftast orðnir dálítið lúnir með þeim afleiðingum að við misstum í það minnsta tvisvar úr kjördag. Ég bætti hinsvegar um betur eftir að vinur minn var allur og fór að kjósa. Í fyrstu fannst mér eins og ég ætti að kjósa þá sem vildu að einstaklingurinn blómstraði, aðhylltist frjálshyggjuna a la Hannes Hólmsteinn um stund. Svo áttaði ég mig á að ég hafði misskilið hvað átt var við með frelsi einstaklingsins. Jú, vissulega blómstruðu einstaklingar eins og túlípanar á sterum en BARA FÁIR einstaklingar. Friedmann hefur líklegast ekki átt við marga blómstrandi einstaklinga þegar hann boðaði frelsið. Til dæmis hefur hann líklega ekki átt við að alla eldri borgara, alla öryrkja, allar fjölskyldur, eða alla þá sem þjást af einhverjum orsökum. Frjálshyggjustefnan eins og hún hefur verið praktiseruð getur varla verið eftirsóknarverð ef hún hyglir nokkrum útvöldum en skilur meginþorrann eftir, ekki heldur ef hún er knúin áfram af stjórnlausri græðgi, vill alltaf meira, getur ekki hætt.
Þannig er staðan á Íslandi svona rétt fyrir kosningar árið 2007.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)