Færsluflokkur: Menning og listir

Upp upp mín sál

Ég átti orðið erfitt með að sitja kyrr undir lok tónleikanna í kvöld, sem voru eins og dóttir mín myndi segja „geðveikir, eða gett góðir“  Til að byrja með Tommi R með frábært stórband skipað toppmönnum ... æðileg grúppa og flottar tónsmíðar. Allt ætlaði af göflunum að ganga eftir hvert lag. Mér varð á að hugsa að trúlega væri ekki neitt auðhlaupaverk að taka við af þessu súperbandi en áhyggjur mínar hurfu við fyrsta tón hjá tríói Hilario Duran. Æ ég held ég láti bara vera að segja meira, það yrði of langt  ... en mikið vildi ég að þið hefðuð verið með mér í kvöld og upplifað galdurinn. En bara næsta ár. Ég lofa ennþá meiri veisluhöldum, slæ ekki af, gef ekkert eftir og hætti ekki fyrr en þið leggið á hestana og ríðið norður. Þið getið sungið á leiðinni „aldrei ætlaði ég norður “ 


Annað kvöld verður talið í AIM festival 2007

Það er skemmtileg helgi framundan hjá mér. Alþjóðlega tónlistarhátiðin á Akureyri, AIM festival 2007 www.aimfestival.is  hefst annað kvöld. Það verður blúsað og rokkað á þremur stöðum í bænum og það er við hæfi að mörlandinn hefji leikinn. Ég fæ að vera með annað kvöld því Blús Kompaníið ásamt Hrund Ósk Árnadóttur kemur fram á 1929 ásamt Mó sem er Akureyrískt band sem leikur íslensk þjóðlög í rokkaðri útfærslu.  Á föstudagskvöld verður annarsvegar mikil jazzveisla, kúbuskotin og aðalnúmerið er kúbanski píanóleikarinn Hilario Duran ásamt hljómsveit og  Tómas R ásamt stórbandi hitar upp fyrir kappann. Á öðrum staði í bænum verður þýska útgáfan Morr music með sérstakt kvöld með innlendum og erlendum böndum, þar á meðal Benna Hemm Hemm sem nýlega gerði samning við útgáfuna. Laugardagskvöldið verður svo tileinkað Fernandez Fierro 12 manna stórkostlegu tangóbandi frá Argengtínu. Ég hef fylgst með þeim um nokkra ára skeið og þvílik hljómsveit. Svo lokum við hátíðinni á sunnudag með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en einleikari með henni verður harmonikkusnillingurinn Tatu Kantoma. Það spáir bongóblíðu um helgina á Norðurlandi þannig að það er upplagt að heimsækja okkur norður, hlusta á tónlist frá öllum heimshornum, grilla, fara í sund og fá sér Brynjuís.

síjú

 


Hvenær verð ég spurður?

Tónlistarmenn eru flytjendur og höfundar, hvorugur getur án hins verið. Reyndar eru höfundar oft flytjendur að eigin efni en þó er hitt algengara höfundar þurfi flytjendur að tónsmíðum sínum. STEF hefur séð um höfundrréttarmál en FÍH um réttindi flytjenda. Einn allra þekktasti lögfræðingur landsins sem skoðaði flytjendarétt fyrir mig fyrir nokkrum árum sagði mér blákalt að réttindamál flytjenda væru á steinaldarstigi. Ég held að síðustu fréttir um fyrirtækið tonlist.is segi ofurlitla sögu af stöðu flytjenda.

Stefán Hjörleifsson sem stofnaði tonlist.is var styrktur af hagsmunasamtökum flytjenda og höfunda til að koma tonlist.is á koppinn en seldi svo afkvæmið Senu fyrir væna fúlgu og sjálfan sig með. Ég hef oft spurt mig að því hvernig það megi vera að ég sé inná þessum grunni með megnið af því efni sem ég hef flutt, án þess að ég hafi nokkurn tímann gefið leyfi fyrir slíku. Svörin sem ég fékk þegar ég fór að efast um að rétt hafi verið staðið að málum voru þau að yfirráð útgefanda yfir flutningsrétti á lögunum gæfu honum rétt til að falbjóða mig á vefnum. Þetta sé síðan allt samþykkt af stéttafélaginu mínu á þeim fosendum að verið sé að búa til gagnagrunn sem nýtast eigi öllum hagsmunaaðilum. Hafi þessi hugsun verið það sem þetta átti að snúast um þá er sú forsenda fokin út um gluggann með sölu vefsins til SENU. Þess utan tel ég afar vafasamt að það sé hægt að ákveða án samráðs við mig að tonlist.is bjóði uppá afnot af mér í mánaðaráskrift, að tonlist.is geti gefið mig í fríu niðurhali, eins og hefur gerst hvað eftir annað ef tilefni hefur verið til eins og afmæli fyrirtækisins og fleiri stórviðburðir. Ég hef aldrei samþykkt neitt af þessu, reyndar aldrei verið spurður, sem er svo sem ekki nýtt í þessum bransa.  Þegar SENA ákvað á sínum tíma að selja disk með SS pylsupakka þá var enginn spurður, þegar lög af Mannakornadiskum hafa verið sett á hina og þessa safndiskana með einkennilegum nöfum, þá er enginn spurður,  þegar jólaplata Brunaliðsins Með eld í hjarta breyttist í diskinn 11 jólalög, var enginn spurður.

Ég hef ásamt félaga mínum Magnúsi Eiríkssyni varið undanförnum árum í að fá einhverja niðurstöðu í réttindamál okkar. Sú ganga  gengur hægt en gengur þó. Ég fagna umræðunni sem átt hefur sér stað að undanförnu og hvet til að henni sé haldið áfram af fullum þunga. Yfirburða staða eins fyrirtækis á viðkvæmum og litlum markaði er vandmeðfarið vald og leiðir því miður til misnotkunar. Tónlistarmönnum er mismunað eftir því hvar þeir eru skráðir með sitt efni, stjörnugjafir á tonlist.is er bara eitt lítið dæmi um slíka misnotkun.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband