Þorparar

Ekkert jafnast á við góðan vin. Ég er svo heppinn að eiga einn slíkan. Þetta er saga um vinskap.

ÞORPARAR
Við vorum eins og dagur og nótt, Hafþór þéttur á velli og í hugsun, einstaklingur ígrundunar og efasemda og ég línudansari, til í að prófa allt. Leikvöllur okkar vinanna var mikill að umfangi og bauð upp á endalaus ævintýri. Við vorum höfundar ævintýranna og ægifagur Vopnafjörðurinn leiksviðið. Þetta var fyrir tíma afþreyingarbyltingarinnar miklu og síldarævintýrisins sem umturnaði á einni nóttu flest öllu því sem einkennt hafði mannlífið í þessu litla sjávarþorpi norður á hjaranum.

Ég reikna með að okkur Hafþóri megi eigna bróðurpart grárra hára á höfðum ættingja okkar, enda voru uppátækin til þess fallin að vekja sálarangist. Hetjur voru okkar uppáhald og töldum við það heilaga skyldu okkar að feta á sem nákvæmastan hátt í fótspor þeirra. Við sigum í björg eftir að hafa séð kvikmyndina um björgunina við Látrabjarg í félagsheimilinu. Náfölt andlit mágs míns sem kom að okkur sígandi í háum þverhníptum kletti fyrir ofan þorpið, er mér minnistætt. Ég veit það nú að fölvinn kom ekki af reiði heldur eintómri hræðslu, enda var sigstrengurinn venjulegt snæri, annar seig og hinn hélt við. Sá sem seig í þessu tilviki var Hafþór sem í miðju sigi ákvað að útfæra björgunarafrekið við Látrabjarg með tilvitnun í eggjasig Vestmannaeyinga, og tvöfaldaði þyngd sína sem var þó nokkur fyrir, með lausu grjóti úr berginu. Þegar að var komið var strengmaðurinn á brúninni orðinn siginn í öxlum og uppgefinn.

Við lásum um hetjur, um indíána og landnema, víkinga og heimskautakönnuði og áttum ávallt mjög auvelt með að setja okkur í spor þessara sálbræðra okkar. Um miðjan vetur í aftakaveðri endursögðum við um afrek Amundsen á heimskautinu. Þokkalega nestaðir og vel klæddir héldum við út í grenjandi manndrápsveður og tókum stefnuna yfir í Vesturárdal. Við vorum að sjálfsögðu vopnaðir heimatilbúnum spjótum og ímyndaðir hundar drógu sleða okkar og vistir. Undir kvöld var sendur út leitarflokkur og fundust heimskautafararnir eftir nokkra leit, heilir á húfi inn með Vesturdalsá og voru þegar að var komið að hvíla lúin bein undir háum bakka eftir ægilega viðureign við tvo hvítabirni. Tveggja daga innivera með tilheyrandi þagnarmúr fylgdi í kjölfarið.

Svo kom sumarið sem ég dvaldi með móður minni á fjöllum. Hún hafði gerst matráðskona hjá vegavinnuflokki og þrátt fyrir hávær mótmæli mín og hótanir um að segja henni upp sem móður, varð við ekkert ráðið og ég var kominn í útlegð og einsemd. Við vinirnir kvöddumst með tárum yfirkomnir af óréttlæti þessa heims. Stærstan hluta sumarsins hélt flokkurinn til í tjaldbúðum inn á svokölluðum Banatorfum á miðri Vopnafjarðarheiði.

Yfir vegavinnuflokknum réð Jón Guðlaugsson oft kenndur við Gudduna. Guddan var gamall Víbon trukkur, sterkbyggður með skófluhaldara og bensínbrúsum að aftan og miklum stuðurum.
Jón sem látinn er fyrir margt löngu var sérstakur maður og einkennilegur í háttum. Var gert grín að karlinum sem lá vel við höggi eins og gengur og gerist með þá sem eru ”öðruvísi”. Jón Gudda var vondur bílstjóri. Strákarnir í flokknum töldu það fullkomið glapræði að sitja í bíl með karlinum, nema sá hinn sami væri í alvarlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Á einhvern óskiljanlegan hátt hélt Jón vegi þó oft væri tæpt á því. Beygjur og brekkur voru í afar litlu uppáhaldi hjá karlinum og illa var honum við að skipta um gír. Ég fékk oft að sitja í með Jóni og þó samræður væru svo gott sem engar, eitt og eitt humm á stangli, þá leið mér vel með karlinum og hann sýndi mér ávallt hlýju.

Litlu munaði þó að hann setti mig endanlega út af sakramentinu þegar ég lokaði hann inn á kamri í hádegishléi. Ég vissi það ekki fyrr en seinna að Jón var haldinn innilokunarkennd á háu stigi, enda fór svo að hann kom út með eina hlið kamarsins á undan sér og þurfti að endurreisa náðhúsið eftir uppákomuna. Ég lét mig hins vegar hverfa bak við næsta leiti og skilaði mér ekki heim fyrr en liðið var á kvöld. Mamma tók á móti mér með prédikun sem hefði auðveldlega snúið hörðustu kommúnistum til guðstrúar. Að því loknu var marserað að tjaldi foringjans sem lá og hvíldi sig eftir áfallið. Lofað var bót og betrun í votta viðurvist og málið þar með látið niður falla.

Þrátt fyrir óhamingjuna sem fylgdi fjarvistum við besta vininn, var þetta sumar einstaklega skemmtilegur tími. Þarna voru samankomnir hressir strákar sem höfðu séð ýmislegt á lífsleiðinni. Sagnarhefðin var í hávegum höfð meðal tjaldbúa og margar ánægjustundir átti ég út í horni í einhverju tjaldinu, þar sem lítið fór fyrir mér, með eyrun útstæð af forvitni.
Ýktar sögur af svaðilförum, skrautlegum persónum, fylleríum, uppáferðum og slagsmálum lifðu góðu lífi löngu eftir að skriðið var undir sæng og rændu mig oftar en ekki svefni. Kvöldin voru einatt krydduð með ljósbláum gamanvísum Arthúrs vinar míns í Syðri-Vík. Arthúr var í mínum augum snillingur. Flinkasti ýtustjóri á jörðinni og svo spilaði hann á gítar og söng.

En langt í burtu frá öllum þessum skemmtilegheitum var vinur minn Hafþór. Við það var ekki unað. Í einni af ferðunum sem ég fékk að fara með Jóni á Guddunni út á Tanga til að kaupa vistir fyrir tjaldbúðirnar, var ákveðið að Hafþór stryki á fjöll með sínum kæra vini. Nákvæm áætlun var sett upp um framkvæmd stroksins en hún fólst í því að Hafþór tæki saman föt í poka svo lítið bæri á og biði síðan við vegkant í útjaðri þorpsins og stykki aftan á Gudduna. Engar sérstakar áhyggjur höfðum við af því að Hafþór næði ekki að stökkva aftan á bílinn þar sem Jón var þekktur fyrir allt annað en hraðakstur. Þegar ég leit svo eldrautt andlit vinar míns í litlum afturglugga Vibonsins vissi ég að allt væri í himnalagi. En Adam var ekki lengi í Paradís.

Líklega hefur Jóni þótt ég eitthvað órólegur í sætinu enda var ég stöðugt að líta aftur í til að athuga með vin minn. Verður honum litið í baksýnisspegilinn og þar með er fjandinn laus. Jóni bregður svo heiftalega þegar hann uppgötvar laumufarþegann að falskur gómur sem alla jafna var á sjálfstæðu ferðalagi, flýgur eins og sprengja út úr honum og lendir í framrúðunni með háum hvelli. Jón nauðhemlar og missir við það stjórn á Guddunni sem sikksakkar kantanna á milli áður en hún stöðvar í rykmekki við vegkantinn. Á þessari ögurstundu hefði ég með réttu átt að vera allur úr hræðslu en svo var ég forhertur að þess í stað greip mig óstöðvandi hláturskast.

Á sama tíma og Jón staulast út úr Guddunni talandi tungum, rennir bíll að okkur á mikilli ferð. Þar er kominn pabbi Hafþórs en einhver sem hafði orðið áhorfandi að strokinu lét hann vita símleiðis. Hafþór var að sjálfsögðu á bak og burt, hafði stokkið af bílnum á ferð og látið sig húrra niður í skurð. Hann kom ekki fram fyrr en löngu seinna þá búinn að herða sig nægjanlega upp til að mæta örlögum sínum. Jón Guðlaugsson talaði ekki við mig það sem eftir lifði þessu sumri og reyndar ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar ég heimsótti gamla manninn á elliheimilið Grund. Yfirhalningin sem ég fékk hjá móður minni blessaðri var á andlegu nótunum sem fyrr, því líkamlegu ofbeldi beitti hún mig aldrei. Ef á mig sækir hugarvíl, nægir mér að hugsa til gómsins fljúgandi.

Eftir síendurteknar uppákomur af þessu tagi og aukinni refsigleði uppalenda okkar fórum við Hafþór okkur hægar í ævintýrin. Nú fóru afsakanir okkar á brotnum útivistarreglum og annari óhlýðni að taka á sig myndir hvítþveginna sakleysingja.Til dæmis þegar við skriðum inn um loftstokk á félagsheimilinu til að sjá að tjaldabaki Christopher Lee sjúga blóðið úr samleikurum sínum í myndinni um greifann ódaulega. Sextán ára aldurstakmarkið sem þá var nýuppgötvað leiddi til þessa örþrifaráðs. Ekki settum við það fyrir okkur að horfa á Transilvaníugreifann í tveggja metra fjarlægð frá tjaldinu sitjandi skelfingu lostnir á hörðu gólfinu. Þegar heim var komið sögðumst við, sakleysið uppmálað, hafa steingleymt okkur við tafl heima hjá hvor öðrum. Sem betur fer tóku foreldrar okkar þessar útskýringar góðar og gildar.

Svo breyttumst við í unga menn og fórum að vinna á vöktum á pokaloftinu í síldarverkssmiðjunni. Þessi óskapnaður sem reistur var á mettíma á fallegasta stað bæjarins og fyllti loftið óþef sem kenndur var við peningalykt, varð okkar gullnáma. Aldrei höfðum við látið okkur dreyma um aðra eins auðlegð og þá sem við fengum afhenta hálfsmánaðarlega í þykkum launaumslögum. Þetta voru himneskir tímar sjálfstæðis og svefnlausra nótta. Ármann frá Grund ókrýndur konungur pokaloftsins sá um að innprenta okkur guðsótta og góða siði á sinn sérstaka hátt. Orð hans voru lög og við aumir maðkarnir máttum þakka okkar sæla fyrir að hafa fengið inni í hans prívat konungsríki.

Á pokaloftinu ríkti afgerandi stéttarskipting. Við pokatrillararnir vorum í neðsta þrepi metorðastigans en langt ofar okkur Sveimbi, Siggi Dalling og fleiri eðalþegnar konungsins. Þetta voru góðir kallar sem höfðu á einhvern óskilgreindan hátt áunnið sér ákveðin forréttindi. Til dæmis að geta lagt sig eftir kaffitíma, en þeir voru margir. Þessi mikla svefnþörf karlanna gaf okkur pokatrillurum kærkomin tækifæri til að gera á þeim ýmsar tilraunir svo sem að mála þá eins og trúða með pokasvertu, setja salt í kaffibrúsana, víxla nestinu í bitaboxunum og binda þá saman á höndum og fótum og hrópa eldur.

Minnistætt er æðið sem rann á pokaloftskonunginn þegar hann hleypti mjölinu niður úr skammtaranum í gegnum botnlausa strigapokana sem við af mikilli natni höfðum rakið upp. Jafn listilega samansaumuð blótsyrði hef ég hvorki fyrr né síðar heyrt. Þau byrjuðu á lágu nótunum á fyrsta poka en hófu sig síðan til flugs og náðu hámarki á tíunda poka. Það var áhrifamikil sjón að sjá konunginn standa í mjölhaugnum upp í klof lofandi okkur háls- og beinbroti og eilífðarvist í helvíti. Wagner hefði orðið grænn af öfund hefði hann orðið vitni að stórbrotnu grand finale Manna frá Grund. Þvílíkar hamfarir. Mjölskemman nötraði stafnanna á milli.

Já síldin kom og sneri öllu upp sem áður hafði af hverdagslegri vanafestu snúið niður í þorpinu. Og þegar svo allir voru orðnir vanir því að allt sneri upp sem áður sneri niður, týndi Jakob síldinni og sagan endurtók sig. Það var á svipuðum tíma sem leiðir okkar Hafþórs skildu. Hafþór fór í kennaranám en ég línudansarinn ákvað að gerast tónlistarmaður. Þó tengslin rofnuðu um tíma vegna anna við að fullorðnast, voru þau endurnýjuð mörgum árum seinna og í dag hittumst við vinirnir reglulega. Nú leitum við uppi ævintýrin við árnar og vötnin og leggjum sem fyrr á ráðin. Blessunarlega hefur lítið breyst. Hafþór sér enn um ER EKKI Í LAGI MEÐ ÞIG! deildina og Ég sé um LÁTTU EKKI SVONA MAÐUR! deildina. Þannig var það og Þannig viljum við hafa það.

© Pálmi Gunnarsson, 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Frábær lesning og skemmtileg svona fyrir svefninn. Þú ert ekki listamaður á einu sviði, heldur öllum.  Hafðu þökk fyrir.  

Þorkell Sigurjónsson, 28.4.2007 kl. 02:11

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Frábær lesning, takk fyrir mig

Ester Sveinbjarnardóttir, 28.4.2007 kl. 07:13

3 Smámynd: SigrúnSveitó

Skemmtileg lesning, greinilega ýmislegt brallað...takk fyrir mig

SigrúnSveitó, 28.4.2007 kl. 09:00

4 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Yndislegt

Júlíus Garðar Júlíusson, 28.4.2007 kl. 11:13

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Jáhá! Skemmtilegt þegar maður dettur um blogg sem maður gleymir sér alveg við að lesa. Eins og ég sagði, góður penni Pálmi og ég ætla kaupa bókina

Heiða B. Heiðars, 28.4.2007 kl. 11:23

6 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

góð saga Pálmi, gaman af þessum prakkarstrikum, man mín prakkarstrik ekki alltaf vel, þarf stundum að hringja í móður mína til að fá smá upprifjum.

Hallgrímur Óli Helgason, 28.4.2007 kl. 11:38

7 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

*****

Þorsteinn Gunnarsson, 28.4.2007 kl. 14:12

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það var mjög gaman að fá að líta aðeins með þér í smáferðalag aftur til æskuáranna.  Prakkari hefurðu verið Pálmi minn.   Og von að fólkið þitt yrði gráhært fyrir tímann, eins og þú segir.  Takk fyrir þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2007 kl. 15:16

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk Pálmi

Jóna Á. Gísladóttir, 28.4.2007 kl. 16:27

10 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Gaman að lesa Pálmi, bloggin þín. Einstök frásögn, nú bíður maður eftir meiru. Maðurinn minn vinnur einmitt í Transylvaniu í Rúmeníu í  héraði "greifans" og hefur litið inn í híbýli hans.

Rúna Guðfinnsdóttir, 28.4.2007 kl. 16:44

11 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Takk fyrir mig

Heimir Eyvindarson, 28.4.2007 kl. 17:47

12 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir öll sömul og eigið þið góða helgi. Það er rétt Erlingur af Vopnfirskum ættum, eitt lagið er Þorparinn sem býr í þorpinu með sjoppu út við gráa strönd. Gaman að heyra í þér.

Pálmi Gunnarsson, 28.4.2007 kl. 17:49

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tíu stjörnur af fimm mögulegum kæri Pálmi.  Þetta var svo fullt af hlýju, húmor, fegurð og kærleik að ég bæði grét og hló hér þar sem ég sat á Hressó og las.  Fólk var farið að munda símana og finna hraðvalið fyrir 112.  Þetta er sjalgæft að sjá hér á blogginu og fyllir mig gleði og von fyrir hönd mannfólksins.  Það er ekki öllum gefið að líta fram hjá sjálfi manna og sjá sálina og ástina eins og hún er.

Þakklæti mitt frá dýpstu hjartans rótum.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.4.2007 kl. 19:17

14 Smámynd: Hugarfluga

Frábær frásögn, svo manneskjuleg og hlý. Takk, Pálmi.

Hugarfluga, 28.4.2007 kl. 19:22

15 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Svona bernskubrek og fallegar og fjörugar æskuminningar..vel skrifaðar og af næmni ....er með því besta sem maður les á blogginu. Nú eruð þið orðnir tveir félagarnir sem kætið okkur hin með slíkum skrifum. Þú og Jón Steinar...báðir prakkarar af Guðs náð greinilega

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.4.2007 kl. 20:20

16 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þetta er gaman að lesa og þú segir skemmtilega frá.
Alltaf er gaman að rifja upp gamla daga.
Þakka þér fyri allt.

Stefán Stefánsson, 28.4.2007 kl. 23:21

17 Smámynd: Gerða Kristjáns

Frábær frásögn, takk kærlega

Gerða Kristjáns, 29.4.2007 kl. 00:07

18 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Skemmtileg lesning.

Guðrún Olga Clausen, 29.4.2007 kl. 15:51

19 Smámynd: Heiða  Þórðar

VÁ! Algjör snilld

Heiða Þórðar, 29.4.2007 kl. 19:44

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Pálmi Prakkarinn og Jens Guð bættist nú við þennan skemmtilega prakkarahóp.  Og svo má minnast á einn prakkara í viðbót Hallgrím Óla Helgason.  Sem hefur dundað sér ýmislegt líka á sínum æskuárum.  http://holi.blog.is/blog/holi/entry/190990/ 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.4.2007 kl. 11:36

21 identicon

Sæll Pálmi. Langaði bara að þakka fyrir frábæra lesningu. Þú ert skemmtilegur penni :)

Pétur Björn Heimisson (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband