20.7.2007 | 21:45
Bréf frá Jóakim frænda
Cayman Islands 20 júlí 2007
Kæri frændi,
Af hverju í andskotanum ertu að mótmæla stóriðju - heldur þú að heilinn sé bara til að halda eyrunum aðskildum ha... hugsaðu maður!
Stóriðjuver eru gargandi snilld - búin að bjarga þjóðinni að hluta til og ef vel er á spilum haldið þá eiga allir Íslendingar eftir að meika það feitt á áli - stáli og olíu. Ég hef sagt það áður og segi það enn; troðum niður stóriðju hvar sem sem finnst passandi blettur fyrir hana, já allstaðar á þetta ömurlega skammdegissker sem er svo niðurdrepandi, kalt og andstyggilegt. Seljum grjótið og flytjum burt úr kuldaskítnum.
Það er nú ekki svo langt síðan að forfeður okkar klóruðu sér stanslaust undan lúsinni og flónni, hálftannlausir af næringarskorti. Það hefur lítið batnað, er bara aðeins öðruvísi. Nú erum við hálftannlaus af sælgætisáti og klórum okkur til blóðs vegna streitu. Áður réðu lénsherrarnir hvort við lifðum eða dæjum og misnotuðu landslýð miskunnarlaust í samræmi við vald sitt. Lénsherrarnir fara aðeins öðruvísi að í dag en útkoman er sú sama. Nú drepst lýðurinn, sem áður drapst úr hor, úr stressi vegna þess að lýðurinn er veðsettur uppí háls. Eini munurinn; líkin eru betur klædd í dag. Stærsti hluti þjóðarinnar er í eigu nokkurra jakkalakka sem hafa með snilldarhætti talið lýðnum trú um að til þess að geta kallast manneskja í nútímaþjóðfélagi þá þurfi allskonar drasl til. Draslið selja jakkalakkarnir dýrum dómi og lýðurinn slær sér lán hjá jakkalökkunum, lán sem hækka við undirskrift. Til að breyta þessu og búa til þrjúhundruðþúsund jakkalakka þá seljum við klettinn undir stóriðjur í grænum hvelli og allir flytja í sólina.
Kæri frændi, niður með sólarlagið, fossana og fjöllin, hreina loftið og vatnið, inn með álið og stálið. Á því græðum við feitt. Ég flutti hingað undir sólhlífina eftir að ég seldi kvótann sem pabbi gaf mér þegar hann dó úr hjartaslagi, blessuð sé minning hans. Fyrir kvótann keypti ég hlut í tryggingafyrirtæki, orkufyrirtæki,banka, fjölmiðlafyrirtæki og einhverju fleiru sem ég man ekki lengur hvað heitir. Nú bý ég á Cayman í villu með sundlaug, rétt hjá bankanum sem geymir aurinn fyrir mig, og mun aldrei í helvítinu koma heim, nema rétt yfir hásumarið í lax. Fullorðnastu nú frændi sæll og snúðu þér að einhverju uppbyggilegra en náttúruvernd. Slástu í hópinn - ég skal leggja inn gott orð fyrir þig - og lána þér fyrir útborguninni.
Athugasemdir
Skemmtileg kaldhæðni.
Jens Guð, 20.7.2007 kl. 21:57
Þú náðir fram með þessari kaldhæðni. Framkvæmdirnar á Íslandi geta ekki bara verið slæmar… eða?
Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.7.2007 kl. 22:17
Gargandi snilld!
Ævar Rafn Kjartansson, 20.7.2007 kl. 22:41
Takk fyrir svarið Ævar
Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.7.2007 kl. 23:09
Snilldar útsetning á harmleik okkar Íslendinga.
Halldór Sigurðsson, 20.7.2007 kl. 23:09
Líklega er ástæðulaust að skipta sér af svona fabúleringu, en ég freistast til að spyrja: Hver er meiningin? Er efnið dulin biturð? Hver þá?
Játa að ég næ ekki heldur hvað þeir meina hér á undan. Svo að þetta er ekki efnilegt ástand; gæti verið að ég væri kominn með alzheimer light?
Herbert Guðmundsson, 20.7.2007 kl. 23:16
Nú er bara að treysta á Sammarana Pálmi minn.
Ég held samt að það væri best að sjóða strengi þeirra áður en við reiðum okkur á þá.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 20.7.2007 kl. 23:41
Ég hefði aldrei átt að láta þetta rugl frá frænda fara inn á bloggið. Sé að Herbert er brugðið sem von er. En þar sem ég get ekki með neinu móti svarað einu eða neinu fyrir hönd Jóakims þá bið ég þig Herbert minn að snúa þér beint til hans til að fá nánari útlistun á ruglinu. e-mail hans Kimma fræand er joakimvonand@caymanilands.com
Pálmi Gunnarsson, 21.7.2007 kl. 00:18
Góður Pálmi, þú hefur kaldhæðnina á valdi þínu.
Vilborg Valgarðsdóttir, 21.7.2007 kl. 00:22
Pálmi!!!
Sauðst þú ekki strengina í gamla daga???
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 21.7.2007 kl. 00:37
Ha ha ha
Guðrún B. (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 00:45
Einu sinni sauð ég strengi en ekki oft .. mér fannst betra að hafa þá skítuga. Þá fór ég að taka aðeins meira á þeim og nýtt sound bættist í sarpinn. Sagt er að hinn sérstaki tónn funkbassans hafi komið vegna þess að menn skiptu seint eða aldrei um strengi. Trúlega hefur þumalslappið orðið til vegna þess að það kom enginn tónn lengur úr strengjunum. En soðningin var ekki mitt geim.
Varðandi SAMMARANA Dofri er fínn .. ég hef tröllatrú á honum þegar kemur að umhverfis og náttúruverndarmálum ... svo verðum við hin að taka á. Annar verður okkar fagra land að drulluhrúgu út í miðju Atlantshafi.
Pálmi Gunnarsson, 21.7.2007 kl. 00:51
skemmtileg færsla, sérstaklega þegar þú komst inn þessu með kvóta greifann, það er mál sem við erum algjörlega sammála um Pálmi
Huld S. Ringsted, 21.7.2007 kl. 00:57
Þetta með að sjóða bassastrengina. Éghef prófað en soundið varð helvíti horað! Betra að hafa húðfituna á þeim.........
Ævar Rafn Kjartansson, 21.7.2007 kl. 01:23
Niðurlag frægs kvæðis eftir W.h. Auden kemur upp í hugann hér:
The stars are not wanted now: put out every one;
Pack up the moon and dismantle the sun;
Pour away the ocean and sweep up the wood.
For nothing now can ever come to any good.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.7.2007 kl. 02:54
Ég skil.. þetta bréf var fá sjáfum Jóakim Aðalönd !
Ester Sveinbjarnardóttir, 21.7.2007 kl. 03:16
Í hvaða helvítis á ættlar hann að koma "heim" á sumrin að veiða lax? Það verður engin á eftir með veiðanlegum fisk í eftir nokkur ár ef mengunin verður ekki búin að gera þá útlæga þá verða Pólverjarnir búnir að veiða sér þá í soðið (Alla vega úr Elliðaánum). Setjum upp skilti á sem flestum tungumálum við allar ár og sprænur á landinu og seljum þeim svo bara veiðileyfi þá verða þeir fljótir að hætta, ég stundaði björgunaraðgerðir í den í Elliðaánum, veitti ásamt félögunum úr lokuðum pyttum og sleptum svo í sjálfa ána, og við vorum bara með ullarvettlinga á höndunum til að veiða þá hehe.
Sverrir Einarsson, 21.7.2007 kl. 09:44
Ég gersamlega ærðist úr hlátri við lesturinn sem þó inniheldur fyllstu alvöru vegna gjafakvóta fyrrverandi stjórnvalda, sjálfstæðis og framsóknarmanna sem er sorgleg en raunveruleg staðreynd sem landsmenn virðast sætta sig við... Jú ég hef ekki séð mótmælagöngur hérna á landi sem mótmæla ráninu.
Já af hverju seljum við ekki auðhringjum endanlega landið okkar, borgum öllum íbúum jafna greyðslu og flytjum í sólina! Er eitthvað annað uppi á yfirborðinu hjá núverandi stjórnvöldum?
Guðrún Magnea Helgadóttir, 21.7.2007 kl. 12:35
snilldarpistill. Ekki hægt að segja annað hvort sem fólk er sammála eða ekki.
Jóna Á. Gísladóttir, 21.7.2007 kl. 14:41
Sendi þér bros og hlátur inn í daginn, eigðu góðan dag.
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.7.2007 kl. 15:58
Náttúrulegur Pálmi: Í náttúru Íslands Skrattinn skálmarskjálfandi lýðurinn buktar og mjálmar.Þar eru auðvaldsins sungnir sálmarsvigna þar járnblendnir-álklæddir pálmar.
Ásgeir Rúnar Helgason, 21.7.2007 kl. 20:54
Sorrí,
formið á vísunni bjagaðist - maður veit aldrei hvernig þetta vistast?
En nú er þetta vonandi rétt - með baráttu kveðju til Náttúru-Pálma:
------------------------------------------
Í náttúru Íslands Skrattinn skálmar.
Skjálfandi lýðurinn buktar og mjálmar.
Þar eru auðvaldsins sungnir sálmar.
Svigna þar járnblendnir-álklæddir pálmar.
Ásgeir Rúnar Helgason, 21.7.2007 kl. 21:00
Yesss - fá Jens Guð til að skrautskrifa og senda síðan um víða völl
Pálmi Gunnarsson, 21.7.2007 kl. 21:07
Tel mig jú vera vistvænan einstakling. Elska náttúruna af öllu mínu hjarta, Kríur í góðri fjarlægð, flokka minn úrgang og finnst það dapurt hvað við erum að gera við landið okkar með öllum þessum álverum, stálverum þvers og kruss. En getum við sem hin almenni borgari gert eitthvað til að fyrirbyggja svona vanhugsaðar framkvæmdir? Það hefur sýnt sig að mótmæli segja ekkert og ef það mætir einhver þá er ekkert hlustað á orð almúgans. Segðu mér, ritstjóri Pálmi, Hvað er hægt að gera? Ég sé að skoðanir þínar eru sterkar og verða sterkari með árunum. Sakna annars mannakornsböllin á kránni. Er eiginlega enn að bíða eftir að fá að heyra ykkur spila Guðsblúsinn. Lifðu heill því enginn annar gerir það fyrir þig, minn kæri. Kærar kveðjur, Perla Svandís Hilmarsdóttir. Sorpari:)
Perla Svandís Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 01:30
Hugarfarsbreyting og frelsun frá þessu útvatnaða hugarfari að allt fáist keypt..líka við. Að við gerum okkur grein fyrir að við erum ekki andvana, magnvana og máttvana leppar auðvalds sem gengur fyrir og nærist á óttanum sem við gefum frá okkur stöðugt. Þurfum að standa upp og hætta að vera hrædd. Það þarf algera hugarfarsbyltingu..allar breytingar koma innan frá. Það þýðir að þú gerir þínar og ég mínar.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.7.2007 kl. 09:29
Verulega upplífgandi pistill Pálmi. Jóakim fræmdi þinn á Caymaneyjum er aldeilis frábær stílisti og á, frá mínu bæjardyrum séð, framtíðna fyrir sér á ritvellinum.
Jóhannes Ragnarsson, 22.7.2007 kl. 09:34
Það gengur á Jóakim frænda bullan um miðjan dag en þá hefur hann skellt í sig tveimur eða þremur köldum. Eftir það fer hann að sakna gamla landsins og undir kvöldmat er hann farinn að syngja Yfir kaldan eyðisand. Mér skilst að salsaliðið sem býr í nágrenni við hann sé í umvörpum að setja eignir á sölu. Íslensk mæðuvísur eiga víst ekki uppá pallborðið hjá þeim. Kimmi er búinn að lofa að senda mér hugleiðingar af og til og ég skal viðurkenna að ég bíð spenntur. Sýn hans á lífið er dálítið á skjön við þá sem ég hef, en hann er í ættinni og mér þykir ofurlítið vænt um hann.
Pálmi Gunnarsson, 22.7.2007 kl. 17:58
Heiða Þórðar, 23.7.2007 kl. 00:33
Sniðugur pistill. Meira að segja ég, get brosað út í annað
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.7.2007 kl. 02:26
Ég ætla að senda þennan vélvædda stillara á vin minn einn sem er formaður hóps sem ég kalla remote control hópinn. Einn úr hópnum sýndi mér einu sinni fjarstýrðan spón alveg uppnuminn.
Pálmi Gunnarsson, 23.7.2007 kl. 19:21
En það er til fleirri möguleikar en stóriðjuver.!. Rússneskur valdamaður kom með þá hugmynd að breita íslandi í fanganýlendu. Einnig væri hægt að nota hluta af landinu undir sprengjutilraunir stórveldanna. Ef menguninn verður óbærileg getum við pantað bara aðra ferðina til kanarí fyrir land og lýð og komið aldrei hingað aftur.
Brynjar Jóhannsson, 24.7.2007 kl. 15:23
Haha. Þið Dofri bara reddið þessu.
Hér áttu einlægan aðdáanda. http://raggaplogg.blogspot.com/
Anna Pála Sverrisdóttir, 25.7.2007 kl. 01:07
Gunnar Helgi Eysteinsson, 25.7.2007 kl. 19:48
Í Brave New World var Ísland fanganýlenda. Það er náttúrulega pæling líka. Veit ekki með starfsmannafjölda og launakjör en það er ekki mengandi........
Ævar Rafn Kjartansson, 27.7.2007 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.