19.9.2007 | 01:54
Dagbók Jóakims frænda
Kæra dagbók - mikið er ég eitthvað ánægður með lífið þessa stundina. Var að koma úr Caymanhvelfingunni að telja viðbótina sem ég fékk fyrir nokkur bréf. Nú sit ég einn með sjálfstraustið mitt ógnarsterka og fæ mér einn Glennfiddic á ís og sveran Kubana úr kælinum og nýt lífsins meðan öreiginn hann frændi minn skríður um í eymd og volæði á skítaskerinu sem við köllum fósturland eða eitthvað rugl. Ég hef nú ekki ennþá þorað að segja honum allan sannleikann um Rússlandsferðina sem ég lofaði að koma með honum í í sumar. Vissulega mætti ég á svæðið en það var bara af því að ég var blindfullur og til í allt. Var að koma úr afmælisveislu frá Kúbu þegar hann hringdi og minnti mig á Rússkí. Þegar rann af mér uppí Murmansk og ég sá skeggjaðan hermann með brjóst, ekki einn heldur marga, var mér ljóst að ég yrði að hypja mig hið snarast ef ég ætti ekki að enda í kommúnistahimnaríki að humpa með skeggjuðum hermönnum með brjóst. Svo illa var ég staddur andlega eftir þessa stuttu dvöl mína að ég varð að fara umsvifalaust í böð og stólpípur í Pladz. Lét sjúga mig aðeins á miðjunni og taka bauga í leiðinni. Öreiginn lét eins og ég hefði misst af einhverju þarna niðri á freðmýrinni, hringdi dag og nótt til að segja mér veiðisögur og meilaði á mig myndir af veiðihúsunum og börunum . En þetta er nú ekki allt. Skömmu síðar þegar ég náði þeim merka áfanga að verða hálfhundraðáragamall þá ákvað bankinn minn sem ég á að hluta til, að bjóða mér í lax til Íslands. Að sjálfsögðu var boðið í dýrustu laxveiðiána í heila viku. Auðvitað gat ég ekki sagt nei en bað sérstaklega um að ættarskömmin yrði fenginn til að koma með einhverja gutlara með sér og syngja fyrir frænda. En veistu hvað? þegar þeir báru upp erindið setti hann svo mikið upp að það fór alveg með þessa góðhjörtuðu menn. Þegar ég hringdi svo í hann alveg snarvitlaus, þá hló hann svo mikið að ég var farinn að sjá fyrir mér útför sem ég hefði þurft að mæta í eftir afmælið. Trúir þú þessum andskota sem á að heita skyldur mér. Hlær uppí opið geðið á mér og býðst til að útvega Geirmund, Bo eða Bubba fyrir slikk. Þetta á eftir að koma í bakið á raularanum get ég lofað þér. En þvílík veisla - ég var sóttur á Cayman af einkaþotu og um borð var þjónn sem fylgdi mér reyndar eins og skugginn alla vikuna. Helvíti flott að fá kampavín og kavíar við hylinn. Í veiðihúsinu voru nokkrir kokkar sem flogið var að sunnan og þjónalið að stjana við mannskapinn. Og hverjir heldur þú að hafi mætt til að gleðja mig, nema þeir Bo og Bubbi, svona líka ægilega flottir með gítarara og sungu í marga, marga klukkutíma í sérstöku tjaldi sem komið var upp við aðalhylinn í ánni. Veistu hvað ég gerði í ótugtarskapnum - ha;? ég hringdi í kommúnistann þegar Bubbinn söng Stálið og Hnífinn og Bo spilaði á munnhörpu undir og leyfði honum að heyra. Núna veit ég að ég gerði vitleysu með þessu því sú arga ótugt sem getur bara ekki verið skyldur mér, hafði reiknað mig út og tók allt saman upp á disk, líka röflið í mér. Svo hótaði hann að spila þetta í útvarpsþætti sem hann ætti aðgang að ef ég stæði ekki við framlögin sem ég lofaði fötluðum í góðgerðaræði hérna um árið. Það var ekki tekið með í reikninginn að ég hafði þá nýverið selt allt mitt hlutafé í Tryggingu ehf og Bátskel ehf en tapaði því jafnharðan í DeCode, en þá flutti ég í skjólið á Cayman. Ég veit ekki hvernig ég get nálgast þennan vonlausa frænda minn sem hlær að öllu sem ég legg til, gerir endalaust grína að öllu sem ég geri og er boðberi slæmra tíðinda fyrir okkur fjármálasnillinga. Hann reyndar tifar á því í tíma og ótíma að ég sé uppáhaldsfrændinn hans, en það er ekki eins og hann sýni það í verki. Hann sendir mér reglubundið póst og segir mér frá öllu sem miður fer í fjármálaheiminum á Íslandi og mærir sérstaklega alla þá sem vilja koma í veg fyrir framsókn okkar auðmanna. Núna síðast sendi hann mér link á fréttina um lyfjadrengnum þarna Vessmann eitthvað, strípustráknum á Harleynum, sem af góðseminni einni lagði einn og hálfan milljarð í einkarekinn háskóla í Reykjavík. Hvað er að slíku. Hvað er að því að eiga skóla, jarðir, fyrirtæki, landið allt, ef það hjálpar lýðnum í eymdinni. Það er alveg stórkostlegt þegar menn finna það upp hjá sér að henda nokkrum krónum í mál eins og hann Vessmann er að gera. Öreiginn benti mér reyndar á að það væri heldur stuttur listinn yfir fögin sem væru kennd í skólanum,viðskiptafræði, hagfræði og lögfræði en halló, ekki fer nú einkarekinn menntastofnun að kenna einhverjar grasafræðir.
Ég verð að segja þér eitt að lokum, toppsíkrít. Ég er að hugsa um að kaupa Vestmannaeyjar af honum þarna þyrlukallinnum í Tojóta. Ég luma nefnilega á bráðskemmtilegri viðskiptahugmynd sem myndi gera okkur auðmennina ofurglaða. Í stað þess að búa til göng eða byggja brú til Eyja eins og Árni J. vill gera, þá vil ég flytja Eyjarnar til Reykjavíkur með lunda og öllu. Þetta er alveg hægt, kosta mikið en ágóðinn yrði ægilegur. Ég yrði að byggja sérstakan hvelfingu á Cayman undir gróðann. Hugsaðu þér, Heimaey á Sundunum. Stál og hnífur er ra ra ra..
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:41 | Facebook
Athugasemdir
Þakka frábæra lesningu.
Heiða Þórðar, 19.9.2007 kl. 02:50
Sama segi ég
María Kristjánsdóttir, 19.9.2007 kl. 07:28
Skammastu þín fyrir að setja ís á singel malt.
Skotinn hefur í aldaraðir verið að reikna út, hvað mikið af vatni skuli vera í þeim góða drukk.
Glenlevert er miklu mun betra og skal aðeins blandað með munnvatni, og drykkurinn af sm líkasta hitastigi og það.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 19.9.2007 kl. 09:36
Gunnar Helgi Eysteinsson, 19.9.2007 kl. 10:52
Hahaha frábær! takk fyrir góða hláturstund með morgunkaffinu.
Ragnhildur Jónsdóttir, 19.9.2007 kl. 11:13
Góður pistill.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 20:09
Fínustu skrif sem allténd. Finnst samt leitt að þurfa að taka 110% undir með athugasemd miðbæjaríhaldsins.
Mættir hlífa mér við því næst.
Steingrímur Helgason, 21.9.2007 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.