10.10.2007 | 12:42
Joakim von gullrass
ra ra ra ra ra ra - ef þið hafið ekki fattað það ennþá þá er raraið í byrjun þessarar litlu, en afar nauðsynlegu bloggfærslu minnar, upphafsraið úr laginu " Ef ég væri rikur " lag kommúnistafiðlarans sem dreymdi drauma um peninga og völd uppá þaki á öreigabústað, á rússneskum síðkvöldum. Og ef ég bæti nú einu rai við þá er það upphafsraið í laginu hans Johns L sem var að kveikja í útí Viðey í gær. Hann var kommúnisti eins og Tevje, en ríkur kommúnisti sem er afar sjaldgæft. Við fórum nokkra hringi yfir Viðey áður en stefnan var tekin á Cayman. Það var nú dálítið flott að sjá ljósastaurinn úr þotunni en það munaði reyndar litlu að við flygjum á Esjuna því eitthvað ruglaði ljósastaurinn þann svarta sem ég réð fyrir nokkru. Hann heitir Abu Hassan Halimal Kunda og fékkst fyrir slikk. Ég þarf nú samt að láta skoða skírteinið hans aðeins betur því hann er að villast aðeins. En af því að ég var nú að raula kommúnistasönginn um að vera ríkur, þá hafði ég aldrei þörf fyrir slíkar draumfarir. Kallinn var kaupfélagsstjóri, með mikil völd. Hann bjó til útgerð nokkrum árum fyrir kvótalög og bjós svo til litla sæta gulldrengurinn hann Jóakim von gullrass sem kom í heiminn stuttu síðar. Ég vil uppfræða ykkur smámaurana sem hafið Tevjeskar draumfarir, um mikilvægar líffræðilegar staðreyndir. Menn hafa það í genunum að vera ríkir. Þetta hefur verið vísindalega sannað. Þeir sem eru ríkir hugsa öðru vísi, borða öðruvísi, drekka öðruvísi,elska öðruvísi og að sjálfsögðu eyða peningum öðruvísi. Ég var til dæmis alveg með þetta í genunum, svona leiðtogatýpa sem var með hirð af undirmálsmönnum í kringum mig alveg frá því ég man fyrst eftir mér. Þess ber að geta að nóg var af slíku fólki þaðan sem ég kom. Karlinn átti krummaskuðið og réð hvort menn hefðu í sig og á, vel staðsettur í miðju stjórnmálanna, dáður af frömmurum og hefði örugglega farið langt í stjórnmálum hefði hann ekki verið fullur frá morgni til kvölds. Ekki að það kæmi að sök þar sem hann réð öllu, átti allt og gat þar af leiðandi gert það sem honum sýndist. Allt varð að gulli í höndunum á honum og þannig er mitt líf í dag. Ég má varla snúa mér við þá klingir einhversstaðar í krónu. En auðvitað kemur þetta ekki átakalaust. Ég er stöðugt á ferðalögum til að kaupa bréf og það tekur vissulega á. Ég hélt til dæmis að mitt síðast væri runnið upp þegar djöfulsins atgangurinn í kringum orkufélagið, Græna risann eða hvað það nú heitir sem unglingurinn hann Bjarni ætlar að reka, fór af stað. Ég flaug heim fyrir viku, tilbúinn í slaginn með fullt af klinki til að kaupa og þá verða kommarnir í borginni kolvitlausir útaf smáaurum til lykilmanna. En það er sem betur fer búið að snúa onaf þessari vitleysu, allir sáttir, ég búinn að kaupa vel af bréfum og farinn í sólina. En af því að allt er nú uppá borðinu hjá mér og engin leyndarmál í gangi þá má ég til með að segja ykkur eitt. Ég er búinn að sækja um einkaleyfi fyrir nafninu Ísland, svona incase. Mér finnst það líka bara viðeigandi þar sem við eigum fiskinn, erum að verða búnir að kaupa allt landið með fylgihlutum, eigum alla peningana, erum með megnið af fólkinu veðsett uppfyrir haus, þannig að það er stutt í eháeffið. ra ra ra ra ra ra ..
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:54 | Facebook
Athugasemdir
Smelltu HÉR!
Gunnar Helgi Eysteinsson, 10.10.2007 kl. 17:37
frábær penni. Frábær!
Heiða Þórðar, 10.10.2007 kl. 20:21
Þessi pistill mætti vera mikið lengri,kannski kemur framhald takk fyrir.
Sagan segir mikið.....snilld hjá þér.
Jensen (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 20:31
Góður spéspegill af ástandinu.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.10.2007 kl. 21:48
Flottur vinkill á ástandið þó sorglegt sé....
Lárus Gabríel Guðmundsson, 11.10.2007 kl. 12:01
Ekki gleyma sólarolíunni.
Bergur Thorberg, 11.10.2007 kl. 12:26
Það er nú eins og maður kannist eitthvað við bakgrunninn hans Jóakims frænda þíns. Svo líst mér vel á flugmanninn Abu Hassan Halimal Kunda. Það held ég sé rétti maðurinn til að fljúga um loftin blá með menn sem hafa peningaríkidæmi í genunum.
Jóhannes Ragnarsson, 11.10.2007 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.