Vangaveltur "trúleysingja"

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar, Jóns Steinars Ragnarssonar. 

Pólitísk hugmyndafræði er oftast svo hástemmd, yfirborðslega orðuð að engin leið er fyrir venjulega manneskju að átta sig á um hvað hún snýst. Orðskrúðugar stefnuskrár og fyrirheit láta hjá líða að fara í smáatriði um útfærslur og framkvæmd. Markmiðin eru jafn háleit og uppskrúfuð eins og leiðin að þeim óljós.  Í þessu óljósa gráa svæði, felast mistökin eða þá að þar eru meðölin falin. Kannski er þetta með vilja svona torskilið.  Kannski skilja hugmyndafræðingarnir ekki viðfangsefnið sjálfir? Menn útbreiða jöfnuð og frið með ofbeldi og lama þjóðir, sem skilja ekkert í hvað verið er að tala um. Hin raunverulega niðurstaða og ástand, sem skapast eftir að hugmyndafræðinni hefur verið troðið ofan í kokið á fólki er aldrei ljós þegar upp er lagt. Í orðskrúði sínu og hugsjónablindu, sést mönnum nefnilega yfir lykilatriðið. Mannlegt eðli og breyskleika.Trúarbrögðin eru ekki undanskilin þessu. Þau eru á sama máta einnig orsök sundrungar, aðskilnaðar, fordóma og haturs en enginn skilur í raun hvað ber á milli.  Oft er því gripið til kynþátta, útlits og menningarmunar til að aðgreina hina "heiðnu" frá hinum "rétttrúuðu", því trúarsannfæringin sjálf sést oftast ekki utan á fólki. Samfélög, sem hafa þróað sambúðarhætti sína í hnökralausu jafnvægi í árþúsundir eru kölluð villimannasamfélög af því að þau samræmast ekki vestrænni samfélagsmynd.  Óútskýrð nauðsyn verður á að kippa þessum barbörum inn í nútímann.  Allt snýst þetta þó um völd og yfiráð yfir efnalegum gæðum.  Hinir "réttlátu" forréttindahópar gegn hinum "ranglátu" heiðingjum.Trúin hefur því oft að sama skapi skaðað mannkyn eins og pólitískar útópíur. Hvort tveggja hefur orðið vopn í höndum valdsjúkra og breyskra manna.Ég trúi því að Guð sé eitt. Allsherjarafl sem býr í öllu. Ekki bara því sem augað nemur og andann dregur, heldur öllu. Guð er í okkur og við í Guðinu. Guð er ekki maður né yfirskilvitleg vera; ekkert áþreifanlegt fyrirbrigði, sem gera má sér mynd af. Guð er sú orka sem býr í smæstu eindum alheimsins. Tifandi orka handan alls áþreifanleika. Guð á sér því ekkert upphaf né endi;  hefur alltaf verið, er allt,  fyrir allt og í öllu.  Án Guðs væri ekkert. Það er mín trú.
Maðurinn hefur frá öndverðu hlutgert þettað afl, gefið því nafn og gert af því myndir að manlegri fyrirmynd.(maðurinn skóp því Guð í sinni mynd en ekki öfugt) Menn hafa gefið honum stað og rýmd og sagt meira af honum hérna en þarna. Síðan hafa menn tekið sér umboð almættisins, dæmt fyrir hönd þess og kúgað meðbræður sína í hégóma, græðgi og sjálfsupphafningu. 
Veldi byggðust utan um þetta með stórum stofnunum, musterum og skattheimtu; ritningar voru skrifaðar til réttlætingar yfirganginum í bland við hinn stóra sannleika.  Auðmýkt fyrir almættinu, var breytt í auðmýkt fyrir kúgunarvaldi manna. Múr var  reistur á milli Guðs og almúgans og aðgangur seldur að náðinni fyrir fórnarfé. Svo fáránlegt sem það er að setja tollhlið að einhverju, sem er allt um lykjandi. Fólkið var kennt að lifa í ótta við hefnd og reiði vegna hugsna sinna og gjörða.  Það var þægt eins og lömb fyrir vellríkum og sjálfskipuðum umboðsmönnum Guðs, ef það vildi ekki hafa verra af.  Það merkilega er að Biblían varar við þessu öllu, en einhvernveginn hefur það ekki hentað málstað manna. Hann gengur nefnilega í berhögg við orðið.
Ég held að Kristur hafi komið í heiminn til að breyta þessu. Guð getur ekki gengið kaupum og sölum, né getur maðurinn tekið sér vald framar öðrum í nafni Guðs. Hann fordæmdi prestastéttina fyrir hégóma sinn og skrautklæði og hét því að brjóta niður musteri þeirra og endurreisa musteri Guðs, sem mér skilst vera andlegt musteri því ekki á Guðið sér afmarkaðan stað. Hann kom með nýjan sáttmála fyrirgefningar, umburðarlyndis, auðmýktar, jafnræðis og kærleika í stað refsingar, ótta, stéttskiptingar, haturs, hroka og bælingar. Allir áttu jafnan rétt til Guðs án tillits til stéttar og þjóðernis.  Það lá í hlutarins eðli. Nú skildu menn ekki gjalda auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, heldur bjóða hinn vangann og fyrirgefa óvinum sínum. Þetta eru erfið boð ef allir eru ekki á sömu blaðsíðu og hann vissi að það myndi kosta fórnir að koma þessum skilningi á.
Hann deildi á prestastéttina og kallaði þá réttilega hræsnara er þeir létu blása í lúðra til að láta vita er þeir gáfu ölmusur til fátækra; iðkuðu réttlæti sitt öðrum til sýndar og sér til upphefðar.  Þóttust nær Guði en aðrir.  Hver kannast ekki við slíkt úr samtímanum?   Kristur bað.þess í stað að menn gæfu í leynd, svo að hægri höndin vissi ekki hvað hin vinstri gjörði. Að gefa sér til andlegs vaxtar og hljóta laun af himnum fyrir, sem þýddi að þeir sem gerðu gott, hlytu gott að launum. Að stæra sig af góðverki er að benda á ræfildóm annara og upphefja sjálfan sig á kostnað þeirra. Bágt eigum við enn með að standast slíkt. Gott sækir gott heim og illt sækir illt heim.
Hann hvatti til þessarar nýju breytni m.a. með orðunum: "Það sem þú villt að aðrir menn gjöri yður, það skalt þú og þeim gjöra."  einnig: "Svo sem þú sáir, svo munt þú upp skera." Þetta gildir að sjálfsögðu líka um hið slæma sem við gerum; við fáum það aftur, sem við látum frá okkur. Við skulum því ekki gjöra illt heldur elska náungann eins og okkur sjálf.  Það tel ég hann meina í þeirri vissu að við erum öll samtengd í einu afli. Ef við gerum einum illt þá gerum við það öllum og líka okkur sjálfum. 
Hann uppáleggur okkur að dæma ekki aðra, því að með því erum við að leggja okkur undir sama dóm. Ef við höfum ekki umburðarlyndi fyrir mistökum annara, þá getum við ekki vænst umburðarlyndis af öðrum í okkar mistökum. Sama prinsipp. Við erum öll eitt og hið sama; hluti af Guði og sigurverki hans. Öll í sömu lauginni ef svo má segja, svo maður sýpur seiðið af því til jafns við aðra ef við kúkum í hana.
Bænasamkomur og opinbert bænahald virðist ekki vera samkvæmt hans fyrirmynd.  Hann segir að Guð heyri bæn þína áður en þú biður; heyrir ekkert betur ef þú ferð með skrúðmælgi og skjall. Kristur segir svo: "En þegar þú biður þá farðu inn í herbergi þitt, lokaðu að þér og biðjið."  Svo kennir hann okkur faðirvorið. Engin fjöldasamkoma þar. Bænin er því einkasamband okkar við Guð. Eintal sálarinnari við allt, sem er. Ögun hugans til nýrra verka. Samhæfing sjálfs og anda, svo sjálfið taki ekki af okkur völdin og girndirnar beri okkur ofurliði. Oftast er það nefnilega svo að það sem freistar okkar mest, kemur okkur í mest vandræðin.
Við verðum því að efla andann því hann er sameiginlegt afl okkar allra.Halda egóinu í skefjum og taka ekkert heldur gefa til þess að fá gefið. Þessu höfum við ekki enn náð tökum á. Við treystum ekki Guði og viljum hafa hönd í bagga. Kristur fullvissar okkur samt um að ef við trúum þá muni bænir vorar undantekningarlaust rætast. Amen þýðir: Svo skal verða.  Maður verður að hafa fullvissu í hjarta um að svo muni verða. Treysta því að jákvæð eftirvænting hlutgeri þarfir okkar og bænir. Við bítum í kinn, efumst og látum ekki einu sinni reyna á þetta.
Fólkið vissi ekki hvernig ætti að biðja, svo Kristur kennir faðirvorið svona sem dæmi.  Víst er að eitthvað hefur það verið lagað til og flúrað. Skemmtileg hugleiðing um þetta er að fyrir utan bænina sjálfa, hefur verið bætt við einskonar skjalli síðar: þitt er ríkið mátturinn og dýrðin og allt það.  En það sem er eftirtektarverðast er það að við þúum Guð en þérum okkur sjálf í bæninni.  " Faðir vor þú sem ert á himnum...." Hvers vegna það er veit ég ekki, en mér finnst það einhvernveginn skondinn vitnisburður um sjálfhverfu mannsins.
En fyrst að Kristi var svona illa við kirkjur og presta, hvers vegna talar hann um sína kirkju? Svarið við því er að hann talar aldrei um kirkju.  Sá bókstafur í Testamentinu, sem kirkjan byggir helst á er: "Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal." Hann segir ekki 25 eða 450 eða hópur, heldur segir hann tveir eða þrír. 
Hann vildi augljóslega afnema stofnanir og mannlega yfirboðara í Guðs nafni.  Hann sá fyrir sér að ef tveir eða þrír kæmu saman og ræddu boðun hans og kynntu boðskap kærleika og umburðalyndis, þá gæti einn úr þessum hópi fundið einn eða tvo aðra til að flytja þeim boðskapinn og ræða. Svona myndi það svo ganga koll af kolli með margfeldisáhrifum, þar til trúin yrði útbreidd um alla jörð.  Rétt eins og pýramídamarkaðsetning (network marketing) er uppbyggð.  Herbalife byggir t.d. á kynningum vöru og ágætis hennar auk sölu á henni án yfirbyggingar. Markaðsetningin er maður á mann, sem síðan fer og finnur annan mann.  Það tel ég hafa verið hugmynd Krists.  Þess vegna náði boðun hans líka svo hraðri útbreiðslu.
Hann grunaði þó sennilega að þessi hugmyndafræði myndi ræna aðalinn völdum og auði.  Slíkt yrði ekki gefið eftir þegjandi og hljóðalaust svo þess vegna yrði reynt að þagga niður í honum eða drepa hann. Fátt annað skýrir ofsóknir á hendur honum. Hann þekkti sitt heimafólk. Hann lét þó ekki bugast þótt að honum sækti angist er að lokum leið. Hann var jú mannlegur. Maður sem skildi og sá hvernig alheimurinn var saman settur. Fyrir þetta hugrekki er hans minnst. Án þess hefði hann fallið í gleymsku.  Píslarvætti hans efldi aðeins hina kúguðu fylgjendur.
Kristur vissi væntanlega hvað hann var að gera. Vissi að það var hægt að byggja samfélög í kærleika og sætti án yfirþyrmandi leiðtoga. AA samtökin hafa engan leiðtoga t.d. og byggja á frjálsum framlögum og hjálp til sjálfshjálpar af þeim sem hafa náð sér frá bölinu.  AA byggir á þessum trúarlega grunni, kærleiks,  umburðarlyndis og óeigingirni og það gengur upp. Hin óeigingjarna eigingirni, eins og ég vil kalla það.
Ég fæ ekki séð annað en að hann hafi komið til að leggja að velli kirkjuna og endurreisa hið sanna veldi Guðs, veldi einingar, hjálpsemi og jöfnuðar. Við komum eins í heiminn og förum eins héðan, hví ættum við þá að byggja lífið á mismunun? Ómálga börn eru háð kærleika og hjálp þeirra, sem betur eru í stakk búnir.  Þau gefa í staðinn hlýju og kærleik og lífinu tilgang og ljós. Bæn þeirra er heyrð án orðskrúðs.  Eru það ekki hin fullkomnu skipti?  Hið fullkomna hlutskipti?
En fyrst Kristur kom til að afnema kirkju og klerka, hvers vegna er vald hans í höndum þeirra nú?  Það er löng saga og flókin, en í stuttu máli var hreyfing Kristinna svo öflug og hratt vaxandi í Rómarríki fyrir tilstilli þessarar grasrótarútbeiðslu að keisarinn sá ekki annað fært en að innlima trú þeirra og blanda henni við gömlu fjölgyðistrúna. 
Hann gerði trúna að valdastofnun sér til fulltyngis og nóg var af breyskum mönnum til að taka það að sér.  Meira að segja helgidagar Kristninnar eru þeir sömu og í Rómverskri heiðni.  Páfadómur umbreytti síðan fjölgoðafyrirbærinu í dýrlingafyrirkomulag, bætti heiðnu ritúali við eins og reykelsum, kertum og söng, svo umskiptin urðu saumlaus. Framhaldið þekkjum við. 
Hvers vegna er þá allt í þessum ólestri enn, þrátt fyrir allar þessar voldugu kirkjustofnanir? Af hverju afsaka þær sig með að þetta sé ekki að marka enn, því að Kristur eigi eftir að koma aftur og setja smiðshöggið á verkið?  Eftir hverju er hann að bíða ef svo er?  Vill han láta mannkyn þjást svolítið lengur, svo við látum okkur þetta allt að kenningu verða?  Erum við ekki að gleyma þeirri staðreynd að einstaklingurinn verður ekki að meðaltali nema um 70 ára og að okkur er slétt sama um örlög fyrri kynslóða?  Það er eitthvað hérna, sem gengur í berhögg við fyrirheit hans.  Hann sagði okkur að hafa ekki áhyggjur, því með þeim bættum við ekki spönn við æfi okkar.  Hann sagði okkur að óttast ekki og treysta og trúa á hið góða afl, því í raun væri ekkert annað í boði en elskan ein. Samt elur kirkjan á þessum ragnarrakaótta og fyllir sóknarbörn sín kvíða og skelfing fyrir dómsdegi. Hvaða þvaður er þetta um um endurkomu Krists, sem klifað er á?  Eru umboðsmennirnir ekki í nógu sambandi til að fullna verk hans? Eru þeir kannski að gera eitthvað vitlaust?
Ég held að Kristur hafi aldrei farið í ákveðnum skilningi. Orð hans og máttur er með okkur alla daga og væri lífið æði undarlegt án kennisetninga hans. Honum renndi  þó trúlega í grun um að fyrirætlun hans yrði skrumskæld, sem raun varð á, enda þekkti hann mannlegt eðli og fordæmið hafði verið gefið oft og einarðlega til slíkrar ályktunar. Endurkoma hans er því mínum huga heit um viðreisn og uppfyllingu fyrirætlana hans um stofnanalaust trúboð. Maður á mann eins og í Herbalife hugmyndafræðinni; hinni rótlægu markaðsetningu. 
Við munum fyrr en síðar fara okkur að voða, því við létum ekki segjast og settum aftur á stofn, það sem hann kom til að uppræta. Við látum óttann stjórna og grömsum til okkar lífsgæðum á kostnað samferðafólksins í valdi hans. Við eigum eftir að ganga frá auðlindum jarðar og lífsviðurværum okkar og þegar ekkert er eftir lengu til að bítast um, þá verðum við sjálfkrafa neydd til að meðtaka boðskap hans um samvinnu, sáttfýsi, kærleika, jafnrétti, hjálpsemi, hófsemi, auðmýkt og trú á að allsherjaraflið muni vel fyrir sjá. Þá staðreynd að með því að gefa munum við öðlast og með því að taka munum við glata.  Hugmyndafræðin er pottþétt. Við eigum varla annan kost annan en að meðtaka hana.
Hvenær þetta verður er erfitt um að segja. Horfur okkar til frambúðar hér á jörð eru ekki bjartar. Mannfjölgun, auðlindaþurrð, mengun og stríð verður hlutskipti okkar vegna blindni, græðgi og tillitsleysi við samborgara og náttúru. Fróðir segja 50...kannski 100 ár. Lengur getur eyðingaræðið ekki gengið. Allt á sér takmörk.

Þannig veltir "trúleysinginn" ég fyrir mér þessu orði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þetta er skemmtileg grein - en ég átta mig ekki alveg á "trú" eða "trúleysi" Jóns Steinars.

Hann trúir greinilega ekki á Guð. Lýsingin á Guði í raun afneitar guðdóminum, þar sem Guð = heimurinn. Hann virðist samt trúa á Jesú sem einhvers konar guðlega veru í óskilgreindu guðlegu sambandi við þennan ekki-Guð. Loks er hann róttækur and-kirkjumaður á grundvelli þessarar "ekki-Guð"/"guðlegur Jesú" trúar sinnar.

Ég get verið sammála honum í and-kirkjustefnu sinni, en gallinn við að vera trúaður án kirkju er að trúarbrögðin verða að engu og allir stimplar (kristinn, kaþólskur, múslími) verða merkingarlausir. Einstaklingurinn getur sagt "ég trúi" en hann getur ekki útskýrt trú sína í fáum orðum, flokkað hana með hliðsjón af trúarbrögðunum. Hann þarf að útskýra sína persónulegu trú eins og Jón Steinar gerir hér, í löngu máli og á tíðum illskiljanlegt fyrir aðra.

Þetta er n.k. trúar-anarkísmi, hver maður með sína trú án afskipta annarra. En hvaðan fær einstaklingurinn þá trú sína? Er þetta ekki einhver gruggugur grautur úr Kristinfræðikennslu í æsku, eitthvað sem foreldrar sögðu manni, kannski glefsur úr heimspeki eða bókum/myndum, leitandi hugur sem kemur víða við og sankar að sér því besta héðan og þaðan?

Trú Jóns Steinars virðist í bland Brahmísk algyðistrú, ásamt jólaguðspjallskristni með hressilegum skammti af for-Komintern anarkískum últra-Lúterisma.

Kannski betri en margt annað?

Brynjólfur Þorvarðsson, 18.11.2007 kl. 11:30

2 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Vil benda ykkur ágætu mönnum á að kynna ykkur rannsóknir á hópdáleiðslu, sem sálfræðingurinn Helen Wambach (d.1983) og hennar fólk vann að um árabil. Í þesum rannsóknum var gerð eins konar tölfræðileg könnun aftur í tímann en einnig sams konar könnun FRAM í tímann. Niðurstöðurnar eru MJÖG áhugaverðar, svo ekki sé meira sagt...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.11.2007 kl. 12:02

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vil í tilefni orða Brynjólfs segja þetta:  Í þessum skrifum mínum felst engin staðfesting á trú mína á tilvist Krists í sögulegu samhengi. Ég er hins vegar að benda á að fyrst fólk er á annað borð að rýna í speki hans og gera hana óritskoðað að grundvelli sinnar heimsmyndar, þá væri rétt að skoða aðeins betur, hvað gæti falist í boðun hans.  Ábendingin varðar það að fátt í Kristnu dogma virðist vera í samræmi við það sem ég les út úr þessu.

Varðandi Guðstrú, þá er þessi nafngift Guð ávallt ruglandi og þvælist fyrir fólki.  Ég segi jú að ég trúi því að hér hljóti að vera um eitthvað allsherjarafl eða samhengi að ræða, sem vísað er til og mótmæli því að það sé hlut eða persónugert, sem í raun er varað við í þessari bók.  Að verið sé að tala um eitthvað sem er í öllu og er því óhjákvæmilegt að vera hluti af.  Svo segir bókin allavega.  Mjög viðloðandi skoðun hjá "Kristnum" er þessi aðskilnaðarárátta, svo ég vitni hér í einn:"En ég trúi því að Guð sé andi. Ég trúi því ekki að hann sé í öllum, heldur aðeins þeim sem hafa tekið við fyrirgefningu Jesú Krists."

Það er greinilegt samkvæmt því að þeir sem játast undir allar bábyljur þessarar bókar, njóti forréttinda umfram aðra og hafi rétt umfram aðra til að dæma.  Ég hef skrifað meira í anda fullrar vantrúar en er hér þó að reyna að mæta þessum forréttindahóp á miðri leið og vekja spurningar. 

Trúleysi á sér ekkert dogma og ég er ekki skyldugur til að henda öllum rökum út í ystu myrkur ef ég játast því.  Ef svo væri, þá væru trúleysingjar ekkert betri en hitt liðið. Ég vil halda opnum hug.

Kjarninn í greininni er máske sá að engin leið er að ræða þessi lífsins rök né boða, nema maður á mann og í þrengri hópi. Alls ekki í einstefnumiðlun safnaða eða fjöldasamkoma.  Það er eins og að ætla sér að eiga í dialóg við sjónvarpið sitt. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 12:36

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lykilatriði er að Biblían í sjálfri sér bannar gagnrýna hugsun og efasemdir um allt sem í henni stendur og það undir hótunum um limlestingar og dauða. Meira að segja Kristurinn svokallaði gerist sekur um slíkt.  Mér hugnast ekki fólk, sem talar í tilvitnunum og firrir sig ábyrgð á gjörðum sínum og skoðunum í skjóli þessarar gömlu skruddu.  Fólk sem vitnar í Krist og segir: Sælir eru þeir sem trúa án þess að sjá.  Þvílík reginheimska að ætlast til að fólk lúti sliku kjaftæði.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 12:57

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í bænum Hvammi í Langadal sem ég dvaldi á fimm sumur í æsku bjó niðursetningurinn Margrét Jónsdótir, Manga,  sem hataði presta, líklega vegna þess að prestur gerði stórlega á hlut hennar á yngri árum. Hún gekk í raðir kvekara á þeim forsendum að enginn maður væri þess umkominn að vera milliliður milli einstaklingsins og skapara hans, en kvekaratrúin mun víst byggja á þessu.

Ég held að frelsi hvers manns sé höfuðatriði í þessu efni og að þvinguð viðvera á trúarlegum samkomum sé ekki æskileg.

Hins vegar er maður manns gaman og hópefli gott ef þeir sem komnir eru saman á fund eru einhuga í því að efla hverjir aðra, eins og til dæmis á AA-fundum.

Það er hins vegar alþekkt að þar sem hópur er saman kominn myndast oft þörf á einhverjum, einum eða fleiri, sem halda utan um skipulag fundarins.

Í Hvammi voru tíu kýr og ein þeirra, Branda, var stærri, vitrari og mjólkaði meira en hinar. Hinar kýrnar fólu henni sjálfkrafa forystu við það að stýra þeim í beitinni í haganum. Branda var í fararbroddi þegar kýrnar voru reknar heim og í fararbroddi þegar þær voru reknar í haga.

Já, það er vandratað í henni veröld.  

Ómar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 13:18

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vil svo að lokum, með fyllstu virðingu, frábiðja mér að vera settur í akademíska skúffu útfrá vangaveltum um þessa hluti.  Ég hef fengið ansi margar skilgreiningar, sem aðallega eru gerðar til að loka menn í einhverju hólfi og ræða ekki frekar um það sem í rökræðunnni felst.  Þetta er oft gert í háðung og er skylt rökræðuafskræmingunni ad hominem.  Sjálfdilkuðum"Kristnum" er þetta afar tamt. Svo ég vitni á akademískum nótum líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 13:23

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir Ómar.  Það er kannsi ekki rakalaust að Kristur skuli líkja okkur við sauði.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 14:32

8 Smámynd: Halldór Sigurðsson

When did I realize I was God? Well, I was praying and I suddenly realized I was talking to myself.
Peter O'Toole

Þessi setning segir allt 

Halldór Sigurðsson, 18.11.2007 kl. 14:52

9 identicon

Sælir.

Jesús Kristur er meðalgangari milli Guðs og manna en ekki breyskir menn. Boðskapur Guðs virðist vera of einfaldur fyrir ykkur gáfumennina. Ömurlegt að lesa alla þessa neikvæðni. Vonandi komist þið sjálfir í snertingu við Jesú Krist.

 

Matteus 18. 2.-5.

Hann (Jesús) kallaði til sín lítið barn, sett það meðal þeirra og sagði: “Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.

Shalom

Rósa Aðalsteinsdóttir Ási, Vopnafirði.

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 17:39

10 Smámynd: Gísli Hjálmar

Það er mikill vöntun á ritsnillingum einsog Jóni Steinari. Hann er einn af þeim fáu sem fara ekki með rakalaust þvaður í sambandi við trúarbrögð.

Bara segir það einsog það er og færir fyrir því rök ...

Gísli Hjálmar , 18.11.2007 kl. 17:43

11 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir hugleiðinguna, Jón Steinar og ykkur hinum fyrir að mæta á spjallið. Leitt þykir mér að sjá þig Rósa í Ási detta í þá leiðindagryfju að tala niður til fólks sem þú deilir ekki skoðunum með.  Það getur varla verið í anda þess guðs sem þú lýtur. Varðandi neikvæðina ... sá veldur sem á heldur, því mér bara fyrirmunað að sjá nokkuð neikvætt við skoðanaskipti. 

Pálmi Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 18:20

12 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Pálmi, mér er fyrirmunað að sjá hvar í orðum Rósu er að finna þann hroka sem þú sakar hana um? Endilega bentu á það, annars ertu sjálfur kominn í þá gryfju sem þú varaðir við.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.11.2007 kl. 20:33

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Syngjum nú glöð um litla drenginn Davíð sem slátraði risanum og Jónas sem lifandi lá í Hvalnum, Ánna djúpu og breiðu Jórdan og Eyileggingarnáttúru Jósúa í Jeríkó, uppbyggilegt fyrir okkur og börnin og styrkir alla í trúnni ekki satt.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 21:44

14 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Ekki skil ég hvað þú ert að fara Jon Steinar, eina sem ég er að fara framá er gagnkvæm virðing, og það fellst ekki í því að kalla skoðun annara hrokafulla. Sérstaklega þegar Pálmi tekur það atriði sérstaklega fyrir. Er það til svo mikils ætlast?

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.11.2007 kl. 22:31

15 identicon

Guðsteinn: Viltu ekki lesa komment nr. 11 aftur áður en þú heldur fram að Pálmi hafi kallað skoðun annarra hrokafulla, eða sakað einhvern um hroka. Orðið hroki og hrokafull eru þín eigin orð en ekki hans.

Hitt er annað að þegar ég las þetta ... 

„Boðskapur Guðs virðist vera of einfaldur fyrir ykkur gáfumennina.“

... í kommenti nr. 9 fannst mér sú sem skrifaði tala niður til þeirra sem höfðu átt skoðanaskipti um efni bloggfærslunnar. Ég einfaldlega túlka þessi orð þannig og er ómögulegt að sjá annað í þeim.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 22:46

16 identicon

Sæll og blessaður Pálmi Gunnarsson frá Vopnafirði

 

Þýðir nokkuð fyrir mig að segja að þú hafir mig fyrir rangri sök að tala niður til ykkar sem jú ættuð nú að vera hærra í metorðastiganum en ég.

Ég trúi bara á einn Guð og það er sá sami og þú vonandi trúir á. Ég hef verið að lesa blogg og athugasemdir að undanförnu og hef ekki komist hjá að sjá athugasemdir og blogg sem þú hefur skrifað. Það hefur valdið mér mikilli hryggð.  Jón Steinar er fyndinn í síðustu færslunni sinni. Í staðinn fyrir að syngja þennan nýja texta með Jóni Steinari er ég að hugsa um að syngja Klukknahjóm á gamalli kassettu sem ég á og heitir Friðarjól.  Þessi kassetta var  í miklu uppáhaldi hjá mér og heyri ég þessi lög oft í útvarpi á aðventu enn þann dag í dag. Það gleður mig alltaf að heyra fallegan texta um sannan frið og gleði. Vona ég að söngvarinn eignist frið og gleði með frelsara okkar Jesú Kristi sem er eingetinn sonur Guðs sem er Guð okkar allra að mínu mati. Það væri allavega bænasvar fyrir mig því ég hef beðið Guð að hjálpa þessum manni, blessa hann og varðveita. Skemmtilegast í athugasemd Pálma var “Rósa í Ási”  svo ég varð að skrifa hvaðan Pálmi er.  Mér þykir leitt ef við höfum sært þig Pálmi sem hægt er að lesa í greininni um Bergþóru. Netfangið hjá mér er: riorosin@simnet.is og auðvelt að finna mig í símaskrá. Ég lofa því að reyna að sneiða fram hjá blogginu þínu svo þú getir fengið frið að ræða um vangaveltur og efasemdir í friði.

Megi Guð blessa ykkur og íslenska þjóð.

Shalom = Friðarkveðjur.

Kær kveðja/Rósa í Ási

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 23:06

17 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Rósa: Friðinn með Jesús þarf ég nú ekkert sérstaklega, enda pollrólegur og friðsæll svona að mestu. Varðandi skrif mín á bloggi sem virðast valda þér ama, þá langar mig að gef þér gott ráð. Slepptu því bara að lesa bloggið mitt. Annars bestu kveðjur.

Pálmi Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 23:33

18 identicon

Sælt veri fólkið.

 

Leiðindagryfja , tala niður til fólks (fullyrðing). Það getur varla verið í anda þess Guðs sem þú lítur. Ef mín orð Anna Ólafsdóttir meiða? Hvað þá orð Pálma eiginmanns þíns? Ég skrifaði það sem mér fannst og Pálmi það sem honum fannst. Við hljótum að geta skipst á skoðunum. Er bloggið ekki til þess arna? En eins og ég sagði áðan og hef fengið hvatningu frá Pálma mun ég sleppa að lesa þetta blogg því það veldur mér hryggð.

Syngjum nú:

Með Jesú í bátnum get ég brosað í stormi,

:,:Brosað í stormi:,:

Með Jesú í bátnum get ég brosað í stormi,

er ég sigli heim

 

:,:Er ég sigli heim:,:

Með Jesú í bátum get ég brosað í stormi,

er ég sigli heim

Það er gott að vera pollrólegur en mjög gott að hafa Jesú með sér, líka í logni.

Friðarkveðjur/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 23:44

19 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Í fimm ár söng ég í KFUM og það alla sunnudagsmorgna nema á sumrin, þennan söng sem á vel við hér " Áfram, Kristmenn, Krossmenn, Kóngsmenn erum vér, fram í stríðið stefnum, sterki æskuher. ........osf.

Málið er að að miljónir manna trúa á Guð og Jesú KRIST og er það hið besta mál. Það er hinsvegar einnig stór hópur sem stórefast um tilvist guðs. Það er ekki hægt að afgreiða þennan hóp með tilvitnunum úr biblíunni, sem viðkomandi trúir hvort sem er ekki á !! Segir ekki annars á "mörgum" stöðum í biblíunni að sann-kristinn maður eiga að elska náunga-sinn, sýna honum auðmýkt og mikla virðingu "bjóða annan vangan"  Þetta verður Rósa að hafa í huga ef hún ætlar að vera einn af hinum útvöldu og komast til himnaríkis.

Birgir Guðjónsson, 19.11.2007 kl. 00:37

20 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Pálmi og Anna.. hjón? láttekkisona!?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.11.2007 kl. 01:47

21 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Guðsteinn minn: Var ekki að leggja út af neinu nema að vísa í sunnudagaskólann minn í bernsku, þar sem ég lærði söngva um hina réttlættu ofbeldismenn Guðs og fleira, sem er ansi steikt að kenna börnum. Rósa dæmir sig sjálf.  Erlingu segir að "trúlausir" taki engum rökum.  Jú Erlingur, það er einmitt það sem að skilur. Við viljum rök og vísindalega rökfestu í að skýra heimsmyndina. Það vantar hins vegar algerlega frá ykkar hendi, enda getið þið innbyrðis ekki orðið sammála um hvað sé rétt og hvað ekki.

Það er ekki hægt að rökræða við trúaða um Biblíuna hins vegar ef þeir eru endalaust að virna í þann sama texta og gagnrýndur er og leggja ekkert til úr eigin kolli. Skýla sér jafnvel bak við duldar hótanir úr þessum texta.

Vísindin eiga nafn yfir þetta og það er geðklofi, með fullri virðingu fyrir þeim sjúkdómi.  Þannig birtast öfgakrissarnir mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 07:53

22 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Mér finnst liggja ákveðinn hroki í því að skella tilvitnun úr bókinni, sem einmitt er verið að gagnrýna, ásamt fyrirbænum til Guðs, sem einmitt er verið að efast um, í andlit viðkomandi eins og Rósa gerir. Í mínum huga fer sannkristinn með slíkar athafnir í einrúmi við sinn guð.

Annars finnst mér það afskaplega ódýr lausn á andlega sviðinu að treysta í öllu á þessa ágætu gömlu bók þar sem hún er rituð af ófullkomnum mönnum á tímum mikillar vanþekkingar á eðli heimsins. Nóg er vanþekkingin á okkar tímum þó við leggjum ekki hindurvitni fornaldar við hana. Allar fullyrðingar um þessi mál eru getgátur einar. Fólk má trúa því sem það vill en ég sé enga ástæðu til að hlaupa upp til fóta þó ekki séu allir sammála. Til að skilja Biblíuna þurfum við að skilja hugmyndaheim, tungutak og pólitískt umhverfi þessa fornu tíma. Slíkt getum við ekki árið 2007 nema að mjög takmörkuðu leyti. Við getum ekki sett okkur í spor þessara manna þó til séu einhverjar skræður frá þeirra tíma. Allt trúarlíf kirkjunnar byggir því að mestu á getgátum og þar sem menn gefa sér hitt og þetta án nokkurrar vissu um raunveruleikann.

Páll Geir Bjarnason, 19.11.2007 kl. 07:58

23 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er enginn að reyna að afsanna að eitthvað Guð sé til, enda tæplega hægt þótt ég hafi séð frábær rök því til stuðnings. Hér er einungis verið að biðja ykkur að halda þessu fyrir ykkur sjálf, láta aðra í friði og þá sérstaklega blessuð börnin og hætta að reyna að stjórna öllum helvítins heiminum.

Stundið hvaða bábylju, sem ykkur sýnist og byggið hvaða tildur af heimsmynd í kollinum ykkar eins og ykkur sýnist. Haldið henni bara þar, svo ekki hljótist fleiri skaðar af fyrir mannkyn.  Hættið að boða mannhatur, aðskilnað, fordæmingu og ragnarrök með jarðaberjabragði kærleikans.  Við viljum láta okkur nægja kærleikann ómengaðann eins og okkur er í blóð borið.  Ekki halda að hann væri ekki til ef þessi bók yrði brennd og kirkjur aflagðar. Þvert á móti þá yrði loks um frjálst höfuð strokið.  Skoðið bara hve friðurinn er fjarlægur í ykkar eigin kreðsum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 08:04

24 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er góð og vel skrifuð grein hjá Jóni Steinari. Sjálfur vil ég hafa trúarbrogð sem algert einkamál og að ríkið hætti að ausa peningum í þetta.

Hafandi sagt þetta finnst mér sjálfsagt að játa á mig endalausar pælingar um stóru tilvistarspurninguna og hugsanlegan tilgang, en ég er samt jafnær í alvöru og aðrir: Veit ekkert og fæ líklega ekkert að vita a.m.k. þessari tilvist. Hingað til hafa trúarleiðtogar verið að mestu bilaðir á geði eða bara menn sem úða eigin trúarhugmyndum yfir aðra sem sannleikur væri.

Eitthvað innra með mér segir mér að ég eigi að lifa til góðs. Kærleikurinn sé okkur flestum þannig í blóð borinn á einhvern undarlegan hátt að manni líði best með því að lifa mannbætandi lífi á helst allan hátt. Þetta þýðir að stór hluti af hugmyndafræði trúarbragða notar maður feimnislaust en það þýðir ekki að maður játi trú með sama hætti og kristnir menn eða múslimir og taki þar með Biblíuna upp sem eitthvern stóran sannleika. Biblían er mannana verk og því ekki orð Guðs og á þessum síðustu tímum er enn verið að þrasa um það hvernig hún, sem orð Guðs, að vera orðuð!

Nokkra hringi um trúmál hef ég tekið á minni bloggsíðu og hef fengið ágæta innsýn í heim hinna "trúuðu" og satt að segja blöskrar hvernig ranghugmyndir og forræðishyggja nær tökum á sumu fólki. Mín skilaboð eru þessi: Trúið því sem þið viljið... en hafið það sem einkamál. 

Haukur Nikulásson, 19.11.2007 kl. 08:44

25 identicon

Hvað er verra, að ljúga í fólk með tilvist guða og ímyndaðar þarfir þeirra, fá fullt af peningum fyrir lygina með ósýnilega súperkarlinn í skýjunum eða það að segja sannleikann um karlinn, að hann sé ekkert öðruvísi en Spiderman og eða aðrir súperkarlar.
Ef sonur minn væri spiderman fanboy og teldi hann raunverulegan, væri ég þá vondur að segja honum að þetta sé bara saga.
Fyrir mér eru ofurtrúaðir bara ofvaxin ungabörn sem uxu aldrei upp úr súperhetju stiginu, svona eins og comicbook guy í the Simpsons

DoctorE (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 10:40

26 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Erlingur: Þessi manísku áhugamál þín, sem lúta að því að reikna út heimsendi eftir Keops pyramydanum eða finna spádóma eftir kóðun á texta biblíunnar auk alls þessa sem þú telur upp, er aðhlátursefni hugsandi manna og eru það nöttkeis, að mínu mati sem trúa á þetta eins og Vottarnir með sína 6 óuppfylltu heimsendaspádóma.

Biblíukóðunin er einnig afsönnuð með því að með sömu aðferðum mátti finna sömu spádóma (eftirá nota bene) í Moby Dick og símaskránni. Get a grip. Þetta getur verið skemmtileg sérviska hjá þeim sem hefur ekkert betra við tímann sinn að gera, en að reyna að boða þetta sem vísindi eða sannleik er ótrúlegur geðbrestur í besta falli.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 19:12

27 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvet fólk til að kíkja á síðu Erlings og skoða hugarefni hans.  Hann er kennari, believe it or not.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 19:16

28 Smámynd: Óðinn

Ef eitthvað er þá tel ég þennan Erling vera þekktur sem Elo8 á huga.is - ef ekki - þá skoðanabróðir hans. Mæli eindregið með því að skoða Dulmáls hluta huga.is og sjá þá rökleysu og gagngerðu sýru sem þessi maður lætur úr sér.

Er ekki frá því að maðurinn hafi reynt að sanna fyrir mér tilvist guðs með því að fara á hotbot.com og skrifa "Jesus is" eða "God is" .. þetta er afskaplega fyndið. Hann reyndi einnig að sanna fyrir mér tilvist guðs með talnaspeki og "pýramídafræðum" - eitthvað sem er þekkt sem Pseudoscience. Ég skal vitna í hluta útreikninga hans:

Talan 7 er lykiltala Biblíunnar tala dómsins.
222222/777=286 sem er stóra Pí.
Stóra Pí merkir að um Guðdómlega fyrirætlun sé að ræða.
286/2=143 hefur tölugildið “Son of God”
143x999=142857 þetta er svonefnd kraftaverkatala.

Ég ritaði grein sem úr varð fimheit umræða árið 2004 - http://www.hugi.is/dulspeki/articles.php?page=view&contentId=1621151#item1621230

Ég kíki enn á þessa síðu og les bara til að hlæja úr mér líftóruna.

Óðinn, 19.11.2007 kl. 19:36

29 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 21:07

30 Smámynd: Jóhann Helgason

Pálmi, hvar ertu að sjá hvar í orðum Rósu er að finna þann hroka sem þú sakar hana um? það veit ég eitt að það er ekki finna í hennar orðum hennar Rósu er hroki

sjálfur ertu  kominn í þá gryfju sem þú varaðir við það er dapurlegt .

Jóhann Helgason, 19.11.2007 kl. 21:42

31 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Pálmi...takk og Jón Steinar líka...það er svo ERFITT að fá umræðu um þessi mál sem ekki er flúruð Biblíulegum bókstaf og þar sem heilbrigð skynsemi

hefur undirtökin.  Í gamla daga treystu besta fólkið á BRJÓSTVIT OG INNSÆI...alls ekki bókmál!....hvað þa´ eitthvað bókstaflegt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.11.2007 kl. 01:28

32 Smámynd: josira

 Lífsnæringin í því felst, að öðlast sálarfriðinn helst...

Langaði að deila með ykkur pælingarpisli mínum nú um daginn, sem kemur aðeins inná þessar umræður...um trú eða trúleysi, sem ætíð virðist vera endalaust bitbein manna á millum hvað sé rétt eða rangt í þeim efnum...

http://josira.blog.is/blog/josira/entry/363289/ og svona í leiðinni nokkur orð sem má kannski finna einhverja leiðsögn í fyrir einhvern... http://hivenet.is/rosin/lifsspeki.htm

kærleikskveðjur... 

josira, 20.11.2007 kl. 10:03

33 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Nýtt lag í spilaranum svona Náttúrulag.....endilega hlustaðu, það heitir Draumar

Einar Bragi Bragason., 21.11.2007 kl. 00:40

34 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er búinn að vera að lesa bæði hugleyðinar Jóns Steinars og svo umræðuna, ég get ekki skilið afhverju fólk getur ekki látið sér duga að tala um þessar hugleyðingar hafi það skoðannir og langanir til þess.

Mér finnst þetta bara mjög góð hugleyðing og er enn að velta henni fyrir mér, margt af þessu hef ég og við flest velt fyrir mér áður og örugglega misoft og mismikið og ég ætla að velta þessari hugleyðingu áfram fyrir mér, takk fyrir mig Jón Steinar og Pálmi.

Ps. Auðvitað er þetta ekkert annað en hroki Rósa að geta ekki bara rætt málin án þes að fara að setja menn á mismunandi háa stalla, svona meira eins og -margur heldur mig sig og auðvitað var þetta hjá Guðsteini af sama meiði og engöngu gert til að reyna að halda skoðannaskiptum á lágu plani, en ég er svo sem hjón líka svo það er líklega eðlilegt að ég sjái þetta eitthvað öðruvísi en þið Rósa og Guðsteinn.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 21.11.2007 kl. 22:41

35 identicon

Sælir nafni og fleiri,

Frábær grein hjá Jóni Steinari.

Fyrir mitt leyti þá er ég, eins og margir, búinn að velta fyrir mér stærri spurningum og fæ lítið af svörum. Ég trúi á Guð og ég reyni að lifa eftir inntaki kristinnar heimspeki. 

Ég er samt einhvern veginn alveg viss um að í augum margra kristinna manna, sem eru í bókstaflegum pælingum, að ég sé heiðingi. Þessi hentisemi að trúa bara því sem ég vil trúa og mæta einu sinni í kirkju á ári á jólunum er sennilega ástæðan.  Mér finnst bókstafstrúar fólk samt ekki vera neitt sérstaklega kristið heldur. Er einhvern veginn of brjáluð stemning hjá mörgum í þeim bransanum. Hafiði séð omega og fólkið sem talar tungum. Ekki í lagi.

Umræður sem þessar eiga það til að einkennast af flokkadráttum og leiðindum. Menn gefa út bækur til að afsanna biblíutexta, doktorar í textum. Trúaðir doktorar í textum svara. Endalaus barátta um eitthvað. Fjölmargar heimasíður sem eru bara um það að gagnrýna og rífa niður kristni og biblíuna og á móti jafnmargar sem svara allri gagnrýni og svona djöflast liðið í hvoru öðru.

 Læt mér fátt um finnast og ræði þetta aldrei við neinn enda einkamál mitt. Geri það hér núna af því að mér fannst svo mikil til þessarar greinar koma.

Ég vildi allavega segja, takk fyrir góða grein og gaman að rekast á svona á flakkinu um vefinn.



Pálmi.

Pálmi (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 01:06

36 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

hi..gætir þú sent mér mailið þitt..langar að senda þér smá!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2007 kl. 09:44

37 Smámynd: Óðinn

Svar við kommenti númer 36:

Alltaf jafn gaman þegar menn koma með uppfærðar dæmisögur til að undirstrika eitthvað eins ómarktækt og persónulega skoðun. Þín skoðun er þín og við virðum hana - hins vegar er annað mál þegar þú gerir þína skoðun opinbera og fullyrðir að trú annarra, sem er einkamál þeirra, sé ekki rétt. Svo þegar andsvör koma og einfaldlega bent á rökvillur í færslum þínum er skyndilega skipt um gír og farið að lasta fólk fyrir að gera þínar skoðanir að þeirra máli. Komdu nú fram við fólk líkt og þú vilt að það komi fram við þig - vilt þú, án djóks, að fólk tali við þig eins og þú yrðir á það?

Með lestri á textum þínum má skynja sannfæringu á máli þínu og allt sem fellur ekki innann þess ramma sem skoðanir þínar afmarka þá erum við orðin of "þröngsýn" og höfum bara ekkert pælt nógu mikið í hlutunum. Þú ert að upphefja þig með þínum eigin orðum og engra annarra.

Ég vitna í þig hér til að færa rök fyrir mínu máli:

"Hins vegar er það svo sem að "trúleysingjar" virðast viðhafa það sem trúarbrögð. Því að engin rök eru tekin til greina!"

Hérna einmitt ertu byrjaður að ásaka aðra um það sem þú ert sjálfur sekur um. Rökin sem fólk kemur með til þín eru ekki tekin til greina - líkt og þegar við tökum ekki þína flottustu dæmisögu samtímans til greina.

Veistu kannski ekki um hvað ég er að tala? Ég einmitt þekki nokkrar dæmisögur og ég veit hver tilgangur þeirra er, þar eru dæmi tekin saman til þess að koma skilaboðum höfundar í gegn, og ákjósanlegt væri að sagan léti sem skilaboðin væru rökrétt og einlæg svo erfitt væri að vísa sögunni á bug. Þegar vel tekst til - þá eru dæmin svo vel uppsett og tengd inn í raunveruleikann að jafnvel hinn argasti rökfræðiséní stæði á gati.

Í þínu kommenti, Erlingur, setur þú upp dæmi þar sem Doktor X gegndi aðalhlutverki. Þarna var talað um einelti, prófessora, trúleysingja, hunda og 5 ára börn. Eftir lesturinn var ég ekki alveg viss um hvað þú værir að segja og því fór ég og aflaði mér heimilda til þess að sjá hvort sagan hefði í raun átt sér stað. Þegar ég leitað að Doktor X í "USA" þá var það eina sem vit var í ein kvikmynd gerð árið 1932, vel gert - þú náðir að eyðileggja sögu þína og gildi hennar í einni setningu.

Ég einmitt hef aðra hérna í pokahorninu;

Einu sinni var Dr. Y sem trúði rosalega á hinn heilaga anda og var hann þekktur í USA. Þar gegndi hann merkri stöðu meðal Pýramídafræðinga og gat hann sannað tilvist Guðs með einni jöfnu! Svo góður var hann í talnaspekinni, þau heilögu vísindi sem hún er. Svo kom Hr. M og sagði Dr. Y að allt þetta rugl sem hann hefði sokkið sér í væri rangt.

Dr. Y sannfærðist og varð svo meðal víðtækustu "trúleysingjum" mannkynssögunar! Hver vill ekki svona kröftugan fulltrúa!?

Sagan þín hefur fín skilaboð fyrir þá sem vilja, líkt og sagan um Nóa og Örkina hans, kannski þú getur rifjað upp fyrir mér hvers vegna þú telur hana sanna. Líkt og Dr. X.

Vá, þetta var mikið - takk fyrir mig, sérstaklega ef þú náðir að lesa allt.

Óðinn, 24.11.2007 kl. 10:24

38 Smámynd: Óðinn

Gleymdi að minnast á það að rök sem:

  • hafa engan bakgrunn
  • eru staðhæfingar byggðar á lygum eða markaðsbrellum, líkt og Biblecode og NEW Biblecode (svona fyrst upprunalega bókin dugði ekki til)
  • sagnfræðilegar alhæfingar útfrá dæmisögum úr 1700 ára gamalli ritskoðaðri bók á meðan afrakstur vísindavinnu síðustu 1700 ára eru dregnar niður í svaðið

... eru ekki rök. Það getur vel verið að þú hafir farið í eitthvert "rökfræðitest" í einhverjum bréfaskólanum og fengið 10 af 10 - en þó svo þú hafir þann kost að geta beitt rökhugsun hefur það ekkert að segja með hverju þú leifir að sannfæra þig. Menn geta beitt rökhugsun á góða vegu á meðan þeir hleypa rökleysum inn í kollinn á sér svo lengi sem þau undirstrika þínar eigin persónulegu skoðanir. Ómarktækt hvað þú færð í einkunn, þannig er það nú bara.

A er ekki B,

B er ekki A.

Þetta virðist vera einfaldasta rökfræðidæmið sem maður hugsar sér, en þegar þú hefur valdið að skilgreina A og B - þá skiptir engu máli hvernig þú túlkar rökfærsluna sem slíka.

Jæja, ég ætla ekki að missa mig í ræpunni aftur.

Óðinn, 24.11.2007 kl. 10:33

39 Smámynd: Óðinn

Þetta voru þau viðrbögð sem ég vildi ná fram Erlingur, vel gert. Ég vildi bara sýna með mínum orðum hvernig þú sjálfur kemur fyrir þegar þessi mál eru rædd - það að koma fram við náungann sem slíkan að hann hafi bersennilega ekki lesið réttu bækurnar í gegnum lífið eru eintóm leiðindi og ekkert annað.

Ég hef ekkert út á neinn að segja varðandi þessi mál því enginn getur gengið útfrá sannleika þegar hann sjálfur hefur ekki verið staðfestur nema af getgátum eða kenningum. Þess vegna finnst mér alltaf jafn áhugavert þegar svona rökræður komast á yfirborðið því undantekningalaust mun þessi blær taka yfir alla umræðuna.

Með von um þögn. 

Óðinn, 26.11.2007 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband