Kaupa kaupa kaupa

Einhversstaðar yfir miðju Atlantshafi

Ágætu tilvonandi þegnar - hér með tilkynnist að ég Jóakim von Islandi hef tekið þetta blogg hans frænda míns yfir. Það forðar okkur í bili frá öllum kommúnistaávörpum og minnkar aðeins álagið á mér sem er nú ærið fyrir. Undanfarið hef ég þurft að eyða dýrmætum tíma, sem annars hefði farið í að undirbúa krýninguna, í að svara erfiðum spurningum frá viðskiptafélögum sem hafa verið að fá margskonar leiðindi frá kommanum með tölvupóstum og föxum. Eins hefur hann stundað það að taka upp símtöl sem við höfum átt á viðkvæmum augnablikum þegar ég hef verið mjúkur og meyr. Svo hefur hann hótað að senda þau á alla sem ég þekki ef ég standi ekki við eitt og annað sem hann hefur fengið mig til að samþykkja á fyrrnefndum viðkvæmum augnablikum. Það er nú einu sinn þannig með okkur viðskiptajöfrana að við megum helst ekkert aumt sjá og það hefur hann nýtt sér.  Um daginn þegar ég sat útá svölum að virða fyrir mér Persaflóann eða hvað hún heitir dýrðin þarna niðurfrá, fékk ég símtal frá frænda. Alltíeinu fór svo agalega vel á með okkur, hann sagði mér sögur frá gamla landinu og nú bara jákvæður útí allar stjóriðjuframkvæmdirnar, harmaði ástandið á mörkuðum og var ekkert nema simpatíið. Þvílíkur léttir; vinurinn var kominn heim.  Ég fylltist þvílíkri hamingju yfir sinnaskiptunum að þegar hann í lok símtalsins bar upp lítið erindi sem fól í sér fjármögnun á skóla og sjúkrahús í Malaví og annað í Namibíu sagði ég já og amen. Ég var rétt búinn að bland mér einn röndóttann til að fagna upprisu frænda, þegar  hótelstarfsmaður var mættur með fax sem ég þurfti að samþykkja með undirskrift.  Nokkrum dögum seinna kom reikningurinn  ... ég hafði skrifað undir 50 ára samning um rekstur sex 250 manna skóla, tveggja hátæknisjúkrahúsa fyrir 1500 manns og framfærslu 500 fjölskyldna. Og hvað haldið þið svo - hann sendir á mig sjónvarpslið frá einhverri Save the planet stöð til að taka viðtal við manninn með stóra hjartað og digru sjóðina.  Nú rignir yfir mig daglega beiðnum um að bjarga einhverjum andskotanum.  En þetta er reyndar frádráttarbært.  Ra ra ra ...

Annars er ég í góðu skapi þessa dagana, hef grætt á tá og fingri á áli, stáli, olíu og guði og sveiflum á hlutabréfamörkuðum.  Já talandi um guð. Þegar hlutabréf í öllum fyrirtækjunum mínum vaða upp og niður, út og suður,  þá er það gamli góði Jahve sem stendur sig. Núna er ég reyndar að fá mest útúr litlum krossum með með heilögu vatni úr kraftaverkabrunni frá fjallahéraði einu í Albaníu. Einhver fótfúinn datt í brunninn, henti stafnum og fór að tala tungum í beinu framhaldi. Ég ákvað að skoða hvað væri á ferðinni, skrapp á svæðið og brá mér í bað. Viti menn ég fór að röfla einhverja vitleysu sem  reyndist vera forn Armenska og röflið stóð yfir í nokkra dag. Þegar af mér bráði guðsmalinu tók ég til hendinni. Verkssmiðja fór uppí hvelli og nú mala krossarnir gull. Litlir kranar eru á krossunum sem útdeila einum heilagavatnsdropa í senn ef þarf að lækna einhver leiðindi. Mér hefur dottið í hug að útfæra þetta aðeins og setja eitthvað annað en vatn ínní krossinn, til dæmis messuvín en það  bíður betri tíma. Annars á ég fund með Gunna í Krossinum eftir helgi ef Muhammi 4 kemst með mig til Íslands. Er með nokkuð snjalla hugmynd sem tengist vatnskrossinum og tónlist. Sendu nú gullvagninn og allt. Kassi með krossi, gospel og DVD. Fyrir heimsmarkað - HALLILÚLLI.

Áður en ég kveð ykkur má ég til með að segja ykkur hvernig þetta leiðinda flugmannsmál endaði. Alveg einkennilegt hvað ég er óheppinn með þessa stráka. Eins og þið munið þá yfirgaf Muhammi 3 mig í Súdan nánar tiltekið á einhverjum gömlum herflugvelli fyrir utan Khartoum. Í framhaldinu komst ég við illan leik til Dubai. Hélt að það yrði mitt síðasta og þurfti að múta hægri vinstri. Eftir að hafa jafnað mig í nokkra daga flaug ég aftur til Súdan. Vélin var í geymslu hjá Bedúínum sem  tóku að sér að gæta hennar.  Vélin var á sínum stað enda hafði ég lofað úlfaldafólkinu gulli og grænum skógum fyrir pössunina.  Uppí flugturni náði ég sambandi við mann sem sagði mér að ættingi væri á leiðinni frá Nigeríu með farm og væri atvinnulaus. Skömmu síðar lenti gamall Þristur á síðustu dropunum. Um leið og vélin lenti kviknaði í báðum hjólbörðunum. Þristurinn hafði varla stöðvast þega maður með vefjarhatt á hausnum flaug út úr honum með tvær fötur, hljóp eins og andskotinn væri á hælunum hans inní flugstöðina, kom skömmu síðar út á harðahlaupum með föturnar fullar af vatni og náði með snarræði að slökkva eldinn í hjólbörðunum. Hann sagði mér seinna að þetta hefði hann þurft að gera nokkrum sinnum þar sem dekkin voru komin í striga og flugfélagið Súdan express hefði ekki efni á nýjum. Ég réð manninn með það sama, maður að mínu skapi, ráðagóður og með flugmannspróf frá virtum flugskóla í Florida uppá vasann. Ég veit samt ekki alveg hvað ég á að halda núna um þetta skírteini, því mér sýnist eins og vanti bensín á annan tankinn og hinn alvega að verða tómur.

Það veit heldur ekki á gott þegar mottan er komin á gólfið í flugstjórnarklefanum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 1.4.2008 kl. 03:34

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Búinn að lesa... tvisvar.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.4.2008 kl. 06:05

3 Smámynd: HP Foss

Kvitt.

HP Foss, 1.4.2008 kl. 12:30

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 1.4.2008 kl. 20:15

5 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

skemmtileg færsla.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 2.4.2008 kl. 14:59

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Merkileg ævintýri sem þú lendir í. Lífsreyndur maður að miðla til annara. Ég skal koma í kirkju strax ef farið verður að útbýtta ókeypis víni við altarið. Tilgangurinn helgar meðalið. Skál!

Ólafur Þórðarson, 2.4.2008 kl. 21:29

7 Smámynd: Ómar Pétursson

 flottur

Kveðja

Ómar Pétursson, 4.4.2008 kl. 08:43

8 Smámynd: Landi

Alveg magnað

Landi, 5.4.2008 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband