12.5.2007 | 12:58
Létt spor
Vaknaði í morgun klár og hress og undirbjó hin þungu spor. Malaði Súmötrubaunir af betri gerðinni og hlustaði á unglinginn minn æfa Tunglskinsónötuna eftir Beethoven. Á forsíðu Moggans blasti við angistarfyrirsögn ritstjórnar. Eftir að hafa lesið leiðarana og Staksteinana undanfarna mánuði er ég viss um að það myndi framkalla léttvægt hjartaáfall hjá aðalritstjóranum ef maður læddist upp að hlið hans á förnum vegi og hvíslaði nafn Ingibjargar Sólrúnar í eyra hans. Ég trúi varla að þessi ógnarnoja ritsjórans geti verið Sjálfstæðimönnum þóknanleg en það er nú annað mál og kemur mér ekkert við. Eftir lestur lítt uppbyggilegs blaðafóðurs, sneri ég mér alfarið að því að hlusta á unglinginn minn sem ég er meira en lítið montinn af. Þessi klára stelpa, er árinu á undan í menntaskóla, er á kafi í píanónámi, stundar Taikwondo bardagaíþróttina svo fátt eitt sé nefnt. Það er hún sem erfa mun landið ásamt systkinum sínum, spurningin er hvernig það land verður.
Þegar ég settist niður í kjörklefanum skömmu síðar voru það krakkarnir mínir sem voru mér efst í huga og hin þungu spor voru ekki lengur þung.
Nú er ég á annarri Súmötru, búinn að pakka mér niður fyrir suðurferð og hlakka mikið til að hitta eldri dótturina sem stundar nám við HÍ. Stóra strákinn minn get ég ekki hitt þetta skiptið því að hann er floginn til Írlands á vit ævintýra sem ekki verða upplýst í bili. Og svo er það stefnumótið við Júródeildina á NASA sem ég vildi ekki missa af fyrir nokkurn mun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.5.2007 | 12:47
Þung spor
Ég er að undirbúa mig andlega fyrir hin þungu spor. Það geri ég best með því að rölta í ræktina, tölta á brettinu og lyfta lóðum. Alveg merkilegt hvað nokkrir mánuðir í líkamlegu púli hafa gerbreytt ákveðnum hlutföllum í lífi mínu að mestu með jákvæðum hætti. Í raun er það eina neikvæða við spriklið að fatalagerinn er í tómu tjóni, nú má ég ekki fara í neitt sem áður smellpassaði á íturvaxinn líkamann án þess að líta út eins og fuglahræða. Ekki það, farið hefur fé betra því ekki er Armani eða Boss fyrir að fara í skápnum. Ég er einn af þessum svifaseinu sem fer ekki í fataverslun fyrr en næðir um beran búkinn og fjölskyldan neitar að fara með mér í bæinn. Þannig að næst á dagskrá er að berja á búðarfælninni og versla föt. Annað sem ræktarátakið hefur haft í för með sér er óendanlegur léttleiki líkamans í tilverunni. Tíu kíló af mör fokin útí veður og vind, sixpakkinn kominn í leitirnar og brjóskassin sem hafði um nokkurt skeið kallað á notkun brjóstahaldara að kvenna sið orðinn stífur og stæltur á ný. Ætli fyrstu sporin mín í ræktina hafi ekki verið í svipuðum þyngdarklassa og þau sem ég nú er að undirbúa mig andlega undir og aðdragandinn svipaður eða fjögur ár. En þau eru nauðsynleg, því með þeim legg ég mitt af mörkunum um framtíð Íslands, nýti heilagan rétt minn sem fullveðja þjóðfélagsþegns til að hafa áhrif á framvindu mála.
Vá, er ég að trúa þessari vitleysu, hvernig get ég látið þetta út úr mér !! Trúi ég því að eitthvað breytist þó valdahlutföll breytist eftir kosningar. Trúi ég því að eitthvað annað afl en það sem nú hefur stýrt skútunni muni taka á óréttlæti, misskiptingu, umhverfismálum, málefnum aldraðra og fatlaðra svo ég nefni nú eitthvað sem ekki er í lagi, ef það fær til þess umboð. Veit ekki, en held þó að hverju þjóðfélagi sé nauðsynlegt að stokka upp spilin af og til og gera hreint útí horn. En áður en ég sekk uppfyrir haus í eigin stjórnmálaspeki þá ætla ég spyrja hana Týru mína ráða. Ef hún svarar með einu mjái og lygnir aftur augunum þýðir það já ef hún leggur eyrun aftur og setur stýrið í lóðrétta stöðu og mjáar tvisvar þá þýðir það nei. Það er verst að Týra er farinn á flakk að veiða mýs og skoða högna þannig að ég verð eina ferðina enn að ganga hin þungu spor og gera upp hug minn ráðgjafalaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
10.5.2007 | 23:25
Eiki flottur
Eiki var kúl á stóra sviðinu í kvöld. Toppsöngvari að gera það sem hann hefur mest gaman af að gera, skemmta fólki. Ég var hinsvega alveg með það á hreinu að aðeins kraftaverk kæmi okkur áfram keppninni. Þegar Idolisminn hóf innreið sína í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva á sínum tíma var málið að mestu dautt fyrir fámennari þjóðir. Hinsvegar má breyta þessu fyrirkomulagi áður en það verður vandræðalegra en það nú þegar er orðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
10.5.2007 | 16:03
Djöfullinn hirði þig andskotinn þinn!!! ...
... var orðatiltæki okkar strákanna á Vopnafirði ef við urðum undir í slagsmálum eða þurftum að koma einhverju almennilega til skila í blússandi reiði.
Þessi uppskrúfaði strákafrasi kom upp í kollinn á mér á örskotsstund þegar ég heyrði um kæru Héraðsbúans á hendur Ómari Ragnarssyni, þar sem kært var fyrir náttúruspjöll. Reyndar trúi ég að kærandanum sé ekki sjálfrátt og að málið eigi eftir að fara þangað sem það á heima - á haugana.
Ómar er talsmaður náttúrunnar og stendur fyrir heilbrigðan málstað með heiðarlegum hætti. Jafnvel hans hörðustu pólitísku andstæðingum dettur ekki í hug að efast um það.
9.5.2007 | 01:27
Ísland er - efnahagsundur
Íslenska efnahagsundrið - útsala á flestöllum mjólkurbeljum þjóðarinnar á liðnum árum. Fyrst kom þjóðarauðlindin, fiskurinn, svo bankarnir, síðan síminn og þannig mætti áfram telja. Það nýjasta úr frægðarhöll efnahagsundra, sala á landinu. Nýríku strákarnir, skilgetin afkvæmi íslenska efnhagsundursins fela nú ofsagróða með uppkaupum á jörðum vítt og breytt um landið, bændur brosa í gegnum tárin þegar þeir selja undan sér og Guðni brosir með þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
7.5.2007 | 15:53
Hjálpum þeim !
Til að bjarga þjóðarsál frá glötun legg ég til að við sleppum kosningunum 12 maí. Leyfum stjórninni sem nú situr að sitja áfram með þeim skilyrðum að hún taki þátt í mikilvægri tilraun.
Tilraunin felur það í sér að leiðtogarnir fá frí frá Austurvelli næstu tvö árin en taka sér þess í stað fyrir hendur ákveðin störf. Enginn mun fetta fingur út í það og þaðan af sakna þeirra. Það væri nóg að skilja Pétur leiðtoga Blöndal eftir til að sjá um að kynda kofann. Honum til halds og trausts væri Sverrir Hermannson sem ráðinn yrði sérstaklega til að halda uppi móralnum hjá þjóðinni. Það færi fram í beinni útsendingu frá Alþingi á hverju kvöldi eftir fréttir. Hann var jú lengi vel eini maðurinn í þingsölum sem hægt var að hlusta á án þess að hugsa ljótt.
Valin yrðu sérhæfð störf fyrir leiðtogana.
Félagsmálaleiðtoginn fengi starf einstæðu móðurinnar sem vinnur á dagheimili 5 daga vikunnar; skúrar á hverju kvöldi og ber út Moggann um helgar. Sá fengi að sjálfsögðu sömu laun og byggi við sömu aðstæður og konan sem sinnir því smáræði. Að sjálfsögðu þyrfti líka að svipta hann öllum þeim þægindum sem gætu afvegaleitt hann í tilrauninni. Síðan yrði fylgst með geðheilsu hans af færustu sérfræðingum og all fært til bókar.
Nýskipaðan Iðnaðarleiðtoga mætti setja í það æsispennandi verkefni að hnoða saman ævisögu Finns hins unga Ingólfssonar, seðla og verðbréfasafnara með meiru. Að koma slíku ritverki saman tæki örugglega mjög langan tíma og minnkaði líkur á að Iðnaðarleiðtoginn gæfi óábyrgt leyfi fyrir fleiri álverum. Ævisagan gæti heitið Forever young.
Utanríkisleiðtoganum væri gert að vinna kauplaust sem auglýsingastjóri hjá Friði 2000. Jafnframt að verja öllum sínum frístundum sem jólasveinn við að safna pökkum fyrir fátæku börnin í einhverjum þeirra landa sem verið er að skjóta á af vinum okkar í Ameríku. Og einu sinni á ári færi hann fyrir hópi sjálfboðaliða sem leita að ósprungnum jarð- og klasasprengjum.
Fleiri störf í undirstöðuatvinnuvegunum mætti finna handa minni spámönnunum í leiðtogaliðinu t.d. gæti Heilsuleiðtoginn sinnt heimahjálp og gengið í hús á kvöldin og selt prjónles til styrktar gamla fólkinu sem á ekki fyrir nauðþurftum. Prjónlesið yrði leiðtoginn að sjálfsögðu að vinna sjálfur. Ef vel lægi á honum gæti hann stýrt spilakvöldum til skemmtunar fyrir gamla fólkið og sungið það í svefn ásamt Félagsmálaleiðtoganum.
Umhverfisleiðtoginn fengi umsvifalaust vinnu í álkerskála við uppsóp, eins yrði leiðtoganum gert að lesa allt sem til er um flóru Íslands og fuglalíf og taka síðan próf í herlegheitunum.
Forsætis - og Fjármálaleiðtoginn yrðu skikkaðir til að vera heima hjá sér.
Öllu leiðtogaliðinu yrði jafnramt gert að taka þátt í prófun nýrra lygamæla sem fyrirtæki í hátæknigeiranum yrði sett í að hanna og framleiða sérstaklega fyrir stjórnmálamenn. Sett yrðu á lög um að allir þeir sem kosnir yrðu á þing bæru mælana sem hefðu þann eiginleika að spila lag með Árna Johnsen þegar einhver segði ósatt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
5.5.2007 | 16:52
Það er svo skrýtið - taka tvö
Á liðnum árum hefur þjóðin getið af sér leiðtoga sem hafa stjórnað landinu af óskaplegum dugnaði og heilindum að eigin sögn. Takmarkalaus aðdáun meirihluta þjóðarinnar á þessum leiðtogum hefur í mörgu minnt á óþægilegt tímabil í mannkynsögunni sem menn vilja helst gleyma.
Endrum og sinnum hefur þó komið bakslag í aðdáunina. Til dæmi gerðist fyrir fáeinum árum nokkuð sem talið hafði verið með öllu óhugsandi. Nokkur smámenni fóru að efast um réttmæti almættisforsjár leiðtoganna. Og hvað í ósköpunum fékk nú þessi smámenni til að gera það, myndi nú margur spyrja? jú það var hið saklausa kvikindi sem kallað er í daglegu tali fiskur og er í stjórnarskránni skilgreindur sem sameign þjóðarinnar. Alltíeinu er farið að tuða um stuld á sameigninni og óspart bent á fyrrnefnda forystugrein í stjórnarskránni því til áréttingar. Til að bíta svo höfuðið af skömminni ákváðu andófsmennirnir að fara í mál. Leiðtogarnir svörðuðu þessari fólskulegu árás hratt og örugglega, lýstu stjórnarskrána illa skrifaðra skruddu og heimtuðu lagfæringar.
Til að skoða stjórnarskrárdeiluna um kvótann í sögulegu samhengi og flikka uppá heimsfrægt gullfiskaminnið, er nauðsynlegt að hverfa nokkur ár til baka til þess tíma er leiðtogaliðið áttaði sig á hvað yrði þjóðinni til bjargar í bráð og lengd. Þá hófst dansinn í kringum holdmesta kálf Íslandssögunnar og stendur sá dans enn þó aðeins hafi takturinn riðlast. Um margt minnti dansinn á annan þekktan kálfadans. Hinsvegar mölvaði Móses gullkálfinn þann mélinu smærra, meðan leiðtogar lýðveldisins Íslands hafa séð kvótakálfinum fyrir nokkuð öruggum átrúnaði. Allt til þess hörmungardags að einhver blábjáni fór að efast í trúnni.
Kvótakerfið sem hafði að sögn leiðtoganna og áróðursmeistara þeirra, átt stærstan þátt í að skapa núverandi hamingju þjóðarinnar varð alltíeinu fyrir fólskulegum árásum trúleysingja sem drógu kálfinn fyrir dóm þar sem hann var á endanum settur út af sakramentinu í háum og lágum dómsölum lýðveldisins sem ÓLÖGlegur og úrsérgenginn búpeningur. Þvílíkri ósvífni höfðu leiðtogarnir aldrei mætt. Hvernig dirfðist einhver fimm manna lögmannasveit sem þeir höfðu þar að auki komið fyrir í embætti, að efast um sköpunarverk þeirra? Til að bæta gráu ofan í svart fór lýðurinn að láta einkennilega. Áttuðu menn sig ekki á því að ef kálfurinn yrði allur, þýddi það endalokin. Öll byggð í landinu færi til fjandans og fólk mundi flosna upp og deyja. Sultur og seyra yrðu hlutskipti lýðsins og líklegast mætti búast við öðrum Móðuharðindum.
Einn af leiðtogunum, af ætt austfirskra sægreifa, kvótaeigandi með meiru og einn af upphafsmönnum kálfsdýrkunarinnar, fékk sig alveg fullsaddan á allri vitleysunni, rauður af hneykslan hótaði hann öllu illu sem er að vissu leyti skiljanlegt þar sem verið var að dæma sköpunarverk hans út í ystu myrkur og þar með dæma af honum eigin króga.
Aðalleiðtogi þoldi áreitið litlu betur og fór í feita fýlu. Svo feita að sjaldan hefur önnur eins fýla verið skráð í bækur á sögulegum tíma. Reyndar telja mætir menn að um atvinnufýlu hafi verið að ræða, enda leiðtoginn sá þekktur fyrir gálgahúmor og almenn skemmtilegheit. En fýlan var ofur skiljanleg ef mið er tekið af því að hið næsta óþekkta í leiðtogasögu hans hafði nú gerst. Hann og restin af leiðtogaliðinu hafði nú þurft að sæta ávítum frá valdi sem var þeim æðra. Valdi sem þeir voru búnir að steingleyma að hefði eitthvað vald. Eins og óþekktarangar sem teknir eru á beinið af uppalendum sínum, sneru þeir uppá sig og leituðu í örvæntingu leiða út úr ógöngunum.
Eftir nokkra legu undir feldi með áróðursmeisturum sínum, fóru leiðtogarnir að svara fyrir sig fullum hálsi. Nú var stjórnarskráin hin helga bók lýðveldisins illa skrifuð skrudda sem þarfnaðist uppfærslu, meirihluti fólksins klappaði og málið sofnaði.
En hamra þurfti járnið því ekki mátti fólkið tapa trúnni á ofurkálfinn. Fólkið þurfti að skilja að til að líf fengi þrifist í landinu yrði að vera til stétt voldugra sægreifa, það væri lífsspursmál. Meiri hluti þjóðarinnar klappaði og sægreifar fengu viðbótarkvóta.
Nú áttuðu leiðtogarnir sig á því að þrátt fyrir tilraunir dómstóla að vinna skemmdarverk á kálfinum góða hafði þeim tekist að endurheimta trú fólksins, það klappaði enn. Leiðtogarnir sáu að í því fólust margvísleg önnur tækifæri.
Slíkum tækifærum mátti ekki glutra niður. Boðuð var ný forsenda þess að þjóðin fengi þrifist. Nú skyldu fallvötn virkjuð sem aldrei fyrr og álver reist á sem flestum stöðum, boðið var uppí nýjan dans. Meirihluti fólksins klappaði og leiðtogarnir sáu að bæta mátti við miklu fleiri virkjunum og fleiri álverum. Áfram klappaði meirihluti þjóðarinnar.
Ef marka má skoðanakannanir getur meirihluti þjóðarinnar ekki hætt að klappa!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
3.5.2007 | 00:22
Nú er hún Gunna á nýjum skónum
Siðustu vikur hafa verið einstaklega upplífgandi og gefandi. Gjafmildi þeirra sem stjórna landinu er svo mikil að maður getur varla fylgst með. Svo er þetta einstaklega spennandi því enginn veit hvað kemur næst, það er eins og hver og einn úr ráðherraliðinu hamist við að toppa hver annan í einskonar Idol keppni í gjafmildi. Eini gallinn er að keppninni linnir eftir hálfan mánuð og síðan líða mörg ár. Mér datt í hug hvort ekki væri hægt að breyta þessu stúpid 4 ára fyrirkomulagi og hafa kosningar einu sinni á ári.
Menningarsamningur fyrir Suðurland undirritaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.4.2007 | 01:43
2020
Við göngum niður að ánni. Strákurinn nokkrum skrefum á undan mér í nýjum vöðlum og vesti sem hann keypti fyrir fermingaraurana, vopnaður nýrri stöng, hjóli og línu sem hann fékk frá afa og ömmu. Oft höfum við haldið þessa leið saman, ég og gleðifuglinn sem á heima inní mér og flýgur um á stundum sem þessum. Hann er annars eðlis sá sem nú kroppar í sálina og tengist hvorki eftirvæntingu eða gleði.
Hefur eitthvað veiðst nýlega? - strákurinn rýfur þögnina. Það er eitthvað lítið, en er þó ekki viss; - svara ég um hæl. Víst eru fréttir úr ánni, enginn fiskur kominn á land og liðinn mánuður af veiðitímanum. Fiskifræðingar sem kannað höfðu ástandið voru allir á sama máli, laxinn skilar sér alls ekki og rannsóknir sýna að drottning íslenskra laxveiðiáa er á endasprettingum. Hvernig gátum við farið svona að ráði okkar; hugsaði ég þar sem ég rölti á eftir veiðiglöðum unglingnum; við vissum orðið svo margt og höfðum svo sannarlega vítin til að varast þau. Aðrar þjóðir höfðu gert öll mistökin fyrir okkur - þvílík ógnarheimska!!
Strákurinn er kominn niður á árbakka. Ég hægi á mér og horfi á erfðaprinsinn þar sem hann stendur teinréttur í geislum morgunsólar við Höfðahyl, greinilega uppnuminn yfir fegurð þessa fræga veiðistaðar. Ég veit að það er komið að stund sannleikans, honum verður ekki hagrætt meir. Strákurinn snýr sér við og horfir til mín. það neistar af honum. Hér gæti maður sko dvalið alla ævi og komið svo aftur í næsta lífi - Hann er skáldlegur sonur minn og það af ofur skiljanlegum ástæðum. Það eru stundir sem þessar sem hafa í gegnum aldirnar orðið ljóðskáldum yrkisefni.
Hvar var það nákvæmlega sem Jakob tók stóra laxinn? Hann tók rétt fyrir neðan steininn - en Siggi minn ég þarf að segja þér dálítið. Strákurinn lætur sem hann heyri ekki í mér, hann er kominn í annan heim og þar er ekkert pláss fyrir samræður. Ég ákveð að bíða með stund sannleikans - finn mér góðan stein; tylli mér og fylgist með. Strákurinn er góður kastari, hefur æft með meistara frá blautu barnsbeini. Snjóhvít línan klýfur loftið köstin óaðfinnanleg. Myndin sem ég á af honum fimm ára út á túni með fyrstu flugustöngina er í miklu uppáhaldi hjá mér; stækkuð uppá vegg fyrir ofan hnýtingaborðið mitt.
Þarna á steininum við Höfðahyl verður mér hugsað til þess hvernig sambúð okkar mannanna við náttúruna var háttað áður en við ákváðum að gerast herrar hennar. Fram til þess tíma höfðum við bölvað henni þegar hún lék okkur illa eða fagnað hástöfum og lotið henni í auðmýkt þegar hún jós í gjafmildi af gnægtarborði sínu. Nýir tímar með framförum á öllum sviðum hefðu átt að bæta okkur sem manneskjur en í þess stað urðum við græðginni að bráð. Ekkert fékk stöðvað okkur. Við fjötruðum fallvötnin; gerðum uppistöðulón, menguðum vatn og loft, eyddum skógum og mergsugum jarðveginn. Við töldum okkur hafin yfir náttúruöflin og blikkuðum í mesta lagi auga ef gaus hættulega nálægt byggð eða ef tala fallinna vegna náttúruhamfara fór yfir þúsund. Öðru þurfti ekki að hafa áhyggjur af. Þegar svo náttúran stóðst ekki kröfur okkar, var sett í herðarnar og ákveðið að berja hana til hlýðni; hún var jú til að þjóna duttlungum okkar óskum og þrám, hversu vitlausar sem þær voru. Um miðjan júni á því herrans ári 2020 þegar ég horfi á strákinn minn sveifla flugustönginni af svo mikilli leikni þá hellist það yfir mig af fullum þunga; við erum komin yfir strikið og skaðinn verður trúlega ekki bættur. Ástand einnar fegurstu veiðiár landsins er dæmigert fyrir þennan kalda raunveruleika. Þetta verð ég að segja syni mínum á eftir; ég veit bara ekki hvernig ég á að fara að því.
Hann er á pabbi! ég hrekk upp af hugleiðingum mínum við hávært sigurkall sonar míns. Ég stekk á fætur og hraða mér til veiðimannsins. Hann tók fyrir neðan steininn alveg eins og þú sagðir, þvílík snilld. Mér er öllum lokið; strákurinn hefur sett í fisk í ánni sem átti að vera steindauð, greinilega stærðarfisk því stöngin er í keng. Hann liggur þungt útí í straumnum og hreifir sig ekki mikið. Skömmu síðar er hann kominn inní lygnuna við bakkann með hliðina upp. Ég sporðtek fiskinn og hendi honum uppá bakkann með tilheyrandi sigurhrópi. Ungi veiðimaðurinn horfir á fiskinn um stund; horfir síðan á mig þar sem ég stend brosandi út að eyrum útí ánni. Þessu augnaráði mun ég aldrei gleyma svo lengi sem ég lifi. Síðan snýr hann sér snögg frá mér eins og hann afberi ekki að hafa mig fyrir augunum lengur; fleygir stönginni á jörðina og gengur í átt að bílnum. Ég klöngrast uppá bakkann. Um stund stari ég á fiskinn,beygi mig síðan niður og losa fluguna úr kjafafvikinu. Ömurlegri sjón hef ég aldrei séð. Dýrið er eitt flakandi sár frá haus og aftur úr, hreistur og hold einn grautur og engin sporðblaðka sjáanleg. Nokkru síðar flýtur þessi afskræmda lífvera niður strenginn og hverfur sjónum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
28.4.2007 | 01:41
Þorparar
Ekkert jafnast á við góðan vin. Ég er svo heppinn að eiga einn slíkan. Þetta er saga um vinskap.
ÞORPARAR
Við vorum eins og dagur og nótt, Hafþór þéttur á velli og í hugsun, einstaklingur ígrundunar og efasemda og ég línudansari, til í að prófa allt. Leikvöllur okkar vinanna var mikill að umfangi og bauð upp á endalaus ævintýri. Við vorum höfundar ævintýranna og ægifagur Vopnafjörðurinn leiksviðið. Þetta var fyrir tíma afþreyingarbyltingarinnar miklu og síldarævintýrisins sem umturnaði á einni nóttu flest öllu því sem einkennt hafði mannlífið í þessu litla sjávarþorpi norður á hjaranum.
Ég reikna með að okkur Hafþóri megi eigna bróðurpart grárra hára á höfðum ættingja okkar, enda voru uppátækin til þess fallin að vekja sálarangist. Hetjur voru okkar uppáhald og töldum við það heilaga skyldu okkar að feta á sem nákvæmastan hátt í fótspor þeirra. Við sigum í björg eftir að hafa séð kvikmyndina um björgunina við Látrabjarg í félagsheimilinu. Náfölt andlit mágs míns sem kom að okkur sígandi í háum þverhníptum kletti fyrir ofan þorpið, er mér minnistætt. Ég veit það nú að fölvinn kom ekki af reiði heldur eintómri hræðslu, enda var sigstrengurinn venjulegt snæri, annar seig og hinn hélt við. Sá sem seig í þessu tilviki var Hafþór sem í miðju sigi ákvað að útfæra björgunarafrekið við Látrabjarg með tilvitnun í eggjasig Vestmannaeyinga, og tvöfaldaði þyngd sína sem var þó nokkur fyrir, með lausu grjóti úr berginu. Þegar að var komið var strengmaðurinn á brúninni orðinn siginn í öxlum og uppgefinn.
Við lásum um hetjur, um indíána og landnema, víkinga og heimskautakönnuði og áttum ávallt mjög auvelt með að setja okkur í spor þessara sálbræðra okkar. Um miðjan vetur í aftakaveðri endursögðum við um afrek Amundsen á heimskautinu. Þokkalega nestaðir og vel klæddir héldum við út í grenjandi manndrápsveður og tókum stefnuna yfir í Vesturárdal. Við vorum að sjálfsögðu vopnaðir heimatilbúnum spjótum og ímyndaðir hundar drógu sleða okkar og vistir. Undir kvöld var sendur út leitarflokkur og fundust heimskautafararnir eftir nokkra leit, heilir á húfi inn með Vesturdalsá og voru þegar að var komið að hvíla lúin bein undir háum bakka eftir ægilega viðureign við tvo hvítabirni. Tveggja daga innivera með tilheyrandi þagnarmúr fylgdi í kjölfarið.
Svo kom sumarið sem ég dvaldi með móður minni á fjöllum. Hún hafði gerst matráðskona hjá vegavinnuflokki og þrátt fyrir hávær mótmæli mín og hótanir um að segja henni upp sem móður, varð við ekkert ráðið og ég var kominn í útlegð og einsemd. Við vinirnir kvöddumst með tárum yfirkomnir af óréttlæti þessa heims. Stærstan hluta sumarsins hélt flokkurinn til í tjaldbúðum inn á svokölluðum Banatorfum á miðri Vopnafjarðarheiði.
Yfir vegavinnuflokknum réð Jón Guðlaugsson oft kenndur við Gudduna. Guddan var gamall Víbon trukkur, sterkbyggður með skófluhaldara og bensínbrúsum að aftan og miklum stuðurum.
Jón sem látinn er fyrir margt löngu var sérstakur maður og einkennilegur í háttum. Var gert grín að karlinum sem lá vel við höggi eins og gengur og gerist með þá sem eru öðruvísi. Jón Gudda var vondur bílstjóri. Strákarnir í flokknum töldu það fullkomið glapræði að sitja í bíl með karlinum, nema sá hinn sami væri í alvarlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Á einhvern óskiljanlegan hátt hélt Jón vegi þó oft væri tæpt á því. Beygjur og brekkur voru í afar litlu uppáhaldi hjá karlinum og illa var honum við að skipta um gír. Ég fékk oft að sitja í með Jóni og þó samræður væru svo gott sem engar, eitt og eitt humm á stangli, þá leið mér vel með karlinum og hann sýndi mér ávallt hlýju.
Litlu munaði þó að hann setti mig endanlega út af sakramentinu þegar ég lokaði hann inn á kamri í hádegishléi. Ég vissi það ekki fyrr en seinna að Jón var haldinn innilokunarkennd á háu stigi, enda fór svo að hann kom út með eina hlið kamarsins á undan sér og þurfti að endurreisa náðhúsið eftir uppákomuna. Ég lét mig hins vegar hverfa bak við næsta leiti og skilaði mér ekki heim fyrr en liðið var á kvöld. Mamma tók á móti mér með prédikun sem hefði auðveldlega snúið hörðustu kommúnistum til guðstrúar. Að því loknu var marserað að tjaldi foringjans sem lá og hvíldi sig eftir áfallið. Lofað var bót og betrun í votta viðurvist og málið þar með látið niður falla.
Þrátt fyrir óhamingjuna sem fylgdi fjarvistum við besta vininn, var þetta sumar einstaklega skemmtilegur tími. Þarna voru samankomnir hressir strákar sem höfðu séð ýmislegt á lífsleiðinni. Sagnarhefðin var í hávegum höfð meðal tjaldbúa og margar ánægjustundir átti ég út í horni í einhverju tjaldinu, þar sem lítið fór fyrir mér, með eyrun útstæð af forvitni.
Ýktar sögur af svaðilförum, skrautlegum persónum, fylleríum, uppáferðum og slagsmálum lifðu góðu lífi löngu eftir að skriðið var undir sæng og rændu mig oftar en ekki svefni. Kvöldin voru einatt krydduð með ljósbláum gamanvísum Arthúrs vinar míns í Syðri-Vík. Arthúr var í mínum augum snillingur. Flinkasti ýtustjóri á jörðinni og svo spilaði hann á gítar og söng.
En langt í burtu frá öllum þessum skemmtilegheitum var vinur minn Hafþór. Við það var ekki unað. Í einni af ferðunum sem ég fékk að fara með Jóni á Guddunni út á Tanga til að kaupa vistir fyrir tjaldbúðirnar, var ákveðið að Hafþór stryki á fjöll með sínum kæra vini. Nákvæm áætlun var sett upp um framkvæmd stroksins en hún fólst í því að Hafþór tæki saman föt í poka svo lítið bæri á og biði síðan við vegkant í útjaðri þorpsins og stykki aftan á Gudduna. Engar sérstakar áhyggjur höfðum við af því að Hafþór næði ekki að stökkva aftan á bílinn þar sem Jón var þekktur fyrir allt annað en hraðakstur. Þegar ég leit svo eldrautt andlit vinar míns í litlum afturglugga Vibonsins vissi ég að allt væri í himnalagi. En Adam var ekki lengi í Paradís.
Líklega hefur Jóni þótt ég eitthvað órólegur í sætinu enda var ég stöðugt að líta aftur í til að athuga með vin minn. Verður honum litið í baksýnisspegilinn og þar með er fjandinn laus. Jóni bregður svo heiftalega þegar hann uppgötvar laumufarþegann að falskur gómur sem alla jafna var á sjálfstæðu ferðalagi, flýgur eins og sprengja út úr honum og lendir í framrúðunni með háum hvelli. Jón nauðhemlar og missir við það stjórn á Guddunni sem sikksakkar kantanna á milli áður en hún stöðvar í rykmekki við vegkantinn. Á þessari ögurstundu hefði ég með réttu átt að vera allur úr hræðslu en svo var ég forhertur að þess í stað greip mig óstöðvandi hláturskast.
Á sama tíma og Jón staulast út úr Guddunni talandi tungum, rennir bíll að okkur á mikilli ferð. Þar er kominn pabbi Hafþórs en einhver sem hafði orðið áhorfandi að strokinu lét hann vita símleiðis. Hafþór var að sjálfsögðu á bak og burt, hafði stokkið af bílnum á ferð og látið sig húrra niður í skurð. Hann kom ekki fram fyrr en löngu seinna þá búinn að herða sig nægjanlega upp til að mæta örlögum sínum. Jón Guðlaugsson talaði ekki við mig það sem eftir lifði þessu sumri og reyndar ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar ég heimsótti gamla manninn á elliheimilið Grund. Yfirhalningin sem ég fékk hjá móður minni blessaðri var á andlegu nótunum sem fyrr, því líkamlegu ofbeldi beitti hún mig aldrei. Ef á mig sækir hugarvíl, nægir mér að hugsa til gómsins fljúgandi.
Eftir síendurteknar uppákomur af þessu tagi og aukinni refsigleði uppalenda okkar fórum við Hafþór okkur hægar í ævintýrin. Nú fóru afsakanir okkar á brotnum útivistarreglum og annari óhlýðni að taka á sig myndir hvítþveginna sakleysingja.Til dæmis þegar við skriðum inn um loftstokk á félagsheimilinu til að sjá að tjaldabaki Christopher Lee sjúga blóðið úr samleikurum sínum í myndinni um greifann ódaulega. Sextán ára aldurstakmarkið sem þá var nýuppgötvað leiddi til þessa örþrifaráðs. Ekki settum við það fyrir okkur að horfa á Transilvaníugreifann í tveggja metra fjarlægð frá tjaldinu sitjandi skelfingu lostnir á hörðu gólfinu. Þegar heim var komið sögðumst við, sakleysið uppmálað, hafa steingleymt okkur við tafl heima hjá hvor öðrum. Sem betur fer tóku foreldrar okkar þessar útskýringar góðar og gildar.
Svo breyttumst við í unga menn og fórum að vinna á vöktum á pokaloftinu í síldarverkssmiðjunni. Þessi óskapnaður sem reistur var á mettíma á fallegasta stað bæjarins og fyllti loftið óþef sem kenndur var við peningalykt, varð okkar gullnáma. Aldrei höfðum við látið okkur dreyma um aðra eins auðlegð og þá sem við fengum afhenta hálfsmánaðarlega í þykkum launaumslögum. Þetta voru himneskir tímar sjálfstæðis og svefnlausra nótta. Ármann frá Grund ókrýndur konungur pokaloftsins sá um að innprenta okkur guðsótta og góða siði á sinn sérstaka hátt. Orð hans voru lög og við aumir maðkarnir máttum þakka okkar sæla fyrir að hafa fengið inni í hans prívat konungsríki.
Á pokaloftinu ríkti afgerandi stéttarskipting. Við pokatrillararnir vorum í neðsta þrepi metorðastigans en langt ofar okkur Sveimbi, Siggi Dalling og fleiri eðalþegnar konungsins. Þetta voru góðir kallar sem höfðu á einhvern óskilgreindan hátt áunnið sér ákveðin forréttindi. Til dæmis að geta lagt sig eftir kaffitíma, en þeir voru margir. Þessi mikla svefnþörf karlanna gaf okkur pokatrillurum kærkomin tækifæri til að gera á þeim ýmsar tilraunir svo sem að mála þá eins og trúða með pokasvertu, setja salt í kaffibrúsana, víxla nestinu í bitaboxunum og binda þá saman á höndum og fótum og hrópa eldur.
Minnistætt er æðið sem rann á pokaloftskonunginn þegar hann hleypti mjölinu niður úr skammtaranum í gegnum botnlausa strigapokana sem við af mikilli natni höfðum rakið upp. Jafn listilega samansaumuð blótsyrði hef ég hvorki fyrr né síðar heyrt. Þau byrjuðu á lágu nótunum á fyrsta poka en hófu sig síðan til flugs og náðu hámarki á tíunda poka. Það var áhrifamikil sjón að sjá konunginn standa í mjölhaugnum upp í klof lofandi okkur háls- og beinbroti og eilífðarvist í helvíti. Wagner hefði orðið grænn af öfund hefði hann orðið vitni að stórbrotnu grand finale Manna frá Grund. Þvílíkar hamfarir. Mjölskemman nötraði stafnanna á milli.
Já síldin kom og sneri öllu upp sem áður hafði af hverdagslegri vanafestu snúið niður í þorpinu. Og þegar svo allir voru orðnir vanir því að allt sneri upp sem áður sneri niður, týndi Jakob síldinni og sagan endurtók sig. Það var á svipuðum tíma sem leiðir okkar Hafþórs skildu. Hafþór fór í kennaranám en ég línudansarinn ákvað að gerast tónlistarmaður. Þó tengslin rofnuðu um tíma vegna anna við að fullorðnast, voru þau endurnýjuð mörgum árum seinna og í dag hittumst við vinirnir reglulega. Nú leitum við uppi ævintýrin við árnar og vötnin og leggjum sem fyrr á ráðin. Blessunarlega hefur lítið breyst. Hafþór sér enn um ER EKKI Í LAGI MEÐ ÞIG! deildina og Ég sé um LÁTTU EKKI SVONA MAÐUR! deildina. Þannig var það og Þannig viljum við hafa það.
© Pálmi Gunnarsson, 2007.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)