2020

Við göngum niður að ánni. Strákurinn nokkrum skrefum á undan mér í nýjum vöðlum og vesti sem hann keypti fyrir fermingaraurana, vopnaður nýrri stöng, hjóli og línu sem hann fékk frá afa og ömmu. Oft höfum við haldið þessa leið saman, ég og gleðifuglinn sem á heima inní mér og flýgur um á stundum sem þessum. Hann er annars eðlis sá sem nú kroppar  í sálina og tengist hvorki eftirvæntingu eða gleði.

Hefur eitthvað veiðst nýlega? - strákurinn rýfur þögnina. Það er eitthvað lítið, en er þó ekki viss; - svara ég um hæl. Víst eru fréttir úr ánni, enginn fiskur kominn á land og liðinn mánuður af veiðitímanum. Fiskifræðingar sem kannað höfðu ástandið voru allir á sama máli, laxinn skilar sér alls ekki og rannsóknir sýna að drottning íslenskra laxveiðiáa er á endasprettingum.  Hvernig gátum við farið svona að ráði okkar; hugsaði ég þar sem ég rölti á eftir veiðiglöðum unglingnum; við vissum orðið svo margt og höfðum svo sannarlega vítin til að varast þau. Aðrar þjóðir höfðu gert öll mistökin fyrir okkur - þvílík ógnarheimska!!

Strákurinn er kominn niður á árbakka. Ég hægi á mér og horfi á erfðaprinsinn þar sem hann stendur teinréttur í geislum morgunsólar við Höfðahyl, greinilega uppnuminn yfir fegurð þessa fræga veiðistaðar. Ég veit að það er komið að stund sannleikans, honum verður ekki hagrætt meir. Strákurinn snýr sér við og horfir til mín. – það neistar af honum. Hér gæti maður sko dvalið alla ævi  og komið svo aftur í næsta lífi -  Hann er skáldlegur sonur minn og það af ofur skiljanlegum ástæðum. Það eru stundir sem þessar sem hafa í gegnum aldirnar orðið ljóðskáldum yrkisefni.

Hvar var það nákvæmlega sem Jakob tók stóra laxinn?  Hann tók rétt fyrir neðan steininn - en Siggi minn ég þarf að segja þér dálítið. Strákurinn lætur sem hann heyri ekki í mér, hann er kominn í annan heim og þar er ekkert pláss fyrir samræður. Ég ákveð að bíða með stund sannleikans - finn mér góðan stein; tylli mér og fylgist með. Strákurinn er góður kastari, hefur æft með meistara frá blautu barnsbeini. Snjóhvít línan klýfur loftið – köstin óaðfinnanleg. Myndin sem ég á af honum fimm ára út á túni með fyrstu flugustöngina er í miklu uppáhaldi hjá mér; stækkuð uppá vegg fyrir ofan hnýtingaborðið mitt.

Þarna á steininum við Höfðahyl verður mér hugsað til þess hvernig sambúð okkar mannanna við náttúruna var háttað áður en við ákváðum að gerast herrar hennar. Fram til þess tíma höfðum við bölvað henni þegar hún lék okkur illa eða fagnað hástöfum og lotið henni í auðmýkt þegar hún jós í gjafmildi af gnægtarborði sínu. Nýir tímar með framförum á öllum sviðum hefðu átt að bæta okkur sem manneskjur en í þess stað urðum við græðginni að bráð. Ekkert fékk stöðvað okkur. Við fjötruðum fallvötnin; gerðum uppistöðulón, menguðum vatn og loft, eyddum skógum og mergsugum jarðveginn. Við töldum okkur hafin yfir náttúruöflin og blikkuðum í mesta lagi auga ef gaus hættulega nálægt byggð eða ef tala fallinna vegna náttúruhamfara fór yfir þúsund. Öðru þurfti ekki að hafa áhyggjur af. Þegar svo náttúran stóðst ekki kröfur okkar, var sett í herðarnar og ákveðið að berja hana til hlýðni; hún var jú til að þjóna duttlungum okkar óskum og þrám, hversu vitlausar sem þær voru. Um miðjan júni á því herrans ári 2020 þegar ég horfi á strákinn minn sveifla flugustönginni af svo mikilli leikni þá hellist það yfir mig af fullum þunga; við erum komin yfir strikið og skaðinn verður trúlega ekki bættur. Ástand einnar fegurstu veiðiár landsins er dæmigert fyrir þennan kalda raunveruleika. Þetta verð ég að segja syni mínum á eftir; ég veit bara ekki hvernig ég á að fara að því.

Hann er á pabbi! ég hrekk upp af hugleiðingum mínum við hávært sigurkall sonar míns. Ég stekk á fætur og hraða mér til veiðimannsins. Hann tók fyrir neðan steininn alveg eins og þú sagðir, þvílík snilld. Mér er öllum lokið; strákurinn hefur sett í fisk í ánni sem átti að vera steindauð, greinilega stærðarfisk því stöngin er í keng. Hann liggur þungt útí í straumnum og hreifir sig ekki mikið. Skömmu síðar er hann kominn inní lygnuna við bakkann með hliðina upp. Ég sporðtek fiskinn og hendi honum uppá bakkann með tilheyrandi sigurhrópi. Ungi veiðimaðurinn horfir á fiskinn um stund; horfir síðan á mig þar sem ég stend brosandi út að eyrum útí ánni. Þessu augnaráði mun ég aldrei gleyma svo lengi sem ég lifi. Síðan snýr hann sér snögg frá mér eins og hann afberi ekki að hafa mig fyrir augunum lengur; fleygir stönginni á jörðina og gengur í átt að bílnum. Ég klöngrast uppá bakkann. Um stund stari ég á fiskinn,beygi mig síðan niður og losa fluguna úr kjafafvikinu. Ömurlegri sjón hef ég aldrei séð. Dýrið er eitt flakandi sár frá haus og aftur úr, hreistur og hold einn grautur og engin sporðblaðka sjáanleg. Nokkru síðar flýtur þessi afskræmda lífvera niður strenginn og hverfur sjónum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff hvað þetta er hrollvekjandi saga.

Ég held að ég hafi aldrei fengið jafnmikla gæsahúð við að lestur heldur en við þetta. 

Guðmundur Steinbach (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 11:15

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa sögu Pálmi.  Það er svona sem við breytum heiminum.  Alveg eins og einn smiðussonur gerði fyrir langa löngu.  Þó mörg okkar trúi ekki á hann sem guð, þá viðurkenni ég að dæmisögurnar hans lifa og maður notar þær mikið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.4.2007 kl. 11:41

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

hæ og takk fyrir innlitið.  Ástand stofna villtra fiska er ekki gott Guðmundur. Á síðustu 30 áratugum hafa t.d. laxar Atlantshafslaxins svo gott sem hrunið og eru nú komnir á válista. Okkur er um að kenna, ofveiði og þá á ég ekki við veiðar í sjó heldur í ánum eru stór orsakavaldur en ekki síður allt ræktunarbullið sem átt hefur sér stað út um allan heim, þar á meðal hér heima. Eina ferðina enn stökkvum við inní guðs hlutverkið og teljum okkur fullbúna að gera betur. Þetta hefur þær afleiðingar að stofnar úrkynjast og tapa hæfileikum sem tekið hefur tugþúsundir ára að þróa. Hæfileikum sem  er lífsnauðsynlegt að séu í lagi. Má þar nefna einstæða hæfileika fiskanna til að rata heim í ána sína, getu til að ganga erfiðar ár, getu til að búa sér nothæfar riðstöðvar og virkt sjúkdómsvarnarkerfi. Annars helst þetta allt í hendur. Loft, vatn, veður. Ef þessi grunnelement fyrir lífsafkomu okkar eru í ólagi þá fylgir flest annað með.

Pálmi Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 12:19

4 identicon

Búinn að fylgjast með þessu síðustu 15 árin eða svo. Búinn að vera að leiðsögumauður í Miðfjarðará síðustu 7 árin og þar heyrir maður ennþá talað um ákveðinn fiskifræðing með hryllingi. Það eru að sjást merki þess að Núpsáin sé að jafna sig eftir margra ára lægð.

Best að skipta sér sem minnst af náttúrunni og ofveiði er stórt vandamál, bæði í sjónum og ánum. Það er náttúrulega glórulaust að veiðiálag í sumum ám er um og yfir 90%. Þetta ætti helst ekki að fara yfir 50% og jafnvel minna að mínu mati.

Guðmundur Steinbach (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 12:25

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Frábær þessi saga Pálmi.  Þetta er sú framtíðarsýn sem ég óttast.  Umgegni okkar við náttúru landsins er eins og hún sé einnota.

Sveinn Ingi Lýðsson, 30.4.2007 kl. 12:29

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Það er ein laxveiðiá á Íslandi sem hægt er með sanni að segja að sé sjálfbær. Hún hefur aldrei þurft á forsjárhyggju mannsins að halda nema þeirri sem fólst í 20 ára friðun. Síðan þá hefur ekki verið sleppt í hana seiðum, hún er í jafnvægi og stofninn einstaklega fallegur og heilbrigður. Það er algerlega forkastanlegt hvernig við andskotum seiðum í ár sem eru fullfærar um að sjá um sig sjálfar, fái þær til þess frið.

Pálmi Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 12:30

7 identicon

Núpsáin er stórkostlega skemmtileg að veiða. Þangað fer ég eingöngu með menn sem sleppa sínum fiski. Ég fæ yfirleitt hálfgert samviksubit þegar ég tek lax fyrir neðan ármótin sem er augljóslega ekki Austurárfiskur.

Ég verð að vera sammála þessu með seiðasleppingar. Það að sleppa seiðum í alla læki er að mínu mati ekki rétta leiðin. Ef menn vilja vernda ár þá er besta leiðin til þess að minnka veiðiálag eða hreinlega friða ánna.

Guðmundur Steinbach (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 13:34

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Úff..þetta hristi all hressilega upp í manni óhugnaðinn! 

Kæri Pálmi.. Þér ber eiginlega skylda til þess að koma svona skilaboðum á framfæri þannig að sem flestir landsmenn sjái.
Ég er búin að senda linkinn á alla í mínu pósthólfi og vona að sem flestir geri það sama

Heiða B. Heiðars, 30.4.2007 kl. 13:49

9 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæl Heiða - í allri umræðunni um náttúruvernd gleymist stundum hversu lítið þarf útaf að bera til að snilldarverkið skemmist varanlega. Við eru eðlilega afar upptekin af stóru málunum sem eru sýnileg eins og vatnsaflsvirkjanir og stóriðjuver. Umræðan um ástand villtra  laxa og silungsstofna líður trúlega fyrir það. Klisjan um keðjuna og veika hlekkinn er engu að síður alltaf í góðu gildi þegar kemur að náttúrvernd.

Pálmi Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 14:24

10 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Alveg hárrétt Pálmi og vonandi verður þú duglegur að pikka í okkur og alla sem þú nærð til og minnir á þessa nöturlegu staðreynd.

Heiða B. Heiðars, 30.4.2007 kl. 16:20

11 Smámynd: www.zordis.com

Depurðin er mikil í orðum þínum!  Vonum að lífríki þurfi ekki að verða svo aumt!

www.zordis.com, 30.4.2007 kl. 18:09

12 Smámynd: Hugarfluga

Góð saga og vel sögð og vissulega væri óskandi að hún væri pjúra skáldsaga.

Hugarfluga, 30.4.2007 kl. 19:37

13 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Til að draga aðeins úr depurðinni þá er sagan skáldskapur frá a - ö.  EN -  ekki þarf mikið útaf að bera til að svona hryllingur verði að veruleika.  Minnumst orða Stephen Hawking þess mikla hugsuðar þar sem hann segir að með sama áframhaldi verði mannkynið að finna sér annan stað að búa á, innan næstu 100 ára. 

Pálmi Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 21:42

14 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Kæri frændi - ég held að það sé að verða kominn tími á veiðferð.  Ég er reyndar fullkomlega sammála þér varðandi þorskinn hans Hafró. Leiðinlegt að vera stöðugt að týna gæludýrinu. En varðandi laxfiskana þar hef ég vinninginn... lestu um tilraunina sem þeir gerðu í Naibaánni á Shakalineyju og rústaði risalaxastofni, algerlega.  Gott dæmi um guðstendensinn í okkur Sapiensum. 

Ætlarðu í skrúðgöngu á morgun að syngja Nallann.

Pálmi Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 22:11

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert eiginlega í vitlausum flokki minn kæri Kristinn Pétursson.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.4.2007 kl. 22:11

16 Smámynd: Kristján Pétursson

Frábærlega skemmtileg og vel skrifuð skáldsaga.Kærar þakkir fyrir,það er svo gaman þegar andinn nær að fanga mann.Ég hefði nú samt kosið,að þú hefðir látið okkur halda að sagan væri raunveruleg.

Kristján Pétursson, 30.4.2007 kl. 22:15

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Snilldarsaga Pálmi, hrein & tær snilld.

S.

Steingrímur Helgason, 30.4.2007 kl. 22:26

18 Smámynd: Heiða  Þórðar

Enn ein snilldin frá þér komin

Heiða Þórðar, 30.4.2007 kl. 23:06

19 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

gaman að heyra í ykkur öllum og njótið dagsins  ...  Kristján,  þegar síðasta tréð hefur verið fellt, síðasta áin eitruð og síðasti fiskurinn hefur verið dreginn á land og drepinn, verður okkur ljóst að við lifum ekki á peningum einum.

Pálmi Gunnarsson, 1.5.2007 kl. 01:10

20 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég hef eytt miklum tíma í að lesa gegnum skýrslur um virkjanir í Þjórsá. Hafði ekki hugmynd um vægi árinnar í veiði. Veiði ekki lengur sjálfur. En það er hrikalegt að sjá hvernig það er í lagi í dag að  fórna öllu fyrir raforku til erlendra álvera. Ég á bústað á bökkum þjórsár, burstabæ  með torfþaki og bý í Hafnarfirði. Álgeggjunin er allt í kringum mig.  Þjórsá stendur fyrir 5% af laxveiði á Íslandi í dag auk þess að stofninn sé mjög sérstakur verandi í jökulvatni. Allt þetta skiptir virkjunarmafíuna engu máli enda sennilega búin að fá greitt fyrirfram í sína kosningarsjóði.

Þessar virkjanahugmyndir eru ekki náttúruspjöll. Þær eru hryðjuverk 

http://aevark.blog.is/blog/aevark/?offset=10

Ævar Rafn Kjartansson, 1.5.2007 kl. 03:06

21 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæll Ævar - fæstir hafa hugmynd um laxveiðiána Þjórsá. Ég heyrði fyrst af henni í gegnum Magnús vin minn Eiríksson sem var í sveit fyrir austan. Ég vona að okkur beri gæfu til að setja bremsuna á virkjanasveitina í einhvern tíma í það minnsta. Veitur í Þjórsá eins og sá yfirlýsingaglaði Jón Sigurðsson kýs að kalla áætlaðar framkvæmdirnar  á að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Pálmi Gunnarsson, 1.5.2007 kl. 10:50

22 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég vil þakka þér Ævar fyrir afar upplýsandi netgrein http://aevark.blog.is/blog/aevark/?offset=10 um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir við Þjórsá og afleiðingar þeirra á náttúrufar og mannlíf. Því betur sem ég skoða hugmyndir stjórnvalda um orkuöflunarleiðir fyrir stóriðjuverin sín því betur verður mér það ljóst að það verður að stöðva þessa sveit. Ég hvet ykkur bloggarar að skoða það sem Ævar hefur verið að skrifa um Þjórsá og virkjunaráformin.

Pálmi Gunnarsson, 1.5.2007 kl. 14:36

23 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ætli ég hugsi mig ekki um tvisvar næst þegar ég fer í veiði

Maður hugsar allt of lítið um náttúruna, ég neyðist til að viðurkenna það. Maður tekur öllu sem sjálfgefnum hlut, tærum vötnum, hreinu lofti, gnægt af fiski til veiða en öllu má ofgera. Þú vekur mann sannlega til umhugsunar Pálmi. 

(Annars var mér ógleymanleg stund þegar sonur minn veiddi sinn fyrsta lax. Alveg ógleymanlegt.)

Rúna Guðfinnsdóttir, 1.5.2007 kl. 19:27

24 Smámynd: Jens Guð

  Ansi hrökk ég við þegar kom að niðurlagi sögunnar.  Áhrifarík saga sem vekur til umhugsunar. 

Jens Guð, 1.5.2007 kl. 19:40

25 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já niðurlagið segir okkur að kosningar eru að nálgast!

Ólafur Þórðarson, 1.5.2007 kl. 19:52

26 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hæ Pálmi. Ég hef náttúrlega ekki hundsvit á því sem þú ert að tala um en afi minn var forfallinn laxveiðimaður og ég á góðar minningar frá veiðiferðum með honum. Hann hefði sko verið á sama máli og þú um ástandið. En fyrir utan þetta þá er þetta frábærlega vel skrifað hjá þér. Fyrirsögnin sagði mér strax að þetta væri framtíðarsýn frekar en skáldsaga. En vonandi verður þessi sýn aldrei neitt annað en það,, skáldsaga.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.5.2007 kl. 22:00

27 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Amen eftir efninu

Ásdís Sigurðardóttir, 1.5.2007 kl. 22:30

28 identicon

Fyrirgefðu  ónæðið, Pálmi

en mig langar til að koma því að, eftir að hafa hlustað á þátt Andreu Jónsdóttur, á rás 2,  um Bergþóru Árnardóttur heitinnar, hve mikilvægt það er að minnast hennar sem skálds, kvennaskálds og frumkvöðlar. Hún má ekki gleymast og því hvet ég þig tig til stórra verka Pálmi að hvetja alla þá sem unnu með henni að minnast hennar með því að gefa hennar tónlist út á disk

Með fyrirfram þökk Ragnhildur Kjeld 

rkjeld (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 23:31

29 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæl Ragnheiður, ekkert ónæði. Ég held að ég geti óhikað lofað því að Beggu vinkonu minnar verður minnst með margvíslegum hætti. Ég veit að það eru áætlaðir minnigartónleikar í byrjun næsta árs, endurútgáfa á öllu efninu hennar á CD og fleira skemmtilegt. Hafðu það sem best og takk fyrir innlitið.

Pálmi Gunnarsson, 1.5.2007 kl. 23:48

30 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er áhrifarík vitundarvakning kæri vinur og ljóst að við megum líta í fleiri staði í þessu samhengi.  Þú ert annars svo góður stílisti að mig langar að biðja þig um að hugleiða bókarskrif.  Þú hefur svo margt gott að segja, sem blundað getur undir þínum góða frásagnastíl okkur til mannbóta.

Varðandi Bergþóru heitina, þá er ég sammála að hún á skilið hin allrabestu eftirmæli. Ég minni á bloggsíðu Birgittu dóttur hennar og fyrrum nemanda míns. Þar má líka heyra nokkur lög hennar eins og Verkamanninn og Frændi þegar fiðlan þegir.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2007 kl. 01:24

31 Smámynd: Jens Guð

Ég tek undir með rkjeld að þáttur Andreu Jónsdóttur um Beggu var vel heppnaður.  Gaf góða innsýn í líf og starf þessarar merku konu og yndislegu manneskju.

Jens Guð, 2.5.2007 kl. 02:06

32 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er ekki sjálfgefið að náttúran spillist ekki, takk fyrir söguna.

Ester Sveinbjarnardóttir, 2.5.2007 kl. 02:39

33 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Með sama áframhaldi verður það sjálfgefið að náttúran spillist .. 

takk fyrir kommentin vinir ...

Pálmi Gunnarsson, 2.5.2007 kl. 10:06

34 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Takk fyrir góðann pistil Pálmi. Sammála með Beggu þáttinn. Hann var góður er glaður að heyra að það standi til að endurútgefa plötur með Bergþóru, var einmitt að hugsa eftir þáttinn að þessar plötur þarf maður að eiga.

Kristján Kristjánsson, 2.5.2007 kl. 23:29

35 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta er sorgleg saga, en því miður virðist það ekki vera nóg að við höfum svona upplifanir,við tökum og tökum, og gefum ekkert til baka , ekki einu sinni virðingu fyrir því sem móðir jörð gefur okkur öllu. eitt að við tökum og tökum, annað er að viljum ekki deila því sem við tökum með neinum. ég hef mikið fylgst með því sem gerist í landbúnaði hérna í danmörku, og þar er græðgin óendanleg, og miskunnarleið hræðilegt. veit einnig að dýr á mörgum stöðum í heiminum eiga erfitt með bæði fæðu og vatn, og ég sé ekki fram á að það verði betra.

en ég hélt í smá vona að á íslandi væri þessu kannski öðruvísi farið, en sé að svo er, allavega með villt dýr. en svo virðist því miður ekki vera.

Geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig landbúnaði er háttað á Íslandi, en hef þó séð á heimasíðu Dýraverndunarfélags Íslands, að mörgu er ábótavant.

það sem hefur gert mikinn skaða hérna í dk, er að bændur og garðeigendur hafa sprautað eyturefnum á akra og í garða, þetta ferð að sjálfsögðu út í grunnvatnið, sem fer svo í ár og sjó. sem svo fer út í andrúmsloftið. þarna liggur ábyrgð okkar á því hvað við t.d notum þegar við oum þvott, vöskum upp og þess háttar.

Það er mikilvægt að við öll tökum höndum saman og sjáum hvað við hver og einn getum gert til að stöðva þessa þróun, því mín skoðun er að við höfum meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir.  

vonandi verður vakning hjá mannkyni áður en það er of seint !  

Ljós til þín Pálmi !

Steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 5.5.2007 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband