Það er svo skrýtið - taka tvö

Á liðnum árum hefur þjóðin getið af sér leiðtoga sem hafa stjórnað landinu af óskaplegum dugnaði og heilindum að eigin sögn. Takmarkalaus aðdáun meirihluta þjóðarinnar á þessum leiðtogum hefur í mörgu minnt á óþægilegt tímabil í mannkynsögunni sem menn vilja helst gleyma.  

Endrum og sinnum hefur þó komið bakslag í aðdáunina. Til dæmi gerðist fyrir fáeinum árum nokkuð sem talið hafði verið með öllu óhugsandi. Nokkur smámenni fóru að efast um réttmæti almættisforsjár leiðtoganna. Og hvað í ósköpunum fékk nú þessi smámenni til að gera það, myndi nú margur spyrja?  jú –  það var hið saklausa kvikindi sem kallað er í daglegu tali fiskur og er í stjórnarskránni skilgreindur sem sameign þjóðarinnar. Alltíeinu er farið að tuða um stuld á sameigninni og óspart bent á fyrrnefnda forystugrein í stjórnarskránni því til áréttingar.  Til að bíta svo höfuðið af skömminni ákváðu andófsmennirnir að fara í mál. Leiðtogarnir svörðuðu þessari fólskulegu árás hratt og örugglega, lýstu stjórnarskrána illa skrifaðra skruddu og heimtuðu lagfæringar.  

Til að skoða stjórnarskrárdeiluna um kvótann í sögulegu samhengi og flikka uppá heimsfrægt gullfiskaminnið, er nauðsynlegt að hverfa nokkur ár til baka til þess tíma er leiðtogaliðið áttaði sig á hvað yrði þjóðinni til bjargar í bráð og lengd. Þá hófst dansinn í kringum holdmesta kálf Íslandssögunnar og stendur sá dans enn þó aðeins hafi takturinn riðlast. Um margt minnti dansinn á annan þekktan kálfadans. Hinsvegar mölvaði Móses gullkálfinn þann mélinu smærra, meðan leiðtogar lýðveldisins Íslands hafa séð kvótakálfinum fyrir nokkuð öruggum átrúnaði. Allt til þess hörmungardags að einhver blábjáni fór að efast í trúnni.  

Kvótakerfið sem hafði að sögn leiðtoganna og áróðursmeistara þeirra, átt stærstan þátt í að skapa núverandi hamingju þjóðarinnar varð alltíeinu fyrir fólskulegum árásum trúleysingja sem drógu kálfinn fyrir dóm þar sem hann var á endanum settur út af sakramentinu í háum og lágum dómsölum lýðveldisins sem ÓLÖGlegur og úrsérgenginn búpeningur. Þvílíkri ósvífni höfðu leiðtogarnir aldrei mætt. Hvernig dirfðist einhver fimm manna lögmannasveit sem þeir höfðu þar að auki komið fyrir í embætti, að efast um sköpunarverk þeirra? Til að bæta gráu ofan í svart fór lýðurinn að láta einkennilega. Áttuðu menn sig ekki á því að ef kálfurinn yrði allur, þýddi það endalokin. Öll byggð í landinu færi til fjandans og fólk mundi flosna upp og deyja. Sultur og seyra yrðu hlutskipti lýðsins og líklegast mætti búast við öðrum Móðuharðindum.

Einn af leiðtogunum, af ætt austfirskra sægreifa, kvótaeigandi með meiru og einn af upphafsmönnum kálfsdýrkunarinnar, fékk sig alveg fullsaddan á allri vitleysunni, rauður af hneykslan hótaði hann öllu illu sem er að vissu leyti skiljanlegt þar sem verið var að dæma sköpunarverk hans út í ystu myrkur og þar með  dæma af honum eigin króga.

Aðalleiðtogi þoldi áreitið litlu betur og fór í feita fýlu. Svo feita að sjaldan hefur önnur eins fýla verið skráð í bækur á sögulegum tíma. Reyndar telja mætir menn að um atvinnufýlu hafi verið að ræða, enda leiðtoginn sá þekktur fyrir gálgahúmor og almenn skemmtilegheit. En fýlan var ofur skiljanleg ef mið er tekið af því að hið næsta óþekkta í leiðtogasögu hans hafði nú gerst. Hann og restin af leiðtogaliðinu hafði nú þurft að sæta ávítum frá valdi sem var þeim æðra. Valdi sem þeir voru búnir að steingleyma að hefði eitthvað vald. Eins og óþekktarangar sem teknir eru á beinið af uppalendum sínum, sneru þeir uppá sig og leituðu í örvæntingu leiða út úr ógöngunum.  

Eftir nokkra legu undir feldi með áróðursmeisturum sínum, fóru leiðtogarnir að svara fyrir sig fullum hálsi. Nú var stjórnarskráin hin helga bók lýðveldisins illa skrifuð skrudda sem þarfnaðist uppfærslu, meirihluti fólksins klappaði og málið sofnaði.  

En hamra þurfti járnið því ekki mátti fólkið tapa trúnni á ofurkálfinn. Fólkið þurfti að skilja að til að líf fengi þrifist í landinu yrði að vera til stétt voldugra sægreifa, það væri lífsspursmál. Meiri hluti þjóðarinnar klappaði og sægreifar fengu viðbótarkvóta. 

Nú áttuðu leiðtogarnir sig á því að þrátt fyrir tilraunir dómstóla að vinna skemmdarverk á kálfinum góða hafði þeim tekist að endurheimta trú fólksins, það klappaði enn. Leiðtogarnir sáu að í því fólust margvísleg önnur tækifæri.

Slíkum tækifærum mátti ekki glutra niður. Boðuð var ný  forsenda þess að þjóðin fengi þrifist. Nú skyldu fallvötn virkjuð sem aldrei fyrr og álver reist á sem flestum stöðum, boðið var uppí nýjan dans. Meirihluti fólksins klappaði og leiðtogarnir sáu að bæta mátti við miklu fleiri virkjunum og fleiri álverum. Áfram klappaði meirihluti þjóðarinnar.


Ef marka má skoðanakannanir getur meirihluti þjóðarinnar ekki hætt að klappa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Gargandi snilld Pálmi, gargandi snilld! Langflottastur!

Kristján H Theódórsson, 5.5.2007 kl. 17:09

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Atvinnufýla, flott nýyrði

Margrét Birna Auðunsdóttir, 5.5.2007 kl. 18:51

3 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Svakalegt að detta í atvinnufýlu

Flott grein.

Jens Sigurjónsson, 5.5.2007 kl. 21:46

4 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Já, þegar að  blindur leiðir blindan er ekki á góðu von. Skemmtilega orðað hjá þér og orð í tíma töluð, hvernig væri að setja þetta í texta. Hvað varð um Dylan Íslendinga, er hann ekki til?

G.Helga Ingadóttir, 5.5.2007 kl. 23:31

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Það er grátlegt & leitt hvað þetta er sorglegt & satt.

Góð grein, Pálmi.

S.

Steingrímur Helgason, 6.5.2007 kl. 02:02

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Frábærlega vel skrfuð grein - þótt ég sé kannski ekki sammála nákvæmlega öllu sem í ehnni stendur. Kvótakerfið er eitt af þessum málum sem ég nenni ekki að hugsa um, ég fer bara í vont skap en það er nú bara mitt vandamál - einhver verður að taka að sér að gagnrýna, takk fyrir það!

Benedikt Halldórsson, 6.5.2007 kl. 10:10

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Fer að verða frekar klisjulegt að hrósa þér hérna eftir hverja færsluna á fætur annari... endar með því að ég tek up prakkara-regluna mína hérna líka

Fín grein og það sem meira er, hvert orð satt og rétt 

Heiða B. Heiðars, 6.5.2007 kl. 13:13

8 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég ætla að leyfa mér að benda ykkur á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2 í kvöld. Ég trúi að þar verði velt upp nokkurm áhugaverðum atriðum varðandi kvótamálið og sjávarútvegsstefnu Íslenska lýðveldisins. Ég bíð í það minnsta spenntur. 

Pálmi Gunnarsson, 6.5.2007 kl. 13:39

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Já.. ég hef einmitt heyrt að það borgi sig að sperra eyrun yfir Kompás í kvöld. Jafnvel heyrt að þar verði afhjúpað stórt spillingamál... 

Heiða B. Heiðars, 6.5.2007 kl. 14:22

10 Smámynd: Gunna-Polly

ég er í atvinnufýlu

Gunna-Polly, 6.5.2007 kl. 18:20

11 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Meistaralega vel samin grein.Þú ert mjög góður söngvari og ekkert síðri penni.Kompásþátturinn sannaði það sem þú ert að ýa að.

Ólafur Ragnarsson, 7.5.2007 kl. 00:33

12 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Pabbi minn seldi bátinn sinn á 8,5 milljónir króna fyrir daga kvótakerfisins. Tveimur árum seinna var þessi bátur til sölu á 53 milljónir króna með  áskildum veiðiheimildum sem pabbi minn hafði stritað fyrir alla sína ævi. Bátnum var hent en kvótinn notaður. Pabbi gerir út í dag upp á náð og miskun kvótaeigenda sem vita ekki einu sinni hvort efnahagsreikningurinn þeirra sé til í sjónum. Hann hefur komið að landi með góðan afla, selt hann og skuldað 50 þúsund krónur eftir 24 klst. vinnu. Þetta kallar höfundur kvótakerfisins og kvótaeigandinn Halldór Ásgrímsson "fiskveiðistjórnun!!"

Pabbi minn á sennilega eftir að deyja út á sjó eða ég held að það væri hans ósk. Hann er einn af þessum alvöru sjómönnum og til vitnis um það læt ég fylgja með athugasemd sem skipstjóri á 80 tonna bát sagði þegar hann var að leita vars vegna veðurs. Hann sá litla trilluskel skoppa milli öldutoppanna og sagði: "annað hvort er þetta geggjaður maður eða Kjartan!" 

Við megum samt ekki gleyma því að þetta glæpakerfi er orðið yfir 20 ára gamalt og það þarf að sýna þeim virðingu sem hafa reynt að lifa og hrærast innan þess. Að leysa þennan mesta gæp Íslandssögunnar verður flókið mál. 

Ævar Rafn Kjartansson, 7.5.2007 kl. 02:04

13 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég er sammála því Ævar en það þarf að afmá með öllum tiltækum ráðum þennan smánarblett og draga í það minnsta sögulega þá til ábyrgðar sem stóðu fyrir framkvæmd ruglsins. Gjafakvótakerfið þjónar ekki íslensku þjóðinni hefur aldrei gert og mun aldrei gera. Þetta er og verður glæpur uppá hundrað milljarða árlega, þar sem fáir útvaldir sitja við kjötkatlana, varðir með kjafti og klóm af þeim sem komu þessum ófögnuði á.

Pálmi Gunnarsson, 7.5.2007 kl. 11:01

14 Smámynd: Högni Hilmisson

Mikil Sorgarsaga, þar sem Dýrið tók völd. Völd sem engin gaf því. Dýrinu er lýst þannig, að það  er yfirtaksöflugt,  það er ógurlegt  og járntent.  það briður það í sig, sem því listir og annað treður það undir, með fótum sínum. en þeir sem fylgja dýrinu, fá leifi, og geta afram gengið, og lífi haldið. en hvað gerum við ? spádómarnir hljóta að rætast, uns allt er komið fram. það versta er enn eftir, en Dýrið hefur stuttann tima. Bráðum kemur síðasti falspámaðurinn, platmessias. Eitt alheims hagkerfi verður komi á. Enginn getur þá keypt né selt, nama hann hafi fengið merki Dýrsins. Mhm.....  Hvað skal segja. ?  Sorgarsaga 

Högni Hilmisson, 8.5.2007 kl. 03:00

15 identicon

"Woe to you on Earth and Sea, for the Devil sends the Beast with wrath, because He knows the time is short. Let Him who has the understanding reckon the letters of the Beast - for they are human letters. It's letters are B and D."

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband