Færsluflokkur: Dægurmál

Nú fer ég bráðum að safna liði

Ég var að ræða við hann Adam vin minn sem er flúinn land, nei fyrirgefiði fluttur burt af skerinu tímabundið. Hann fór til Kanada með frú og börnum, fékk sér ársleyfi frá störfum og er strax byrjaður að fjarstríða mér. Í dag hringdi hann í mig úr tölvusímkerfi sem kostar næstum ekkert að hafa aðgang að, eða 10 evrur fyrir árið. Með því getur maður hringt út um allan heim laus við  reikninga sem ætti að merkja með tveimur rauðum höndum eða öllu frekar með orðunum Símreikingar geta valdið ótímabæru andláti eða varanlegri geðveiki  Svo sagði Adam mér að það væri 30 stiga hiti í Kanada og meðan hann lýsti dásemdunum skaust uppá framheilabreiðtjaldið  mynd af Sigga stormi boðandi kulda og snjó í fokking september. Ekki lét vinur minn við svo búið sitja heldur fór að  nefna verðlag í Kanada. Byrjaði á svínasteikum og síðan nautamörbráð. Reiknigsheilinn minn fékk út að fyrir andvirði þess sem hann borgaði fyrir kræsingarnar oní fjölda manns, gæti ég hugsanlega keypt mér tvær mjólkurfernur. Seinna um daginn eftir símtalið við Adam vin minn fór ég í hjálpræðisbúð þeirra Bónusmanna þ.e. þá fínu sem er aðeins dýrari en lágvöruhjálpræðið með svíninu, keypti mér ofurlítið í körfu og borgaði fyrir það 5600 kall. Fyrir þá upphæð sýnist mér í fljótu bragði að ég gæti framfleytt mér, fjölskyldunni og fólkinu í næsta húsi í nokkra daga þ.e. ef ég drifi mig til  Kanada. Hjá mér vaknar sú spurning, hversu lengi við Íslendingar ætlumað taka við blautum tuskunum sem slengt er framan í okkur nokkuð reglulega eða hvort við ætlum að gera eins og Frakkar þegar þeim ofbýður verðlag, laun og fleira sem gott er að hafa í lagi,  og segja hingað og ekki lengra.  Getur verið að þrælslundin sé svo gróin inní genin okkar , að við beygjum okkur ómeðvitað í hnjánum og bjóðum botninn ef valta á yfir okkur. Hvar er allt góðærið, sem verið er að auglýsa svo grimmt. Skyldi hamingjusamasta þjóð í heimi vera svona hamingjusöm vegna þess að megnið af öllu því sem hún telur sig eiga er í eigu fjármálastofnana í fjandans nafni. Það er svo auðvelt að ná í fé í dag að ef þú ert fær um að stama upp nafninu þínu, þá færðu lán, hvað þá ef þú getur skrifað það. Huggulegir strákar í jakkafötum, allir eins, sitja í stórverslunum og falbjóða hamingjuna  og framlegðarhópurinn stækkar og stækkar og minnir óhuggulega á klóna í framtíðarhrollvekju.

Nú fer ég að safna liði og gera léttvopnaða byltingu, er einhver memm.


Bréf frá Jóakim von Hommosappiens

Cannes France 2009

Kæri frændi. Oft hefur kjamminn hrapað í gólfið en aldrei meir en nú, ættarillgresið þitt. Ég meira að segja missti sniglana sem ég var að éta út um allt lyklaborð og sletti kampavíninu á nýja kjólinn hennar Dasy sem ég fékk lánaðan í smástund. Þú veist hvað ég á það til að vera þunglyndur yfir óréttlæti heimsins, sérstaklega þegar verið er að abbast útí okkur velefnafólkið, sem er æði oft. Á slíkum stundum lauma ég mér  inná þessar bloggbullsíður í leit af einhverju uppbyggilegu fréttaefni, eins og samruna fyrirtækja eða vinalegum yfirtökum, eitthverju sem gæti lyft honum Kimma frænda uppfyrir viskíglasbarminn.  En, neei, ekki aldeilist!  Nú er þar allt útbíað í spurningum um hvort hommar og lessur megi giftast og hvort einhverjir Jésúskallar í kjól megi segja já og amen þannig að sé hægt að fara heim og hommast í Jesúnafni amen. Hver sjálfur andskotinn stýrir þessari vitleysu eiginlega?  Alveg örugglega ekki Krissi kaldi frá Nánasareti. Hvaða heilvita manni dettur í hug að Krissi, sem gekk ef ég man rétt í kjól og fór í lagningu til Maju M,  hefði farið að setja útá það þó menn hommuðust obbolítið?  Allt gengur þetta nú útá það sama, að hafa það gott og gaman, saman og það boðaði Krissi staðfastlega út um alla Afríku. Reyndar djöflaðist Krissi kaldi á kaupsýslumönnum sem ég tel að hafi verið afar vafasamt framferði. Hugsaðu þér, ef hann hefði í stað þess að rífa endalausan kjaft við þá sem réðu og áttu pening, keypt sér rómversk hlutabréf og lagst í kaupsýslu. Þá væri staðan önnur og betri í dag. Í stað forljótra steinkirkja væru glansandi kauphallir fullar af hamingjusömu og trúræknu fólki sem kæmu þar á hverjum degi eða væru í það minnsta í tölvusambandi á hverjum degi.  Vá - nú er ég djúpur frændi og verð að segja bless.

Hm;  hvað gæti þetta annars heitið -  Rómversk kaþólska fjármálakirkjan eða Evanelíska hlutabréfakirkjan eða, já vá,  svo mætti syngja Seðil seðil sibb vabb vabb vabb við altarisgöngur ...


Han frelser

Fyndið hvað við maurarnir sem byggjum þetta aggapínuponsulitla sandkorn sem þeytist um alheiminn á alltof miklum hraða fyrir okkar eigið ágæti, erum bilaðir. Hvert sem litið er, hvar sem borið er niður, erum við litlu krílin að undirbúa eitthvað sem  felur í sér óhamingju fyrir næsta maur. Nýjustu fréttir af broskallinum sem stjórnar málum í USA er að undirbúningur fyrir næsta byssubardaga sé í fullum gangi. Hvað gerði guð vitlaust þegar hann hrærði steypuna í kallinn og gengið hans, spyr ég bara. Reyndar segist Búss vera í beinu sambandi við almættið ásamt flestum þeim sem honum fylgja að málum. Það má ekki gleyma því að það var nú einu sinni eitt af frummarkmiðum hugsuðanna hans Búss að gera Íslamista í Írak að Jésusbörnum þegar búið væri að sópa göturnar í Bagdad. Eftir mikið stríð í áraraðir eru Bússarar sannfærðir um að allt blóðbaðið hafi verið ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir lýðræðið í hinu nýja Írak. Þeir trúa því statt og stöðugt að ástandið sé betra en það var fyrir nokkrum árum. Til að fá úr því endanlega skorið þá ætti að bjóða liðinu í huggulegt tveggja vikna lýðræðisfrí til Írak og fáum þau svo í viðtal hjá þeim á 60 min þegar heim væri komið. Þau gætu skoðað sig um í miðbæ Bagdad, skroppið í búðir,fengið sér Big Mac eða KC og sleikt sólina. Hitt fólk á förnum vegi, spjallað um Jesús og dreift bæklingum um hina nýju trú.

Það hlýtur að vera skýlaus krafa alþjóðasamfélagsins héðan í frá að allir sem vilji stjórna þjóðlandi, fari í stíft gáfnapróf og séu síðan ef þeir nái yfir meðallag, sálgreindir af færustu sérfræðingum og alls ekki settir í embætti ef þeir haldi því fram að guð hafi skapað heiminn á sléttri viku. 


Bréf frá Kimma

Sæll ættaógn. Ég lenti heldur betur í því þegar ég flaug frá Múrmansk um daginn  .. ég hafði varla rennt niður einum köldum þegar við vorum umkringdir herþotum og neyddir til að lenda á einhverjum ógeðslegum herflugvelli. Þar tóku á móti okkur hermenn gráir fyrir járnum. Okkur var hent inní einhverja skítaholu þar sem við máttum dúsa í góða stund áður en við vorum kallaðir fyrir. Við heimtuðum að fá að hringja í allar áttir en það var ekki tekið undir neitt slíkt. Allir okkar pappírar voru síða skoðaðir og flugmaðurinn beðinn um að anda framan í næsta mann. Eftir að hafa andað um stund var okkur sleppt. Meira vesenið  - flugmaðurinn sem er frá Kululalumpur eða einhverju svoleiðislandi, þurfti áfallahjálp þegar við fundum að endingu flugvöll til að lenda á. Hljóp í hringi eins og hauslaust hæna og talaði tungum. Hann taldi sig vera að lenda í Englandi en ekki aldeilis -nú sit ég í sánu í Finnlandi með finnskan í glasi ,rauður á rassinum eftir hrísvöndinn og bíð eftir öðrum flugmanni, því að sjálfsögðu rak ég þenna fávita. En svona er nú lífið vinur fullt af óvæntum uppákomum. Ég er nú að fylgjast aðeins með þjóðmálunum um leið og ég les viðskiptablöðin og kíki á bloggbullið. Og veistu ættararðan þín, ég held að þið séuð að missa það svona upp til hópa. En segðu mér meðan ég man, af hverju fékkstu ekki að vera með á vellinum um daginn með kónginininum og Einari Bárða í stað þess að vera að væla á einhverrin niðurgreiðslu á klambranum. Einar Bárða er nú kompaní sem þú ættir að hengja þig á. Ég er með það á hreinu ef ég myndi borga honum nóg, þá myndi hann gera úr mér súpersöngvara á augabragði.  Annars sýnist mér Búbba bara taka þetta allt saman, alveg sama hvar hann ber niður, verbúðir, hagkaup,einmana mæður, bankar og lax. Stál og hnífur er ra ra ra, af hverju gast þú ekki farið að syngja um svoleiðis, ha?  þú varst nú í fiski í gamla daga og vannst á vöktum í síldarverkssmiðju, drakkst eins og djöfull og varst nettur hryðjuverkamaður. Þú ert alveg ómögulegur frændi en ég verð víst að láta þig duga, annað er ekki í boði.

Upp upp mín sál

Ég átti orðið erfitt með að sitja kyrr undir lok tónleikanna í kvöld, sem voru eins og dóttir mín myndi segja „geðveikir, eða gett góðir“  Til að byrja með Tommi R með frábært stórband skipað toppmönnum ... æðileg grúppa og flottar tónsmíðar. Allt ætlaði af göflunum að ganga eftir hvert lag. Mér varð á að hugsa að trúlega væri ekki neitt auðhlaupaverk að taka við af þessu súperbandi en áhyggjur mínar hurfu við fyrsta tón hjá tríói Hilario Duran. Æ ég held ég láti bara vera að segja meira, það yrði of langt  ... en mikið vildi ég að þið hefðuð verið með mér í kvöld og upplifað galdurinn. En bara næsta ár. Ég lofa ennþá meiri veisluhöldum, slæ ekki af, gef ekkert eftir og hætti ekki fyrr en þið leggið á hestana og ríðið norður. Þið getið sungið á leiðinni „aldrei ætlaði ég norður “ 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband