Færsluflokkur: Ferðalög
6.5.2008 | 18:09
Látið landið í friði
Ágætu bloggvinir ... ég hvet ykkur til að skoða síðuna hennar Láru Hönnu.
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/528709/
15.3.2008 | 14:23
Verndun jökulsánna í Skagafirði
20. Október 2006 var stofnaður áhugahópur um verndun jökulsánna í Skagafirði. Hópurinn hefur síðan þá beint sjónum fólks að óafturkræfum áhrifum virkjana í ánum, allt frá jökli til sjávar, og áhrifum þeirra á skagfirskt samfélag. Um samtökin má lesa nánar á heimsíðu þeirra: http://www.fiski.net/jokular/ Hvet ég alla náttúruunnendur að skoða heimasíðuna en efirfarandi fréttatilkynning frá 12. mars síðastliðinn er tekin af henni.
Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði lýsir yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillögu um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.
Mikil andstaða er í Skagafirði við þau virkjunaráform sem þröngur en valdamikill hópur hefur á prjónunum. Þar er aðeins horft til skamms tíma og ekkert tillit tekið til náttúrufars á svæðinu. Stíflur í Jökulsánum og Héraðsvötnum myndu hafa mjög alvarleg áhrif á lífríki alls láglendis Skagafjarðar og sömuleiðis á hrygningar- og uppeldisstöðvar nytjafiska í Skagafirði. Þá er alveg ljóst að ferðaþjónustu í héraðinu yrði greitt þungt högg verði ráðist í virkjanirnar og sumar greinar hennar leggjast af, svo sem hinar geysivinsælu og sívaxandi flúðasiglingar. Fráleitt er að tala um hreina orku í tengslum við þessar virkjanir og fórnarkostnaðurinn þeim samfara algjörlega óréttlætanlegur. Skynsamlegra er að efla ímynd Skagafjarðar sem héraðs með hreina og óspillta náttúru þar sem áhersla verði lögð á matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fjölbreyttan smáiðnað. Með friðlýsingunni opnast möguleiki á stofnun þjóðgarðs, sem hugsanlega yrði hluti af enn stærri þjóðgarði og næði a.m.k. yfir Hofsjökul og umhverfi hans, m.a. Þjórsárver og Kerlingafjöll.
Áhugahópurinn skorar á þingheim allan að samþykkja tillöguna eins og hún liggur fyrir. Full ástæða er til að ætla að auk þingmanna Vg, sem eru flutningsmenn tillögunnar, muni a.m.k. þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar styðja tillöguna, enda er beinlínis tekið fram í stefnuyfirlýsingu hennar Fagra Ísland, að tryggja skuli friðun jökulánna í Skagafirði . Það er einnig von okkar að aðrir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, sjái og skilji að mál er orðið að huga betur að náttúru Íslands og samhengi hennar en verið hefur fram til þessa.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2007 | 14:07
VÁÁÁÁÁÁ
Ég las í blaði allra landsmanna að Bubbi Mort stórveiðimaður og kollegi minn hafi veitt "30" punda lax í fyrstu veiðferðinni sinni í Laxá í Aðaldal. Æðislegt - svoleiðis fiskar hafa ekki veiðst í tugi ára í Laxá og varla nema svona rétt sést, þannig að VÁÁÁ. Ég hinsvegar er ennþá klórandi mér í hausnum yfir háttalagi stórlaxins sem samkvæmt talsmanni Bubba hafði farið niður fossinn á Núpafossbreiðu, fengið heimþrá og klöngrast aftur upp fossinn, dröslandi slýdræsu með sér. Hinsvegar eiga þeir það til að haga sér einkennilega stórlaxarnir sem við veiðimenn setjum í og missum, það þekki ég vel.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2007 | 21:34
Lygn streymir Don
Ég hef verið að raða hafurtaski mínu oní tösku. Ekki auðhlaupaverk fyrir mann sem er allsendis óvanur því að raða mikið þegar sett er í töskur. Að þessu sinni er ekki boðið uppá annað en reglu á hlutunum, þvi 20 kíló er það sem ég má hafa með mér annars þarf ég að fara að borga og lendi trúlega í allskonar me -he- i, sem er ekki gaman þegar fara þarf um nokkrar flugstöðvar. Þið verðið sem sagt án röflsins í mér í nokkurn tíma þar sem ég er að fara að hitta Jóakim frænda og nokkra Kósakka norður við ballarhaf. Nánar tiltekið kem ég til með að búa í veiðihúsi við ána Ryndu á Kólaskaga næstu viku. Ferðin leggst vel í mig enda ekki á hverjum degi sem fátækur námsmaður fer að veiða í Rússlandi en það skal tekið fram að Jóakim frændi blæðir og ætlar að hitta mig í Murmansk, þaðan sem við fljúgum í þyrlum inná skagann. Hann segist koma með einkaþotu en ég er ekki alveg viss. Kallinn er á grenjandi túr og þá fer hann ekkert nema rétt undan sólhlífinni til að pissa og ná sér í áfyllingu. Ég hlakka mikið til að veiða árnar þrjár, Kharlovku, Litzu og Ryndu og ekki síður að hitta Peter Power, skotann sem hefur haldið utan um árnar eins og sjáaldur augna sinna. Ég kem aftur heim 5 ágúst ef ég slepp frá Bangsímon sem sagt er að andi af og til oní hálsmál veiðimanna og láti glitta í tennur og klær. Hafið það gott og hugsið með hlýhug til fólksins sem berst við ofurefli á Þjórsárbökkum. Ég hugsa hlýlega til ykkar allra.
Ferðalög | Breytt 6.8.2007 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
30.5.2007 | 23:45
Annað kvöld verður talið í AIM festival 2007
Það er skemmtileg helgi framundan hjá mér. Alþjóðlega tónlistarhátiðin á Akureyri, AIM festival 2007 www.aimfestival.is hefst annað kvöld. Það verður blúsað og rokkað á þremur stöðum í bænum og það er við hæfi að mörlandinn hefji leikinn. Ég fæ að vera með annað kvöld því Blús Kompaníið ásamt Hrund Ósk Árnadóttur kemur fram á 1929 ásamt Mó sem er Akureyrískt band sem leikur íslensk þjóðlög í rokkaðri útfærslu. Á föstudagskvöld verður annarsvegar mikil jazzveisla, kúbuskotin og aðalnúmerið er kúbanski píanóleikarinn Hilario Duran ásamt hljómsveit og Tómas R ásamt stórbandi hitar upp fyrir kappann. Á öðrum staði í bænum verður þýska útgáfan Morr music með sérstakt kvöld með innlendum og erlendum böndum, þar á meðal Benna Hemm Hemm sem nýlega gerði samning við útgáfuna. Laugardagskvöldið verður svo tileinkað Fernandez Fierro 12 manna stórkostlegu tangóbandi frá Argengtínu. Ég hef fylgst með þeim um nokkra ára skeið og þvílik hljómsveit. Svo lokum við hátíðinni á sunnudag með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en einleikari með henni verður harmonikkusnillingurinn Tatu Kantoma. Það spáir bongóblíðu um helgina á Norðurlandi þannig að það er upplagt að heimsækja okkur norður, hlusta á tónlist frá öllum heimshornum, grilla, fara í sund og fá sér Brynjuís.
síjú