Kvótakerfið, komið að fótum fram

Gott að heyra þegar stjórnmálamenn efast um ágæti ráðgjafar Hafró. Guðni fer því miður eins og aðrir stjórnmálamenn sem þorað hafa að efast um hinn heilaga sannleika, með löndum í umfjöllun sinni, í stað þess að taka af skarið og biðja um annað álit. Fyrir löngu er tímabært að þeir sem stjórna landinu kippi hausunum uppúr sandinum sem geymt hefur þá þegar fiskveiðistjórnunarstefna íslenska ríkisins hefur borið á góma. Það er stórfurðulegt hversu langt stjórnmálamenn hafa leyft villuráfandi sérfræðingum Hafró að teyma sig og það er forkastanlegt að þeir sem fara með landsmálin hafi aldrei leyft sér að efast um ráðgjöf Hafró, sama hversu vitlaus hún hefur virst vera. Mörgum þætti nóg að skoða árangurinn af verndunarstefnu stofnunarinnar til að biðja um endurmat enda skynsamlegt að biða um annað álit í vafamálum. Af hverju hafa stjórnvöld ekki skoðað kenningar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings. Ekki er hann minna menntaður en þessir þverskallar sem sitja fyrir framan ríkisfisksjána í Hafró með allt niðrum sig. Færeyingar hafa kunnað að meta hans vísindalegu ráðgjöf og hafa engan áhuga á okkar þorsksöfnunaraðferðum. Kristinn Pétursson fyrrverandi alþingismaður og fiskverkandi á Bakkafirði er einn þeirra sem hefur um árabil, með fullkomnum rökum sýnt fram á fjarstæðukennda villuráðgjöf Hafró og hroðalegar afleiðingar hennar á fiskistofna. En þar sem hann og Jón Kristjánsson eru ekki bestu vinir aðal, þá skrúfa stjórnmálamenn hausinn aðeins betur í sandinn undir rammfölsku áróðurssöngli Hafró snillinganna.

Vonandi ber nýjum mönnum í brúnni gæfa til að leysa þau álög sem lögð voru á íslenskan sjávarútveg með kvótalögunum. Ég myndi vilja benda öllum þeim sem hafa áhuga á að skoða þessi mál, á áhugaverða grein eftir Jón Kristjánsson í Morgunblaðinu í dag. Eins bendi ég á blogg Kristinns Péturssonar http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/235425/ en hann skrifar nær daglega um mál sem varðar auðlindina sem tekin var af okkur með skrípalögum á sínum tíma og er nú eins og úrsérgengin húðklár komin að fótum fram.


mbl.is Einföldun að kenna kvótakerfinu um segir Guðni Ágústsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Pálmi.

Kærar þakkir fyrir góðan pistil um þetta mál.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.6.2007 kl. 01:46

2 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Pálmi og takk fyrir frábært tónlistarframlag gegnum árin.  Varðandi ástand fiskimiðanna er ljóst að ítök LÍÚ eru mjög víða og bolmagn stjórnmálamanna virst lítið gegn þessari harðsvíruðu eiginhagsmunaklíku.  Spurning hvort ekki sé kominn tími á að banna togveiðar eða að minnsta kosti vísa þeim til djúpmiðanna og gera út á línu og króka.  Sú veiðiaðferð er miklu vænlegri til árangurs, bæði hvað umgengni varðar og uppbyggingu stofna.  Áframhaldandi óbreytt fiskveiðistefnu eyðir lífríkjum bæði sjávar og sveita.

Lýður Árnason, 11.6.2007 kl. 02:04

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir innlitið Guðrún María.

Sæll Lýður, gaman að heyra frá þér. LÍÚ er dæmi um ríki í ríkinu af svipuðum toga og Landsvirkjun. Varðandi ástand stofna og veiðistjórnun þá finnst mér fyrir löngu kominn tími til að hlusta á önnur sjónarmið og skoða þau af heiðarleika. Það sem í boði er er ekki á vetur setjandi lengur og hefur trúlega aldrei verið. Betstu kveður vestur, bið að heilsa maestro basso á Bolungavík og svo þyrftum við að skoða handrit við gott tækifæri.

Pálmi Gunnarsson, 11.6.2007 kl. 09:58

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Einhvernveginn finnst mér þú vera að skammast út í vitlausa menn þegar þú ert að tæta niður vinnu Hafrannsóknarstofnunar, það voru ekki þeir sem settu þetta arfavitlausa kvótakerfi á, það voru stjórnmálamennirnir okkar sem það gerðu, það er þeirra en ekki Hafrannsóknar að breyta þessu til batnaðar.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 11.6.2007 kl. 11:52

5 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Hvernig sem á það er litið þá er þetta fiskveiðikerfi komið í klessu

Fólk má hafa sína skoðun en þessi kerfi, fiskveiðikerfi og landbúnaðarkerfi eru bara fíblaleg leið til að ná peningum úr ríkissjóði.

Ákkúrat nún er til dæmis verið að koma upp stærsta kúabúi landsins við Höfn í Hornafirði. Allur mjólkurkvótinn gæti þá farið á eitt bú á landinu. Á svo ríkið og skattgreiðendur að senda allar niðurgreiðslur til mjólkurframleiðslu á einn aðila sem vinnur þetta allt í einni verksmiðu?  Öll rök fyrir að halda úti kúabúum í sveitum landisns er bara orðið kjaftæði.

Sigurður Sigurðsson, 11.6.2007 kl. 12:11

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég las í Morgunblaðinu að Þórunn Sveinbjarnar vilji friða hvali!  

 Vita menn að sjávarspendýr borða 20 x meira segi og skrifa TUTTUGUSINNUM MEIRA  magn en við mannfólkið veiðir ef allt er talið?

Sigurður Þórðarson, 11.6.2007 kl. 12:27

7 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sigmar  - Hafrannskóknarstofnun hefur verið ráðgefandi fyrir arfavitleysuna því miður verð ég að segja ... en ég er alveg sammála þér varðandi stjórmálamennina og ábyrgð þeirra. Ég ætla um sinn eða þangað til ég sé annað uppá borðinu, að efast um að þeir lagi eitt eða neitt. Trúlega gerist ekkert fyrr en allt er komið til andskotans. Það er dálítið íslenskt.

Sigurður ..  einu sinni framseldu stjórnendur landsins auðlindina til fárra útvaldra ... nú er það sama uppá teningnum varðandi land og landgæði. Sagan að endurtaka sig.

Pálmi Gunnarsson, 11.6.2007 kl. 12:58

8 identicon

Sæll.

Gott innlegg hjá þér. Kvótakerfið í sjávarútvegi er nútímaútgáfa af dönsku einokunarversluninni. Áhrifin eru bara hrikalegri. Núverandi ríkisstjórn mun hins vegar ekki breyta neinu. Það er ekki bara kvótakerfið sem komið er að fótum fram. Landsbyggðin er komin að fótum fram og er að blæða út.  Búseta á landsbyggðinni sem byggir á sjávarútvegi er að hruni komin og á ekki framtíð fyrir sér í núverandi kvótakerfi.  Eðlileg kynslóðaskipti hafa ekki orðið og munu ekki eiga sér stað þar. Aldurssamsetning íbúanna sýnir það. Spurningin í byggðarlögunum er ekki hvort heldur hvenær kvótinn fer úr byggðarlaginu?

Eyjólfur Ármannsson (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 15:52

9 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Aflamarkskerfi sem þetta er illskársta leiðin til að stjórna auðlind þar sem jafn gríðarlegt bil er milli eftirspurnar og framboðs veiðiheimilda.  Vísa í blogg mitt varðandi kvótakerfið og dreifingu kvótans.

Hvað snertir Hafró umræðuna hér að ofan tel ég okkur hafa tvo möguleika:  Annað hvort fer ráðherra eftir niðurstöðum Hafró hversu sársaukafullt sem það reynist eða hann skiptir út stjórnendum stofnunarinnar og setur einhverja sem hann treystir og ætlar að fara eftir.  Núverandi ástand að veiða gríðarlega umfram ráðleggingar eru algerlega óásættanlegt og getur ekki endað nema á einn veg.  Sjá frekari umræðu hér.

Ps. Takk fyrir tónlistina Pálmi sem þú hefur gefið okkur í gegnum tíðina.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 11.6.2007 kl. 20:09

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ææi nafni, heldur þykir mér þú svifaseinn og seinheppinn plötusnúður. Erum við aftur komnir að djúpu rispunni á þessari gömlu og handónýtu plötu? Vissir þú að  kvótakerfið var sett til að "efla sjávarbyggðirnar og vernda fiskistofnana"?  Veist þú að framlegð hefur minnkað þrátt fyrir snarhækkandi verð á erlendum mörkuðum? Veist þú að  skuldir sjávarútvegsins hafa aukist um 350% á 10 árum?  Ég þarf ekki að spyrja svona.  Annars hefður þú lyft nálinni upp áur en koma að  skemmdinni: "Aflamarkskerfi sem þetta er illskársta leiðin osf."

Hagkvæmni sjávarbyggðanna felst í nálægð við staðbundna fiskistofna.  Mig langar að benda þér á grein eftir gamla skipstórann minn: http://www.xf.is/Default.asp?sid_id=29731&tId=2&fre_id=56571&meira=1 

Sigurður Þórðarson, 11.6.2007 kl. 22:28

11 identicon

Það er til fullt af fiskifræðingum hérlendis og ég hef aldrei vitað til þess að neinn þeirra sé sammála Jóni Kristjánssyni. Margir þeirra með masters og doktorspróf, meðan mér skilst að Jón sé með BS - sem er jú minni menntun. Og eftir mínum bestu heimildum heyra þorskveiðar við Færeyjar trúlega sögunni til. Þar hefur verið samdráttur uppá tugi prósenta síðan í fyrra, því fiskurinn er sama og búinn! Og á sama tíma eru þeir búnir að fjárfesta svakalega í veiðitækum til að geta mokað upp sem mestu á þeim tíma sem þeir fengu úthlutað. Þetta er nebblilega tómt bull í þeim Jóni og Kristni.

Það sem er líka bull er það að stjórnvöld hafa aldrei farið eftir ráðgjöf hafró - ávallt veitt umfram ráðgjöf. Fyrir nokkrum árum var sett ásvokölluð aflaregla - þannig að aldrei skyldi veiða nema 25% af stofninum, en síðan hefur verið veidd milli 31 og 40% prósent. (Og vel að merkja, hafró lagði til að aflareglan yrði miðuð við 22%, en þáverandi stjórnvöld hækkuðu það uppí 25%.) Ekki skrýtið að bestu manna ráð dugi skammt þegar ekki er farið eftir þeim.

Það sem Kristinn og Jón nota máli sínu til stuðnings er magur fiskur. En fiskurinn er ekki magur heldur pattaralegur. Hann er hins vegar hægvaxta og léttur eftir aldri. Ástæða þess að hann er léttur er ekki sú að fiskarnir séu of margir, heldur er loðnan, einn af þeirra aðalfæðustofnum, farin á kaldari og dýpri slóðir útaf hlýnun sjávar. Þorskurinn er botnfiskur og getur ekki elt loðnuna þangað sem hún heldur sig núna.

Kvótakerfið og hvernig þessum tonnum, sem við megum veiða án þess að skemma stofninn okkar, er skipt er hins vegar allt annað mál og púra pólitík. Það að það þurfi að vernda stofninn er ekki pólitík, heldur það sem við best vitum eftir þeim bestu gögnum sem við höfum.

Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 21:34

12 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Jón - hvernig væri nú að þú leggðir fyrir okkur hina sem vitum minna, sannanir fyrir næstum- andlátsfréttum þorskveiða Færeyinga. 

Pálmi Gunnarsson, 13.6.2007 kl. 22:30

13 identicon

Vessgú: http://www.ices.dk/committe/acfm/comwork/report/2007/may/cod-farp.pdf

Þetta er mat Fiskveiðiráðgjafanefndar Alþjóðahafrannsóknarráðsins frá því fyrr í þessum mánuði. Tafla bls 7 gefur aflann, sem hefur sveiflast úr tæplega 40 þt. í 10 þt. á fáum árum. Myndir bls. 8 gefa yfirlit yfir stofnþróun (spawning stock biomass = hrygningarstofn). Svona fer nebbla fyrir stofnum þegar farið er að ráðum Jóns Kristjánssonar.

Annars í stuði og svona?

Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 23:29

14 identicon

Þú tekur kannski eftir því þarna á bls. 7 að á næsta ári er mælt með engum þorskveiðum við Færeyjar - desperate ráð til að reyna að bjarga því litla sem eftir er af stofninum. Hrygningarstofninn samkv. skýringarmynd á bls. 8 kominn langt undir 20 þúsund tonn. Sorglegt - og við megum ekki láta þetta koma fyrir hér.

Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 23:33

15 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Jón - var það ekki Aljóðahafrannsóknarráðið sem lagði til að vinir okkar á Nýfundnalandi hættu þorskveiðum til að safna þorski í þorskasjóð ???  það hefur ekki gengið vel trúi ég ... 

Prívat og persónulega gef ég ekkert fyrir ráðgjöf manna sem sitja á sínum feitu rössum á fínum skrifstofum og úthluta skýrslum eftir pöntunum. Þessir kallar hafa sumir varla séð sjó og eru nýbúnir að átta sig á hvor endinn snýr fram og hvor aftur á þorskinum. En þeir eru fínir á ráðstefnum þar sem t.d. Hafró mætir og nuddar sér uppvið þá í einlægri aðdáun. Þú mátt veifa þessum falsskýrslum frá Alþjóðahafrannsóknarráðinu sem einhverjum sannleik og lesa þær þér til huggunar á síðkvöldum en ég trúi að þú munir eiga erfitt með að benda á ráðgjöf sem þessir kallar hafa lagt til á undanförnum árum sem hefur skilað einhverjum viti bornum árangri.

í stuði og svona - 6 punda sjóbirtingur á nákvæma eftirlíkingu af marfló reddar nokkrum dögum..

Pálmi Gunnarsson, 14.6.2007 kl. 02:11

16 identicon

Mig setur hljóðan.

Hvaða hag ætti Alþjóðahafrannsóknarráðið af hafa af því að falsa skýrslur? Hví í ósköpunum skyldu þeir gera það? Þetta er eitthvar sorglegasta dæmi sem ég hef séð um fordóma gegn menntun og menntafólki lengi.

Sko - þú ert maður sem ég ber virðingu fyrir, næstmestuppáhalds bassisstinn minn íslenskur (á eftir Kobba) og ákveðnir hlutir sem þú hefur sagt við mig í gegnum tíðina hef ég reynt að hafa ávallt í huga - þe. þetta með að vera ekki að velta sér uppúr "hvað ef" fortíðarspurningum eða óráðinni framtíð, heldur gera það besta sem þú getur úr núinu. En í þessu máli finnst mér þú vera á stórfurðulegri slóð - svo ekki sé fastar að orði kveðið. 

Ef þú vilt líta svo á að allt sem heimsins vísindi segja um fiskinn sé bull - fiskverkandinn á Bakkafirði (sem án efa er besti drengur) viti betur,  er augljóslega ekki nokkur von um að við getum orðið sammála um eitt né neitt í þessu.  Ég allavega segi pass. Þegar rök duga ekki, þá þegir maður.

En til lukku með sjóbirtinginn annars - vonandi bragðast hann vel : )

Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 10:57

17 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Þetta eru ekki fordómar gegn menntun og menntafólki, rýndu aftur Jón. Alþjóðaráðin hvort sem þau sinna þorski eða hval eða segjum bara fólki eins og UN, eru ekki yfir gagnrýni hafin. Ef þú ert svona ákveðinn í að frá þeim streymi einungis almáttugt sannleiksfljótið þá máttu það mín vegna. Ef við mennirnir hefðum aldrei efast um ráðgjafir ráðanna væri plánetan trúlega ennþá flöt og Gunnar í Krossinum að tuddast löglega á hommum og lesbíum í nafni Sússa.

Fiskverkandinn á Bakkafirði heitir Kristinn Pétursson og er maður sem hefur eytt stórum hluta ævi sinnar í að stúdera fiskivísindi. Hann er ekki með neinar gráður í þessum fræðum sem gerir hann ekki óhæfan til að fjalla um þessi mál af viti. Ég veit t.d. ekki til þess að Bono hafi neina gráðu í alþjóðamálum en hefur þó líklegast orkað meiru varðandi þau mál en margir skreyttir gráðum í bak og fyrir.

Ég skal alveg viðurkenna það félagi Jón að það fer fyrir brjóstið á mér og hefur farið lengi hvernig staðið hefur verið að málum varðandi auðlindina, meðferðina á henni og ekki síður á okkur sem eru skráð fyrir eigninni. 

Í þessum málum velti ég mér ekki uppúr einu eða neinu og sef svefni hinna réttlátu  ... það hefur lítið að gera með það hvernig ég lifi svona einn dag í einu.

takk fyrir að vera næstmestuppáhaldsbassaleikarinn þinn íslenskur - það er heiður

hafðu það svo alltaf sem best og

Pálmi Gunnarsson, 14.6.2007 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband