Kúlan snýst sama hvernig við látum

Ég var í nokkra daga í Vopnafirði og þóttist vera að veiða. En þar sem veiðin var ekkert til að hrópa húrra fyrir gafst góður tími til að kíkja í kringum sig. Áberandi voru fuglar með unga útum allt og stórmávurinn vomandi yfir.  Með reglulegu millibili steypti hann sér niður og náði sér í unga sem hann sporðrenndi í einum bita. Ég hef aldrei séð þetta fyrr, í það minnsta ekki í þessum mæli. Allstaðar var stórmávur svífandi yfir ungalöndum sem varla getur talist eðlilegt. Hann á að vera að snæða síli útvið sjó for helvete. 

Krían er minn uppáhaldsfugl, dæmi um þrautseigju, kjark og félagshyggju ef hægt er að tala um slíkt hjá (skynlausum skepnum). Útlitið er einstakt og flughæfnin fullkomin. Þegar ég gekk út á malareyri við ána tók hún á móti mér í vígaham. Óvenju harkalega því hún fór í hausinn á mér og tók ekkert tillit til stangarendans sem hingað til hefur forðað mér frá því að fá hana í hausinn. Svo kallaði hún til liðsauka þannig að ég var með þrjár vinkonur goggandi í hausinn á mér til skiptis. Ég lagði saman tvo og tvo og fann ástæðu árásanna á milli steina, rétt nýskriðna úr eggi. Ungamamman hélt uppteknum hætti og stakk sér niður að mér eins og orustuþota, flaug á milli árása út yfir ána í ætisleit áður en hún réðst á ný til atlögu. Enginn tími látinn fara til spillis. Eftir smá tíma hætti hún að ólátast í mér, það var eins og hún skynjaði að ég ætlaði ekki að gera ungunum mein og nú fékk ég að fylgjast með matartíma hjá Miss Kríu og afkomendum hennar í beinni ústendingu, rétt fyrir framan nefið á mér. Krían flaug yfir ána að grasbakka og þar setti hún í þyrlustöðu, hélt sér stöðugri á lofti meðan hún skoðaði bakkann fyrir neðan sig. Svo steypti hún sér niður og gómaði trúlega könguló eða graslirfu. Að því búnu flaug hún lágflug yfir ána, gaf frá sér stutt hljóð þegar hún átti stutt eftir í ungana sem svöruðu henni, teygðu upp opna goggana og síðan hófst matartími. Eftir nokkrar ferðir, stungu hnoðrarnir höfði undir væng og Miss Kría náði sér í vel haldið laxaseiði sem hún sporðrenndi á næsta steini. Á þessari stundu var langt í gauraganginn sem einkennir líf mitt nær daglega. Gauraganginn sem er að drepa fólk en er einhvernveginn svo ástæðulaus, aukaatriði verða að aðalatriðum og það sem mestu skiftir máli verður útundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Yndislegur pistill. Svo myndrænn og fallegur. Ég heyri alveg gargið í kríunni og finn hitann frá litla unganum í lófa mínum. Íslensk náttúra er auðlind.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.7.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

 Þetta er sama upplifun og ég reyndi að fanga í þessari grein minni og konunnar:

Lækurinn Þjórsá - Um kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni

Ævar Rafn Kjartansson, 7.7.2007 kl. 01:39

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þurfum við nokkuð meira en það sem í boði er án fyrirhafnar?  Kannski er verkleg gagnrýni kríunnar á bíleign Ronna eitthvað sem við ættum að taka til umhugsunnar.

Falleg færsla eins og þín er von og vísa bróðir.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.7.2007 kl. 02:12

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Við getum mikið lært af fuglunum og hegðun þeirra,td leinir sér ekki þegar fæðuskortur er eins og sést vel á Mávinum og misheppnuðu varpi Svartfugla

Georg Eiður Arnarson, 7.7.2007 kl. 14:15

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Afskaplega lifandi pistill Pálmi. Segi það sama og Ásdís, ég var komin á staðinn og sat á grænni þúfu með hreiður fyrir augunum.

Jóna Á. Gísladóttir, 7.7.2007 kl. 15:57

6 identicon

Fallega skrifað Pálmi.  Máfarnir eru að haga sér allt öðruvísi en þeir gerðu fyrir nokkrum árum.  Ætið sennilega að minnka og þeim fjölgar samt, amk verðum við meira vör við þá í þéttbýlinu.  Eins og þú veist er hettumáfurinn algengur hér á Akureyri, sérstaklega nálægt sundlauginni, þar sem fólk er því miður að gefa þeim.  Ég sá nokkuð merkilega hegðun hettumáfs um daginn.  Ég hafði heyrt í tjaldi (fuglinum) hér við Munkaþverárstrætið nokkrum sinnum dagana á undan sem er nokkuð óvanalegt, þeir halda sig yfirleitt á Leirunum.  Svo sá ég tjaldinn vappa á götunni með bandspotta flæktan um báðar lappirnar.  Þetta háði honum greinilega.  Við Óskar P reyndum að fanga tjaldinn til að losa um spottann en náðum honum ekki.  Það merkilega var að áður en við fórum að eltast við hann sáum við að hettumáfur fylgdi tjaldinum alltaf eftir.  Alveg sama hvert tjaldurinn haltraði, alltaf skoppaði máfurinn á eftir.  Hann hefur sennilega fundið á sér að ekki var allt með felldu og að tjaldurinn myndi sennilega drepast fljótlega.  Skrýtið að sjá þetta samt, þar sem þessir fuglar eru svipaðir að stærð.  Stærðin skiptir svo sem ekki öllu máli hjá fuglunum.  Ógleymanlegt þegar ég sá tvær gæsir ráðast á haförn í Dölunum fyrir mörgum árum. 

Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 00:48

7 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Er þetta eins og í gömlu myndunum, þegar menn veiða ekki, fara þeir þá út í fiskbúð á leiðinni heim og kaupa einn og segja svo konunni að þeir hafi veitt hann.............minn maður missti einn stóran um daginn  Annars á ég vöðlur, skó, stöng og alles.....vantar bara örlítið meiri áhuga.....það kemur vonandi  takk fyrir að vera bloggvinur minn

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 9.7.2007 kl. 01:27

8 Smámynd: Lindan

Pálmi, Pálmi, Pálmi..... Ertu að segja mér að það sé dræm veiði þarna fyrir austan??    Hmm spurning um að taka með sér trivial og góða bók eftir 2 vikur.

Krían er æðislega fallegur fugl en ég pissaði næstum á mig úr hræðslu hérna fyrir nokkrum árum þegar ég þurfti að hjóla nálægt kríuvarpi á leið í vinnuna.    Þér réðust alltaf að mér nokkrar saman í hóp og lætin í þeim...úfff.  Ég slapp nú alltaf ómeidd en mér er ekkert sérlega vel við að hafa þessar dúllur sveimandi bandbrjálaðar yfir hausnum á mér.

Himbriminn er minn uppáhaldsfugl :-)

Lindan, 9.7.2007 kl. 11:19

9 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Pálmi!

Ekki ætla ég að segja þér hvað þú sást, ég var ekki á staðnum.

En til er í dæminu að við sjáum það sem við "viljum" sjá.

T.d. þeir sem eru að hætta að reykja sjá reykjandi fólk í öllum hornum o.s.f.

Við breytumst öll með tímanum og það sem við sáum ekki áður verður allt í einu ljós lifandi og æpandi fyrir framan okkur í dag.

Eða?

Einn alveg úti að hjóla!

Ásgeir Rúnar Helgason, 10.7.2007 kl. 20:38

10 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þetta eru frábærar hugleiðingar hjá þér Pálmi eins og endranær.  Á sumrinu stutta er samt tími til að leika sér aðeins eftir að hafa hengt vöðlurnar á tréið.  Því ákvað ég að það væri kominn tími á smá sjálfskoðun og því ert þú hér með KLUKKAÐUR

Sveinn Ingi Lýðsson, 11.7.2007 kl. 23:43

11 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sveinn Ingi: Ég var "klukkaður" um daginn en fattaði ekki hvað var í gangi. Af hverju "klukkar" maður mann og hvern á að klukka áfram? Eru einhverjar reglur í þessum leik eða er þetta bara væg útgáfa af "keðjubréfi"?

Einn fattlaus:

Ásgeir Rúnar Helgason, 12.7.2007 kl. 10:22

12 Smámynd: Högni Hilmisson

mér hlínar við að lesa þessa frásögn. Hugur minn fer aftur í bernskuárin mín, þar sem fuglalíf hefur verið einstakt í Vestmannaeyjum. ég fékk að fara í úteyju fimm ára gamall, og svo æ síðan á hverju sumri. og að sofna og vakna við söng fugla og nið sjáfar, á svo ríkan þátt í mínu lífi. þetta verður þér ógleymanlegt um aldur og æfi.   PS. Sigurður Ómar Hreinson, frændi yðar, ritaði inn á bloggið mitt. hann er mér kær vinur frá unglingsárunum.  en umfram allt takk fyrir söguna.

Högni Hilmisson, 12.7.2007 kl. 22:37

13 identicon

Sæll Pálmi og það er virkilega gaman að lesa bloggið þitt og þínar hugleiðingar.Þú ert mikill náttúruunnandi og manni hlýnar í hjartanu við að lesa sumar af þínum færslum.Ég hitti þig nú yfirleitt þegar ég skrepp í Akureyrarferðirnar og kíki í Glerárkirkju og alltaf gaman að koma þangað.En takk fyrir þínar pælingar og ég held áfram að lesa.Töffarakveðjur Björk Andersen

Björk Andersen (IP-tala skráð) 12.7.2007 kl. 23:54

14 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Var á Vopnafirði í kvöld og verð að segja mér finnst hann vera einn af fallegri stöðum á landinu,,,Hér fyrir Austan finnst mér td standa upp úr Seyðisf.Vopnaf,Djúpiv og Borgarfj....ekki móðgast Héraðsmenn ég verð bara að sjá sjó.....gras,tré,sjór lækur, fjöll þetta er góð blanda

Einar Bragi Bragason., 13.7.2007 kl. 02:39

15 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

hæ hó gott fólk ... ég vissi að ég myndi ekki vera einn um að lofa gargandi árásargjarnar kríur. Ég hef ekkert á móti mávnum, hann er hluti af sköpunarverkinu, hef frekar samúð með honum þegar ég sé hann sveima yfir mólendi eða inní bæjum í leit að viðurværi. Náttúran er listaverk og eins og önnur listaverk er hún viðkvæm fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum. Óvinur náttúrunnar númer eitt er homo sapiens. Keyrð áfram af græðgi völtum við yfir haf og land og skiljum eftir sár sem seint eða aldrei gróa. Við sjáum þetta í okkar afmarkaða íslenska veruleika í glorsoltnum mávunum,grindhoruðum úrkynjuðum laxfiskum að ganga í veiðiár og reykspúandi stóriðjuverum. Þjóð í ánauð erlendra stóriðjurisa og Bakkabræðrahugarfar þeirra sem standa við stýrið á þjóðarskútunni auka ekki bjartsýni um framtíð íslenskrar náttúru. Því er nú ver og miður. 

Pálmi Gunnarsson, 13.7.2007 kl. 10:47

16 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Klukk  Kíktu á mína síðu

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 13.7.2007 kl. 12:02

17 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Eigðu góðan dag í dag

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 13.7.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband