Nú fer ég bráðum að safna liði

Ég var að ræða við hann Adam vin minn sem er flúinn land, nei fyrirgefiði fluttur burt af skerinu tímabundið. Hann fór til Kanada með frú og börnum, fékk sér ársleyfi frá störfum og er strax byrjaður að fjarstríða mér. Í dag hringdi hann í mig úr tölvusímkerfi sem kostar næstum ekkert að hafa aðgang að, eða 10 evrur fyrir árið. Með því getur maður hringt út um allan heim laus við  reikninga sem ætti að merkja með tveimur rauðum höndum eða öllu frekar með orðunum Símreikingar geta valdið ótímabæru andláti eða varanlegri geðveiki  Svo sagði Adam mér að það væri 30 stiga hiti í Kanada og meðan hann lýsti dásemdunum skaust uppá framheilabreiðtjaldið  mynd af Sigga stormi boðandi kulda og snjó í fokking september. Ekki lét vinur minn við svo búið sitja heldur fór að  nefna verðlag í Kanada. Byrjaði á svínasteikum og síðan nautamörbráð. Reiknigsheilinn minn fékk út að fyrir andvirði þess sem hann borgaði fyrir kræsingarnar oní fjölda manns, gæti ég hugsanlega keypt mér tvær mjólkurfernur. Seinna um daginn eftir símtalið við Adam vin minn fór ég í hjálpræðisbúð þeirra Bónusmanna þ.e. þá fínu sem er aðeins dýrari en lágvöruhjálpræðið með svíninu, keypti mér ofurlítið í körfu og borgaði fyrir það 5600 kall. Fyrir þá upphæð sýnist mér í fljótu bragði að ég gæti framfleytt mér, fjölskyldunni og fólkinu í næsta húsi í nokkra daga þ.e. ef ég drifi mig til  Kanada. Hjá mér vaknar sú spurning, hversu lengi við Íslendingar ætlumað taka við blautum tuskunum sem slengt er framan í okkur nokkuð reglulega eða hvort við ætlum að gera eins og Frakkar þegar þeim ofbýður verðlag, laun og fleira sem gott er að hafa í lagi,  og segja hingað og ekki lengra.  Getur verið að þrælslundin sé svo gróin inní genin okkar , að við beygjum okkur ómeðvitað í hnjánum og bjóðum botninn ef valta á yfir okkur. Hvar er allt góðærið, sem verið er að auglýsa svo grimmt. Skyldi hamingjusamasta þjóð í heimi vera svona hamingjusöm vegna þess að megnið af öllu því sem hún telur sig eiga er í eigu fjármálastofnana í fjandans nafni. Það er svo auðvelt að ná í fé í dag að ef þú ert fær um að stama upp nafninu þínu, þá færðu lán, hvað þá ef þú getur skrifað það. Huggulegir strákar í jakkafötum, allir eins, sitja í stórverslunum og falbjóða hamingjuna  og framlegðarhópurinn stækkar og stækkar og minnir óhuggulega á klóna í framtíðarhrollvekju.

Nú fer ég að safna liði og gera léttvopnaða byltingu, er einhver memm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, ég skal vera memm. Eigum við þá ekki að gera lista yfir ákveðnar vörur sem við svo sneiðum hjá. Efast samt um að maður nái að safna í lið, þrælslundin er sterk því miður, en það er fullt af hlutum sem ég gæti alveg hugsað mér að sneiða hjá. Svo er það þetta með bensínið, omfl. Það væri forvitnilegt að vita hversu margir væru til í að vera með.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.9.2007 kl. 20:07

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Hér með sæki ég um aðild að flokknum "Hingað og ekki lengra". Ég vil aðgerðir sem duga, aðgerðir sem dugað hafa öðrum, ekki byrja á að finna upp hjólið heldur nýta þá reynslu sem "fátæklingar" hafa beitt með góðum ráðum hingað til.

Þórbergur Torfason, 11.9.2007 kl. 20:17

3 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Heyr heyr, ég er sko memm, er sjálf að upplifa þennan mikla mun á öllum vörum og allri þjónustu, því eins og er, er ég nemi í Finnlandi, þar hlæja menn að mér því mér finnst allt svo ódýrt þar, en þeim finnst sjálfum allt vera dýrt. Svo þegar ég segi þeim hvað hlutirnir kosta heima á fróni, þá segja þeir hlæjandi, nei láttu ekki svona, sko hvað kosta þeir í alvörunni, og ég endurtek það, þá dettur af þeim andlitið, en hvernig farið þið að, spyrja þeir, og ég veigra mér við að segja þeim satt, að annar hver íslendingur skuldar formúgur og veltir á undan sér skuldasúpunni. Framm framm fylking.....

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 11.9.2007 kl. 21:06

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Mikill meiri hluti þjóðarinnar er sammaál þér í orði,en svo kemur stóra STOPPIÐ,framkvæmdaleysið.Um 80% Íslendinga er í skoðanakönnunum á móti núverandi fiskveiðistjórnun,en aðeins 6% kjósa Frjálslindafl.sem var þó stofnaður á sínum tíma til að berjast gegn eignaupptöku á hinni sameiginlegu auðlind.Það vantar alla samstöðu í Íslendinga til að berjast gegn okri og græðgi fyrirtækja og ríkisvaldsins .Þetta virðist vera orðið genist vandamál eins og með pólutíkina.Ég stend með öllum þeim,sem vilja vekja fólkið í landinu til aðferða gegn okrinu.

Kristján Pétursson, 11.9.2007 kl. 21:09

5 Smámynd: Jens Guð

  Það er reisn yfir því að borga ríflegt verð fyrir þokkalegar vörur.  Við erum með hæsta matvælaverð í heimi.  Dýrustu geisladiska í heimi.  Hæstu vexti í heimi.  Svo háa að skuldin hækkar við hverja afborgun.  Kunningi minn fékk 15 milljón kr.  lán í fyrra.  Hann borgar um 80 þúsund af því á mánuði.  Samt hefur lánið hækkað.  Það er komið í 16,4 millj. kr. 

  Það er stæll á þessu.  Þessi kunningi minn er ungur maður með fjölskyldu.  Hann er með ágæt grunnlaun.  En til að endar nái saman þá er hann með fasta yfirvinnu í 3 klukkutíma á dag.  Eins og margir annað ungt fólk sem er að berjast við að koma sér upp húsnæði og reka fjölskyldu. 

  Annar kunningi minn,  gamall skólabróðir,  flutti til Noregs fyrir nokkrum árum.  Þar er hann í smíðavinnu.  Í fyrsta skipti á ævinni er kauði farinn að safna peningum.  Eitt sinn stefndi í að smíðaflokkur hans myndi lenda í tímahraki við að standa skil á réttum tíma.  Íslendingurinn benti á að þetta væri ekkert vandamál.  Ef að þeir myndu vinna 2 yfirvinnutíma á dag þá myndi þetta reddast með léttum leik.

  Vinnufélagarnir horfðu á Íslendinginn í forundran.  Héldu hálfpartinn að hann væri að grínast.  Yfirvinna var þeim svo fjarlæg og út úr korti.   

Jens Guð, 11.9.2007 kl. 21:21

6 identicon

Er með.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 21:43

7 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég er nú að lesa þetta og finnst mjög skemmtileg lesning og auðvitað er ég sammála öllu sem segir um verðlag.   Ég er samt svo mikill Íslendingur í mér, að ég hef trú á því að við íslendingar höfum allt annað en margar þjóðir hafa, það er metnaður, ákveðni og sköpunargáfa. Ég held að það séu ekki margar þjóðir svo fámennar sem tækist það sem hefur verið gert hérna en þó að boltanum hafi verið velt áfram af þessum víkingum, þá hef ég trú á því að þegar þeir eru að innleiða jarðhita og annað í önnur lönd í dag, þá verður gaman að sjá hvað þeir gera eftir 10 ár. Ég ætla sko ekki að missa af því, ég get verið memm en ekki í að flýja land, heldur styðja íslenskt þjóðfélag.  Batterý eru alltaf dýrari því minni sem þau eru.  Það er kannski vegna þess að það þarf sterka orku til að virkja stóran huga í litlum umbúðum.

Ásta María H Jensen, 11.9.2007 kl. 23:11

8 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Fjarstríða! Það er frábært orð!

Ég skal taka þátt í hvaða byltingu sem er, svo lengi sem ég græði eitthvað á því.

Heimir Eyvindarson, 11.9.2007 kl. 23:45

9 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Þegar ég hugsa um þjóðina mína, finnst mér einhvernveginn eins og hún hafi ekki fengið að vaxa og dafna með eðlilegum hætti. Lætin við að fullorðnast og verða eitthvað hafa ráðið ferðinni og eftir situr dálítið rugluð og ráðalaus að því er virðist ómeðvituð um ástandið. Landvinningar okkar segja ekkert um Íslenska þjóð og hafa að mínu áliti ekkert með víkingalund að gera. Í dag mælum við hamingjuna í dekkjastærðum og fermetrum, krakkarnir okkar fá það með móðurmjólkinni ásamt afskiftaleysi sem er því miður fylgifiskur hins svokallaða góðæris. Sagan segir okkur að í afskiftaleysinu felist æði oft hnignun þjóðar. Varðandi verð á "nauðsynjavörum"  ekkert getur afsakað þá vitleysu, ekki fámenn þjóð, ekki vegalengdir frá markaði, EKKERT.

Pálmi Gunnarsson, 12.9.2007 kl. 00:44

10 Smámynd: Ásta María H Jensen

Og þess vegna Pálmi, þarf almenningur að tala og ekki láta stjórna sér, ég held að við séum flest það vel gefin að vita hvar vandamálin eru og með samhug og sjálfstrausti þurfum við að taka þátt, ekki í reiði, því reiðin verður alltaf steinn í götu til velgengi.  Samskipti eru málið til að ná til náungans, skapandi hugsunarháttur á útspekúleraðan hátt. Þú sem tónlistamaður hefur náð til marga með lögum þínum og, það tel ég hæfileika. Það er list

Ásta María H Jensen, 12.9.2007 kl. 00:56

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sterkir drættir í þessari mynd.  En sönn er hún.  Það er jú alkunna að við erum komin af kóngum og þrælum og einhvernvegin hafa þessu ólíku eðli náð að blandast með ótrúlegum jöfnuði í þjóðarsálinni.  Hallar þó á kóngseðlið því víst voru þrælarnir fleiri. 

Íslandssagan er að breytast í einhverskonar skrumskælda biblíusögu þar Sem Jóhannes gefur ölmusur og lætur blása í lúðra og fer í laugarnar til að fá sér 200 metra spassitúr á milli þess sem hann kastar svínum fyrir perlur.

Víxlararnir sitja óáreittir í musterunum og selja ófleygar frelsisdúfur fyrir platpeninga á meðan við dröslum krosstrénu upp gólgötu.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.9.2007 kl. 04:08

12 identicon

meðan við lifum og hrærumst innan þægindamarkana, er okkur drullusama um röfl og tuð. 

Styrjöld stórrisana gegn okkur er löngu unnin ...

Það breytir engu hvað klukkan slær ...

sex að morgni eða skemur ...

we keep on burning of the midnight lamp ...

on we go ...

ekkert temur. 

. (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 05:37

13 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég er mem! Þó það væri ekki nema bara af því að þú ert svo andsk.. skemmtilegur!  

Heiða B. Heiðars, 12.9.2007 kl. 10:39

14 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Svona, svona,  þetta er allt að koma.

Í mínu ungdæmi, var maður litin hornauga ef maður kom með fulla innkaupapoka sem ekki voru merktir Kaupfélaginu. Í dag er kaupfélagið búið að vera og flokkurinn sem því stjórnaði er í andarslitrunum.  Með tilkomu Pálma í Hagkaup, upphófst nýtt skeið í neytendamálum.  Hver af eldri kynslóðinni, man ekki eftir fyrstu Hagkaupsbúðinni við Miklatorg?  Svo reis Jóhannes upp úr matardeildinni  í Hafnarstræti og stofnað Bónus.  Auðvitað átti engin von á því að Jóhannes og fjölskylda yrði svona rík af því að lækka vöruverð fyrir almúgann, en nú er kominn tími til að tengja!.

Tengjumst Evrópusambandinu, tökum upp evruna og látum misvitra íslenska stjórmálamenn sem vilja halda í gamla kaupfélagsandann, taka pokann sinn.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 12.9.2007 kl. 11:55

15 identicon

Góður penni ertu Pálmi ! Já þetta er orðin stór og mikil langloka hvernig við og þið Íslendinga látið vaða yfir landið og miðin af  nokkrum stórgrósserum sem eru bara nokkrir "snjallir" kallar í jakkafötum, þeir hafa "einkarétt" svo til öllum greinum atvinnulífsins sbr.bankana, sjávarútveginn, náttúruauðlindir og meira að segja landbúnaðinn þar sem stórbýli landsins eru meira og minna komin í eigu fárra kaupahéðna sem lítið ber á og í skjólinu fá þeir ríkisstyrki til rekstursins. merkilegt að engum skuli hafa dottið í hug og kanna hvað er að gerast þar. Ég hef búið í Svíþjóð undanfarin 3 ár vegna vinnu minnar og hef fengið nístandi heimþrá af og til, en að velta því upp að fara heim aftur í bráð er næstum ómögulegt vegna lífsgæðanna hér þó ekki sé bara nefnt hvað kostar að borða hér og klæða börnin, ég kem heim nokkrum sinnum á ári og svittna í hvert sinn sem kaupa á mat hvort það er í kaupum eða grísabúðinni sem ku vera billegastir......Svo græt ég í hjarta mínu yfir verðtryggingu lánanna sem allir eru að blæða fyrir og óttast það að börnin mín geti aldrei snúið heim og eignast húsnæði nema að skuldsetja sig svo gríðarlega að það kosti þau heilsuna á miðjum aldri...Í sumar var ég heima í 3 vikur og mér brá þegar ég hitti vini og ættingja mér fannst allir svo þreyttir úttaugaðir, hrukkóttir og óttasleignir um hvernig fer...bilið breikkar svakalega finnst mér milli ára á misskiptingu auðs og valds að aðgerða er þörf...Mér finnst svakalegt hve bankarnir eru farnir að stýra og þvinga fólk og fyrirtækin eru í spennitreyju upp á von og óvon um áframhaldandi rekstur og óttin er slíkur að jaðrar við uppgjöf.....Elsku landar grípið til aðgerða þarna á fróni, úr fjarlægð sér maður hlutina betur, bjargið óráðsíunni....Það eru alltof margir á Íslandi að verða sem hafa grætt of mikið á hinum vinnandi heiðarlega Íslendingi sem bara vill láta sér og sínum líða vel og vill vera skuldlaus við guð og menn.. Borta bra men hemma best...Bestu kv.Frá Svíþjóð

Heimþrá !!!!! (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 13:10

16 identicon

PS: Gleymdist, já hann hefur rétt fyrir sér hann Adam vinur þinn það kostar örfáa aura að vera með IP síma og allir ættu að fá sér slíkt apparat og hringja í okkur vinina sem viljum fá fréttir að heiman, mér sýnist ekki veita að hrista að eins upp í símanum á Íslandi..Vonandi nýtur Adam þess að vera í Kanada n.árið.........

Heimþrá ?? (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 13:19

17 Smámynd: Adam Ásgeir Óskarsson

Já Pálmi minn

Ég gleymdi að nefna við þig nokkra hluti eins og verð á bílum og bensíni. Kanadamenn fárast yfir bensínverði sem er 93 cent lítrinn og ef ég kann enn að reikna þá er það rett rúmar 54 krónur lítrinn.
Hvað kostar bensínlítrinn heima núna.

Adam Ásgeir Óskarsson, 12.9.2007 kl. 15:33

18 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Välkommen till Sverige  

Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.9.2007 kl. 18:11

19 identicon

Auðvitað eigum við að feta í fótspor Vestur-Íslendinganna og flytja til Kanada. Í þetta skiptið skulum við hins vegar fara öll. Ég er viss um að Íslenska ríkið getur fest kaup á einhverju góðu þorpi fyrir okkur þar sem veður er betra og verðlag skárra. Ég skal borga farseðilinn minn sjálfur.

Daníel (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 19:01

20 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er með, það er lengi hægt að velta sér uppúr verðlaginu hér á nauðsynjavörum og það sem ég velti kannski mest fyrir mér þessa daganna er afhverju eru heimilin ekki með frítt rafmagn á Íslandi.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 13.9.2007 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband