16.8.2007 | 15:08
Bréf frá Jóakim frænda
Murmansk 12 ágúst 2007
Heyrðu kallinn minn, hvar í andskotanum ertu. Ég er búinn að bíða eftir þér í 4 tíma og það sem verra er það virðist enginn kannast við að þú sért að koma. Annars er ég að hugsa meðan ég sötra nokkra Kolova hvað lífið er yndislegt. Hér er ég staddur í fyrrverandi kommalandi, blárri en heiður himinninn að bíða eftir frænda frá Íslandi til að fara að veiða lax í kommunistaám. Annars ætla ég að skamma þig eins og hund þegar ég hitti þig. Hver gaf þér leyfi til að birta bréfið frá mér á vælublogginu. Annars er mér reyndar nokk sama - allt sem ég skrifa stend ég hundrað prósent við. Annars sýnist mér menn nú aðallega vera að gefa skít í hvorn annan, naga skóinn af hvor öðrum, kalla náungann hálvita, aumingja og auðnuleysingja og ég veit ekki hvað. Hvar er bróðurkærleikurinn frændi sæll, sælla að gefa en þiggja og allt það. Annars kemur þú mér stöðugt á óvart - ég sem hélt að þú væri töffari frá helvíti, en svo ertu að hengja þig utaní öreigalýð sem tjaldar á fjöllum, syngur hari khrisna og reykir hass. Þú lést ekki svona þegar ég þekkti þig hérna í den. Alltaf til í tuskið, gast drukkið hvern sem var undir borðið, meðal annars mig, og for helvete, aldrei heyrði ég þig svo mikið sem tísta um einhverjar fjandans náttúrgersemar. Annars er minnsta mál að koma þér á rétta braut. Þegar við erum búnir að veiða kommúnistalaxa og taka nokkur dansspor með kósökkunum, þá flýgur þú með mér í hitann og við fáum botn í vitleysuna. Nokkrir kaldir með regnhlíf og feitir Kúbanar munu fara langt með að lækna hausinn á þér.
Hvar heldur þú að ég hafi verið um daginn .. ha og hvern heldur þú að ég hafi hitt ? Það er von að þú setjir upp undirskálaaugu - ég skrapp niður á Spanien til að ganga frá díl og ná mér í sól og endaði í partíi um borð í kósakkasnekkjunni hans Abrahamovís eða hvern andskotann sem hann heitir rússneski olíukraninn sem á Chelsea. Það er sko maður að mínu skapi - hann er svo ríkur að hann lætur skoða í sér ristilinn vikulega með fjarstýrðum gullhúðuðum skanna. Ég stoppaði stutt því ég þurfti að þvælast til Búlgaríu að kaupa fasteignir og símafélag, síðan lá leiðin til Rómar á fund í Vatikaninu. Já ég sagði Vatikaninu, ja eða bankanum sem þeir reka á Jesússtöðum. Finnst þér eitthvað skrýtið að þeir reki banka ha ? Einhvernveginn verða mennirnir að hafa fyrir herlegheitunum. Annars er hörku business að fjárfesta í Jesús skal ég segja þér - til að nefna lítið dæmi þá hef ég látið framleiða Heilagarmaríur í þúsundatali sem fella blóðtár og þær renna út eins og heitar lummur, framleiddar í Kína. Þú varst kannske ekki búinn að frétta það en ég snerist til kaþólskrar trúar héran um árið - flott trú kaþólskan. Mikið um fyrirgefningu syndanna sem er hagstætt fyrir mig og ekki verra fullt af bissa.
Júlla biður að heilsa, hún á afmæli í næsta mánuði. Hún veit það ekki en ég er búinn að ráða Elvis til að syngja Love me tender fyrir hana. Veislan verður á ströndinni og ég ætla að flytja Geirmund og Bo út til að spila á ballinu, Júlla er svo skotinn í þeim. Annars er hún í strekkingu núna þessi elska sem vonandi gengur í þetta sinn. Síðasta klikkaði aðeins því hún varð yfirgengilega asnaleg þegar hún brosti. En þeir lofa að kippa því í lag. Reyndar á ég líka pantað fitusog þegar ég kem heim úr kommaánum.
En nú bíð ég ekki lengur eftir þér ...
kimmi
Þetta bréf beið mín þegar ég kom heim frá Rússlandi ... kallinn hefur greinilega fengið sér of mikið af einhverju því hann var að bíða eftir mér á flugstöðinni í Murmansk nokkrum dögum eftir að ég var kominn heim úr ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.7.2007 | 21:34
Lygn streymir Don
Ég hef verið að raða hafurtaski mínu oní tösku. Ekki auðhlaupaverk fyrir mann sem er allsendis óvanur því að raða mikið þegar sett er í töskur. Að þessu sinni er ekki boðið uppá annað en reglu á hlutunum, þvi 20 kíló er það sem ég má hafa með mér annars þarf ég að fara að borga og lendi trúlega í allskonar me -he- i, sem er ekki gaman þegar fara þarf um nokkrar flugstöðvar. Þið verðið sem sagt án röflsins í mér í nokkurn tíma þar sem ég er að fara að hitta Jóakim frænda og nokkra Kósakka norður við ballarhaf. Nánar tiltekið kem ég til með að búa í veiðihúsi við ána Ryndu á Kólaskaga næstu viku. Ferðin leggst vel í mig enda ekki á hverjum degi sem fátækur námsmaður fer að veiða í Rússlandi en það skal tekið fram að Jóakim frændi blæðir og ætlar að hitta mig í Murmansk, þaðan sem við fljúgum í þyrlum inná skagann. Hann segist koma með einkaþotu en ég er ekki alveg viss. Kallinn er á grenjandi túr og þá fer hann ekkert nema rétt undan sólhlífinni til að pissa og ná sér í áfyllingu. Ég hlakka mikið til að veiða árnar þrjár, Kharlovku, Litzu og Ryndu og ekki síður að hitta Peter Power, skotann sem hefur haldið utan um árnar eins og sjáaldur augna sinna. Ég kem aftur heim 5 ágúst ef ég slepp frá Bangsímon sem sagt er að andi af og til oní hálsmál veiðimanna og láti glitta í tennur og klær. Hafið það gott og hugsið með hlýhug til fólksins sem berst við ofurefli á Þjórsárbökkum. Ég hugsa hlýlega til ykkar allra.
Ferðalög | Breytt 6.8.2007 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.7.2007 | 21:45
Bréf frá Jóakim frænda
Cayman Islands 20 júlí 2007
Kæri frændi,
Af hverju í andskotanum ertu að mótmæla stóriðju - heldur þú að heilinn sé bara til að halda eyrunum aðskildum ha... hugsaðu maður!
Stóriðjuver eru gargandi snilld - búin að bjarga þjóðinni að hluta til og ef vel er á spilum haldið þá eiga allir Íslendingar eftir að meika það feitt á áli - stáli og olíu. Ég hef sagt það áður og segi það enn; troðum niður stóriðju hvar sem sem finnst passandi blettur fyrir hana, já allstaðar á þetta ömurlega skammdegissker sem er svo niðurdrepandi, kalt og andstyggilegt. Seljum grjótið og flytjum burt úr kuldaskítnum.
Það er nú ekki svo langt síðan að forfeður okkar klóruðu sér stanslaust undan lúsinni og flónni, hálftannlausir af næringarskorti. Það hefur lítið batnað, er bara aðeins öðruvísi. Nú erum við hálftannlaus af sælgætisáti og klórum okkur til blóðs vegna streitu. Áður réðu lénsherrarnir hvort við lifðum eða dæjum og misnotuðu landslýð miskunnarlaust í samræmi við vald sitt. Lénsherrarnir fara aðeins öðruvísi að í dag en útkoman er sú sama. Nú drepst lýðurinn, sem áður drapst úr hor, úr stressi vegna þess að lýðurinn er veðsettur uppí háls. Eini munurinn; líkin eru betur klædd í dag. Stærsti hluti þjóðarinnar er í eigu nokkurra jakkalakka sem hafa með snilldarhætti talið lýðnum trú um að til þess að geta kallast manneskja í nútímaþjóðfélagi þá þurfi allskonar drasl til. Draslið selja jakkalakkarnir dýrum dómi og lýðurinn slær sér lán hjá jakkalökkunum, lán sem hækka við undirskrift. Til að breyta þessu og búa til þrjúhundruðþúsund jakkalakka þá seljum við klettinn undir stóriðjur í grænum hvelli og allir flytja í sólina.
Kæri frændi, niður með sólarlagið, fossana og fjöllin, hreina loftið og vatnið, inn með álið og stálið. Á því græðum við feitt. Ég flutti hingað undir sólhlífina eftir að ég seldi kvótann sem pabbi gaf mér þegar hann dó úr hjartaslagi, blessuð sé minning hans. Fyrir kvótann keypti ég hlut í tryggingafyrirtæki, orkufyrirtæki,banka, fjölmiðlafyrirtæki og einhverju fleiru sem ég man ekki lengur hvað heitir. Nú bý ég á Cayman í villu með sundlaug, rétt hjá bankanum sem geymir aurinn fyrir mig, og mun aldrei í helvítinu koma heim, nema rétt yfir hásumarið í lax. Fullorðnastu nú frændi sæll og snúðu þér að einhverju uppbyggilegra en náttúruvernd. Slástu í hópinn - ég skal leggja inn gott orð fyrir þig - og lána þér fyrir útborguninni.
Bloggar | Breytt 21.7.2007 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
15.7.2007 | 13:51
Hvað er að !!!
Hver gefur skipanir um aðgerðir gegn aðgerðasamtökunum Saving Iceland ?? Eru mótmæli bönnuð á Íslandi ??? Ég spyr vegna þess að ég hef haldið hingað til og mun trúa því þar til annað kemur fram að öllum sé frjálst að mótmæla svo fremi þeir ógni ekki öryggi borgara. Vonandi verður þetta mál skoðað oní kjölinn því ef svo er komið að fólk sé svift með lögregluvaldi rétti sínum til að mótmæla, þá tel ég að komið sé að kaflaskiftum í sögu friðelskandi þjóðar.
Fjórir handteknir í mótmælum Saving Iceland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
7.7.2007 | 01:12
Kúlan snýst sama hvernig við látum
Ég var í nokkra daga í Vopnafirði og þóttist vera að veiða. En þar sem veiðin var ekkert til að hrópa húrra fyrir gafst góður tími til að kíkja í kringum sig. Áberandi voru fuglar með unga útum allt og stórmávurinn vomandi yfir. Með reglulegu millibili steypti hann sér niður og náði sér í unga sem hann sporðrenndi í einum bita. Ég hef aldrei séð þetta fyrr, í það minnsta ekki í þessum mæli. Allstaðar var stórmávur svífandi yfir ungalöndum sem varla getur talist eðlilegt. Hann á að vera að snæða síli útvið sjó for helvete.
Krían er minn uppáhaldsfugl, dæmi um þrautseigju, kjark og félagshyggju ef hægt er að tala um slíkt hjá (skynlausum skepnum). Útlitið er einstakt og flughæfnin fullkomin. Þegar ég gekk út á malareyri við ána tók hún á móti mér í vígaham. Óvenju harkalega því hún fór í hausinn á mér og tók ekkert tillit til stangarendans sem hingað til hefur forðað mér frá því að fá hana í hausinn. Svo kallaði hún til liðsauka þannig að ég var með þrjár vinkonur goggandi í hausinn á mér til skiptis. Ég lagði saman tvo og tvo og fann ástæðu árásanna á milli steina, rétt nýskriðna úr eggi. Ungamamman hélt uppteknum hætti og stakk sér niður að mér eins og orustuþota, flaug á milli árása út yfir ána í ætisleit áður en hún réðst á ný til atlögu. Enginn tími látinn fara til spillis. Eftir smá tíma hætti hún að ólátast í mér, það var eins og hún skynjaði að ég ætlaði ekki að gera ungunum mein og nú fékk ég að fylgjast með matartíma hjá Miss Kríu og afkomendum hennar í beinni ústendingu, rétt fyrir framan nefið á mér. Krían flaug yfir ána að grasbakka og þar setti hún í þyrlustöðu, hélt sér stöðugri á lofti meðan hún skoðaði bakkann fyrir neðan sig. Svo steypti hún sér niður og gómaði trúlega könguló eða graslirfu. Að því búnu flaug hún lágflug yfir ána, gaf frá sér stutt hljóð þegar hún átti stutt eftir í ungana sem svöruðu henni, teygðu upp opna goggana og síðan hófst matartími. Eftir nokkrar ferðir, stungu hnoðrarnir höfði undir væng og Miss Kría náði sér í vel haldið laxaseiði sem hún sporðrenndi á næsta steini. Á þessari stundu var langt í gauraganginn sem einkennir líf mitt nær daglega. Gauraganginn sem er að drepa fólk en er einhvernveginn svo ástæðulaus, aukaatriði verða að aðalatriðum og það sem mestu skiftir máli verður útundan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.6.2007 | 17:32
Stjórnvöld; skilið aftur því sem þið stáluð af þjóðinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.6.2007 | 12:19
Ákall um frið
14.6.2007 | 22:58
Faðirvorið slapp fyrir horn
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.6.2007 | 13:06
Þetta hlýtur að vera djókur
Ég held að það gæti ákveðins misskilnings hjá þeim sem agnúast út í flutningabílana sem þeir mæta á þjóðvegunum. Við vitum öll að varan sem við kaupum í verslunum um land allt verður ekki til þar. Við vitum líka að fiskurinn sem fluttur er með flugi og seldur háu verði á markaði erlendis flytur sig ekki sjálfur frá framleiðanda á flugvöll. Flutningabílarnir sem við mætum eru einfaldlega nauðsynlegur hluti í gangverki samfélagsins segir Signý Sigurðardóttir sviðsstjóri hjá SVÞ.
Þú hlýtur að vera að djóka Signý!
Flutningafyrirtæki minna á sig á þjóðvegum landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.6.2007 | 01:07
Kvótakerfið, komið að fótum fram
Gott að heyra þegar stjórnmálamenn efast um ágæti ráðgjafar Hafró. Guðni fer því miður eins og aðrir stjórnmálamenn sem þorað hafa að efast um hinn heilaga sannleika, með löndum í umfjöllun sinni, í stað þess að taka af skarið og biðja um annað álit. Fyrir löngu er tímabært að þeir sem stjórna landinu kippi hausunum uppúr sandinum sem geymt hefur þá þegar fiskveiðistjórnunarstefna íslenska ríkisins hefur borið á góma. Það er stórfurðulegt hversu langt stjórnmálamenn hafa leyft villuráfandi sérfræðingum Hafró að teyma sig og það er forkastanlegt að þeir sem fara með landsmálin hafi aldrei leyft sér að efast um ráðgjöf Hafró, sama hversu vitlaus hún hefur virst vera. Mörgum þætti nóg að skoða árangurinn af verndunarstefnu stofnunarinnar til að biðja um endurmat enda skynsamlegt að biða um annað álit í vafamálum. Af hverju hafa stjórnvöld ekki skoðað kenningar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings. Ekki er hann minna menntaður en þessir þverskallar sem sitja fyrir framan ríkisfisksjána í Hafró með allt niðrum sig. Færeyingar hafa kunnað að meta hans vísindalegu ráðgjöf og hafa engan áhuga á okkar þorsksöfnunaraðferðum. Kristinn Pétursson fyrrverandi alþingismaður og fiskverkandi á Bakkafirði er einn þeirra sem hefur um árabil, með fullkomnum rökum sýnt fram á fjarstæðukennda villuráðgjöf Hafró og hroðalegar afleiðingar hennar á fiskistofna. En þar sem hann og Jón Kristjánsson eru ekki bestu vinir aðal, þá skrúfa stjórnmálamenn hausinn aðeins betur í sandinn undir rammfölsku áróðurssöngli Hafró snillinganna.
Vonandi ber nýjum mönnum í brúnni gæfa til að leysa þau álög sem lögð voru á íslenskan sjávarútveg með kvótalögunum. Ég myndi vilja benda öllum þeim sem hafa áhuga á að skoða þessi mál, á áhugaverða grein eftir Jón Kristjánsson í Morgunblaðinu í dag. Eins bendi ég á blogg Kristinns Péturssonar http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/235425/ en hann skrifar nær daglega um mál sem varðar auðlindina sem tekin var af okkur með skrípalögum á sínum tíma og er nú eins og úrsérgengin húðklár komin að fótum fram.
Einföldun að kenna kvótakerfinu um segir Guðni Ágústsson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)