Færsluflokkur: Lífstíll
13.3.2008 | 18:01
Meðan mannkyn sveltur brennum við mat
Ég var að skoða lista yfir nokkrar léttar verðhækkanir sem orðið hafa á liðnu ári. Ekkert nýtt í stöðunni, því svona hefur þetta gengið lengi. Byrjar með loforði um stöðugleika ef vinnumaurarnir haldi aftur af launakröfum .. svo eru samningar undirritaðir og verðhækkanir laumast inn. Nú biðja kúabændur um að fá að hækka mjólk, segjast fara á hausinn ef það nái ekki fram að ganga, trúlega gerist það, þannig að það er um að gera að drífa í að hækka mjólkina. En hvað erum við að kvarta, við höfum í kjaftinn á okkur og Svínið býður betur í daglegum útvarps- og sjónvarpsauglýsingum.
Á hverjum degi fær tæplega milljarður þeirra sem búa í þróunarlöndunum ekki nægju sína af matvælum. Síðustu fréttir eru að matarverð um víða veröld sé á hraðri uppleið sem hefur þá trúlega verstu afleiðingarnar fyrir þá sem minnst hafa og lifa á hungurmörkum. Hvernig bregðast auðugustu ríki jarðar við þessu öllu. Jú með því að brenna mat. Nýjasta tískuorðið hjá þessum þjóðum sem hafa það á samviskunni að hafa mengað andrúmsloftið með þeim hætti að í óefni er komið, er vistvænt - eldsneyti - eldsneyti búið til úr korni til dæmis. Vissulega minni mengun en hefur afleiðingar. Til dæmis fer óskaplegt land undir ræktun jurta sem notuð er í þessa lífrænu eldneytisframleiðslu. Athyglisvert er að kornið sem fer í framleiðslu á einum jeppatanki af ethanoli myndi nægja fyrir einn sársvangan maga í eitt ár. Vissulega er eitt mikilvægasta verkefni heimbyggðarinnar að minnka mengun andrúmsloftsins en það má ekki vera á kostnað þeirra sem hafa ekki í sig eða á.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.11.2007 | 13:28
Smá plögg - Hrund Ósk Árnadóttir á Domo annað kvöld
Hrund Ósk Árnadóttir kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum þegar hún vann með eftirminnilegum hætti söngkeppni framhaldskólanna með flutningi sínum á The Saga of Jenny eftir Kurt Weil. Eftir menntaskólanám tók við nám í Söngskólanum í Reykjavík og tónleikahald á hinum ýmsu jass- og blúshátíðum vítt og breitt um landið.
Þessi magnaða söngkona heldur tónleika á Domo annað kvöld og vil ég hvetja alla þá sem hafa gaman af góðum blús og jass að mæta. Þeir sem koma fram með henni eru undirritaður á bassa, Agnar Már Magnússon hljómborðsleikari, Kristján Edelstein gítarleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari. Tónleikarnir hefjast klukkan 9.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.11.2007 | 17:07
Sérkennileg veiðiaðferð
31.10.2007 | 17:30
Why we fight - Eugene Jarecki
Ég var að horfa á afar merkilega heimildamynd eftir Eugene Jarecki. Myndin Why we fight er ekki eina mjög vel gerð og heldur manni við efnið allan tímann, heldur reifar hún grafalvarlegt mál sem varðar framtíð okkar allra. Það er býsna forvitnilegt að hlusta í byrjun myndarinnar á lokaræðu Dwight D. Eisenhower forseta þar sem hann varar bandaríska þjóð við áhrifum hergagnaframleiðenda á framtíðarskipan mála. Í dag ráða þessi öfl bandarísku þjóðélagi. Þau ráða þinginu sem er eins og bent er réttilega á í myndinn samansafn auðmanna sem ganga erinda hergagnaframleiðenda og stórfyrirtækja og eiga mikið undir að vélin gangi vel smurð. Þessi ógnaröfl ráða því hvernig mál eru matreidd oní pöpulinn heimafyrir og að heiman. Þau hika ekki við að leggja í stríð til að halda völdum í heiminum og beita til þess þeim ráðum sem þörf er á. Myndin sýnir í hnotskurn afvegaleidda þjóð í klóm kolklikkaðra heimsvaldasinna, hún er í senn sorgleg og hrollvekjandi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.9.2007 | 14:48
Fíkniefnalaust Ísland árið ...
Það eru ekki mörg ár síðan stjórnmálamenn boðuðu að landið yrði gert fíkniefnalaust og það innan nokkurra ára. Falleg hugsun en nokkuð úr samhengi við þann raunveruleika sem við búum við. Meðan markaður er til staðar fyrir vímuefni, verða þau í boði svo einfalt er það. Vímuefnamarkaðurinn skiftist í tvennt, þann löglega og þann ólöglega. Í báðum tilfellum er verið að selja dób og með því kveikja fíkn sem fólk höndlar misvel. Varðandi ólöglegu efnin þá trúi ég að Þegar einn er tekinn með nokkur kíló sé trúlega einhver annar að undirbúa innflutning á svipuðu magni og gert var upptækt. Hagnaðurinn freistar og markaðurinn bíður í ofvæni eftir efnunum. Löglegu fíkniefnin sem reyndar eru að kála fólki hægri vinstri og valda upplausn og rugli eru dáltíið stikkfrí þar sem það er samkvæmt lögum leyfilegt að neyta þeirra með litlum takmörkunum. Gegn hinum margumtalaða vímuefnavanda er trúlega sterkasta vopnið, að gera efnin og áhrif þeirra sem minnst aðlaðandi.
13.9.2007 | 01:33
Dagbók Joakims von Uberfart
Kæra dagbók. Í dag ætla ég að taka í rassgatið á honum frænda mínum á Íslandi.
Kæri frændi. Þú eins og aðrir Íslendingar, gengur ekki alveg á öllum. Hvernig þið djöflist á okkur ríka fólkinu fyrir það eitt að græða krónu hér og krónu þar er alveg óskiljanlegt. Ég segi að þetta sé öfund og ekkert annað, þið eruð glóandi í framan af öfund yfir því hve vel okkur vegnar. Sjáðu mig til dæmis. Ég er svo ríkur að ég hef ekki hugmynd um það, kannski ekki alveg eins ríkur og Abromovís olíukrani og ekki alveg eins ríkur og Thors hvað hann nú heitir aftur og kannske ekki alveg eins og þarna Kaupþings maðurinn sem er að byggja vínkjallara uppí við Glanna. Ég heyrði að hann hafi byggt húsið útyfir fossinn þannig að hægt sé að drekka rauðvín og dorga fram af svölum í leiðinni. Það er þetta sem er að fara svon agalega oní ykkur, beinaber öfund, yfir því að einhverjir hafi efni á að byggja sér nokkur hundruð fermetra rauðvínsgeymslu, kaupa snekkju, flugvél og annað nauðsynlegt. En fyrir þín eyru aðeins, kaupþingarinn verslaði jörðina af mér, þú veist að ég á margar jarðir á Íslandi, rosalega margar jarðir. Nú vissir þú það ekki? jæja núna veistu það. Ég er búinn að kaupa yfir hundrað jarðir út um allt Ísland. Bráðum á ég allt landið og hvar ætlar þú þá að veiða andskotinn þinn. Já ég segi það bara aftur og stend við það. Hvernig í heitasta helvítinu væri umhorfs á Íslandi ef Dabbi Seðill Seðill oh vabb vabb vabb og Friedmankórinn hefu ekki náð að frelsa þjóðina undan sósíalistaofstækinu og þá hann Dóri, guð ég ætla að láta byggja styttu af Dóra fyrir utan svefnherbergisgluggan á Cayman, læt hann halda á þorski í annarri og Búnaðarblaðinu í hinni. Hugsaður þér ef þessir framsýnu menn hefðu ekki gert allt þetta fyrir okkur. Það er svo agaleg tilhugsun að ég þarf að gera stutta kúnstpásu - ok ra ra ra ra, hvar vorum við já já, sumir eru fátækir og verða það alltaf, aðrir eins og ég erum ríkir, ofsalega ríkir og þurfum stöðugt að vera á verði svo einhverjir illa hugsandi einstaklingar komi ekki og steli öllu frá okkur. Það hefur oft gerst í mannkynsögunni. Mannstu t.d. hann Maó, ljóta Maó, já eða helvtítis bolsana sem drápu keisarann sem var svo góður og ríkur að orð fór af. Ég veit að það eru nokkrir heima sem vilja taka þetta allta saman af okkur,skölóttir kommúnistar og fleiri hávaðaseggir. Það er þessvegna sem ég er ég ekkert að koma of mikið heim, nema þessar tvær vikur í lax, það er þessvegna sem ég hef flutt allan peninginn minn til Cayman.
Kæra dagbók, ég verð einhvernveginn að snúa honum frænda mínum til betri vegar, annars fer þetta að verða vandræðalegt fyrir ættina. Hvað get ég gert? ég er búinn að bjóða honum bréf fyrir lítið, góða stöðu í The Joakims , en helvítið býður mér á móti að ég afhenda honum öll auðævi mín, hann muni sjá um að koma þeim til eigenda sinna. Hvað fór eiginlega úrskeiðis með drenginn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2007 | 14:07
VÁÁÁÁÁÁ
Ég las í blaði allra landsmanna að Bubbi Mort stórveiðimaður og kollegi minn hafi veitt "30" punda lax í fyrstu veiðferðinni sinni í Laxá í Aðaldal. Æðislegt - svoleiðis fiskar hafa ekki veiðst í tugi ára í Laxá og varla nema svona rétt sést, þannig að VÁÁÁ. Ég hinsvegar er ennþá klórandi mér í hausnum yfir háttalagi stórlaxins sem samkvæmt talsmanni Bubba hafði farið niður fossinn á Núpafossbreiðu, fengið heimþrá og klöngrast aftur upp fossinn, dröslandi slýdræsu með sér. Hinsvegar eiga þeir það til að haga sér einkennilega stórlaxarnir sem við veiðimenn setjum í og missum, það þekki ég vel.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2007 | 21:34
Lygn streymir Don
Ég hef verið að raða hafurtaski mínu oní tösku. Ekki auðhlaupaverk fyrir mann sem er allsendis óvanur því að raða mikið þegar sett er í töskur. Að þessu sinni er ekki boðið uppá annað en reglu á hlutunum, þvi 20 kíló er það sem ég má hafa með mér annars þarf ég að fara að borga og lendi trúlega í allskonar me -he- i, sem er ekki gaman þegar fara þarf um nokkrar flugstöðvar. Þið verðið sem sagt án röflsins í mér í nokkurn tíma þar sem ég er að fara að hitta Jóakim frænda og nokkra Kósakka norður við ballarhaf. Nánar tiltekið kem ég til með að búa í veiðihúsi við ána Ryndu á Kólaskaga næstu viku. Ferðin leggst vel í mig enda ekki á hverjum degi sem fátækur námsmaður fer að veiða í Rússlandi en það skal tekið fram að Jóakim frændi blæðir og ætlar að hitta mig í Murmansk, þaðan sem við fljúgum í þyrlum inná skagann. Hann segist koma með einkaþotu en ég er ekki alveg viss. Kallinn er á grenjandi túr og þá fer hann ekkert nema rétt undan sólhlífinni til að pissa og ná sér í áfyllingu. Ég hlakka mikið til að veiða árnar þrjár, Kharlovku, Litzu og Ryndu og ekki síður að hitta Peter Power, skotann sem hefur haldið utan um árnar eins og sjáaldur augna sinna. Ég kem aftur heim 5 ágúst ef ég slepp frá Bangsímon sem sagt er að andi af og til oní hálsmál veiðimanna og láti glitta í tennur og klær. Hafið það gott og hugsið með hlýhug til fólksins sem berst við ofurefli á Þjórsárbökkum. Ég hugsa hlýlega til ykkar allra.
Lífstíll | Breytt 6.8.2007 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.6.2007 | 12:19
Ákall um frið
3.6.2007 | 15:50
Súrrealískir tangóspilarar
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)