Smá plögg - Hrund Ósk Árnadóttir á Domo annað kvöld

Hrund Ósk Árnadóttir kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum þegar hún vann með eftirminnilegum hætti söngkeppni framhaldskólanna með flutningi sínum á The Saga of Jenny eftir Kurt Weil. Eftir menntaskólanám tók við nám í Söngskólanum í Reykjavík og tónleikahald á hinum ýmsu jass- og blúshátíðum vítt og breitt um landið. 

Þessi magnaða söngkona heldur tónleika á Domo annað kvöld og vil ég hvetja alla þá sem hafa gaman af góðum blús og jass að mæta. Þeir sem koma fram með henni eru undirritaður á bassa, Agnar Már Magnússon hljómborðsleikari, Kristján Edelstein gítarleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari.   Tónleikarnir hefjast klukkan 9.

 

Jóakim von Íslandi

Cayman, -  í gær.

Nú andar suðrið ra ra ra. Ég sem ætlaði að vera heima á afmælinu og taka brúkaup í leiðinni. Allt klappað og klárt, búið að taka frá svítu á Hilton og frágengið að ég sæti á milli Dorrit og Óla. En það var kúkur í lauginni, langur og svartur sem gekk frá þeirri ferð. Þegar ég kom útá völl sætmjúkur og til í heiðardalinn, þá var enginn mættur.  Það kom í ljós að Muhammi nýji flugmaðurinn minn var kominn í eitthvert bænafrí, þú veist þetta -  má ekki kúka í áttina að Mekka, ekki pissa í áttina að Mekka og ekki fljúga í áttina frá Mekka á ákveðnum andskotans degi sem reyndist vera dagurinn þegar ég ætlaði að eiga kvöldstund með Óla og Dorrit. Þegar ég hótaði að reka hann veifaði hann pappírum og benti á smáaletur sem tekur á þessu og nefndi reiði guðs í öðru hvoru orði. Gott ef hann nefndi ekki Laden líka. Það var að sjálfsögð alltof seint fyrir mig að fá annan flugmann þannig að ég varð að fara heim og horfa á útsendingu frá afmælinu á tölvunni. Nú fer ég að losa mig við þessa arabíu kalla, þeir ganga ekki alveg á öllum.  Muhammi er til dæmis með sérstakt teppi fram í flugstjórnarklefa og ef verið er að fljúga í aðra átt en Mekka á ákveðnum tíma, þá snarsnýr hann rellunni í loftinu og setur á átó pílotinn meðan hann muldrar oní teppið. Þetta er þar að auki dýrt því hann muldrar yfirleitt lengi.

Annars er ég sorgmæddur þessa dagana og ég hef svo sannarlega ástæðu til. Allt bréfadraslið mitt er á hvínandi niðurleið og sér ekki fyrir endann á þeirri skelfingu og það er allt saman ykkur aumingjunum að kenna. Magasárið hefur tekið sig upp aftur og ég drekk næstum því stöðugt til að halda því í skefjum. Að hugsa sér hvernig þið farið með landsins bestu syni. Bjarni vinur minn þessi góði drengur sem ætlaði að græða nokkur þúsund milljarða fyrir íslensku þjóðina hefur verið neyddur til að hætta við allt saman og ekki er verið að þakka þeim feðgum, og Werner, og Bjarna og Hannesi og mér fyrir ómetanlegt framlag til endurreisnar lúsatínsluþjóðarinnar. Nei ekki aldeilis, það er endalaust verið að stinga í bakið á þeim af öfundarlýð.  Og ég sem var að hugsa um að taka upp nafnið Jóakim von Íslandi.  En nú hef ég fengið nóg og segi;  til helvítis með þig - vanþakkláta þjóð.  Auðmenn Íslands sameinist og yfirgefið skerið með allt ykkar hafurtask og leyfið rímnaraulurunum að róa í gráðið.

Eins og þú heyrir frændi þá er ég reiðari útí ykkur en ég hef oft verið áður og réttlætiskennd minni er fullkomlega misboðið. Þessvegna ætla ég að drekka mig fullann í kvöld og brjóta Íslandslagadiska. Ekki hafa fyrir því að hringja í mig eða koma í heimsókn, kommúnistinn þinn. Ég er nú þegar búinn að ákveða að þú fáir ekkert.

 

 


Vangaveltur "trúleysingja"

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar, Jóns Steinars Ragnarssonar. 

Pólitísk hugmyndafræði er oftast svo hástemmd, yfirborðslega orðuð að engin leið er fyrir venjulega manneskju að átta sig á um hvað hún snýst. Orðskrúðugar stefnuskrár og fyrirheit láta hjá líða að fara í smáatriði um útfærslur og framkvæmd. Markmiðin eru jafn háleit og uppskrúfuð eins og leiðin að þeim óljós.  Í þessu óljósa gráa svæði, felast mistökin eða þá að þar eru meðölin falin. Kannski er þetta með vilja svona torskilið.  Kannski skilja hugmyndafræðingarnir ekki viðfangsefnið sjálfir? Menn útbreiða jöfnuð og frið með ofbeldi og lama þjóðir, sem skilja ekkert í hvað verið er að tala um. Hin raunverulega niðurstaða og ástand, sem skapast eftir að hugmyndafræðinni hefur verið troðið ofan í kokið á fólki er aldrei ljós þegar upp er lagt. Í orðskrúði sínu og hugsjónablindu, sést mönnum nefnilega yfir lykilatriðið. Mannlegt eðli og breyskleika.Trúarbrögðin eru ekki undanskilin þessu. Þau eru á sama máta einnig orsök sundrungar, aðskilnaðar, fordóma og haturs en enginn skilur í raun hvað ber á milli.  Oft er því gripið til kynþátta, útlits og menningarmunar til að aðgreina hina "heiðnu" frá hinum "rétttrúuðu", því trúarsannfæringin sjálf sést oftast ekki utan á fólki. Samfélög, sem hafa þróað sambúðarhætti sína í hnökralausu jafnvægi í árþúsundir eru kölluð villimannasamfélög af því að þau samræmast ekki vestrænni samfélagsmynd.  Óútskýrð nauðsyn verður á að kippa þessum barbörum inn í nútímann.  Allt snýst þetta þó um völd og yfiráð yfir efnalegum gæðum.  Hinir "réttlátu" forréttindahópar gegn hinum "ranglátu" heiðingjum.Trúin hefur því oft að sama skapi skaðað mannkyn eins og pólitískar útópíur. Hvort tveggja hefur orðið vopn í höndum valdsjúkra og breyskra manna.Ég trúi því að Guð sé eitt. Allsherjarafl sem býr í öllu. Ekki bara því sem augað nemur og andann dregur, heldur öllu. Guð er í okkur og við í Guðinu. Guð er ekki maður né yfirskilvitleg vera; ekkert áþreifanlegt fyrirbrigði, sem gera má sér mynd af. Guð er sú orka sem býr í smæstu eindum alheimsins. Tifandi orka handan alls áþreifanleika. Guð á sér því ekkert upphaf né endi;  hefur alltaf verið, er allt,  fyrir allt og í öllu.  Án Guðs væri ekkert. Það er mín trú.
Maðurinn hefur frá öndverðu hlutgert þettað afl, gefið því nafn og gert af því myndir að manlegri fyrirmynd.(maðurinn skóp því Guð í sinni mynd en ekki öfugt) Menn hafa gefið honum stað og rýmd og sagt meira af honum hérna en þarna. Síðan hafa menn tekið sér umboð almættisins, dæmt fyrir hönd þess og kúgað meðbræður sína í hégóma, græðgi og sjálfsupphafningu. 
Veldi byggðust utan um þetta með stórum stofnunum, musterum og skattheimtu; ritningar voru skrifaðar til réttlætingar yfirganginum í bland við hinn stóra sannleika.  Auðmýkt fyrir almættinu, var breytt í auðmýkt fyrir kúgunarvaldi manna. Múr var  reistur á milli Guðs og almúgans og aðgangur seldur að náðinni fyrir fórnarfé. Svo fáránlegt sem það er að setja tollhlið að einhverju, sem er allt um lykjandi. Fólkið var kennt að lifa í ótta við hefnd og reiði vegna hugsna sinna og gjörða.  Það var þægt eins og lömb fyrir vellríkum og sjálfskipuðum umboðsmönnum Guðs, ef það vildi ekki hafa verra af.  Það merkilega er að Biblían varar við þessu öllu, en einhvernveginn hefur það ekki hentað málstað manna. Hann gengur nefnilega í berhögg við orðið.
Ég held að Kristur hafi komið í heiminn til að breyta þessu. Guð getur ekki gengið kaupum og sölum, né getur maðurinn tekið sér vald framar öðrum í nafni Guðs. Hann fordæmdi prestastéttina fyrir hégóma sinn og skrautklæði og hét því að brjóta niður musteri þeirra og endurreisa musteri Guðs, sem mér skilst vera andlegt musteri því ekki á Guðið sér afmarkaðan stað. Hann kom með nýjan sáttmála fyrirgefningar, umburðarlyndis, auðmýktar, jafnræðis og kærleika í stað refsingar, ótta, stéttskiptingar, haturs, hroka og bælingar. Allir áttu jafnan rétt til Guðs án tillits til stéttar og þjóðernis.  Það lá í hlutarins eðli. Nú skildu menn ekki gjalda auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, heldur bjóða hinn vangann og fyrirgefa óvinum sínum. Þetta eru erfið boð ef allir eru ekki á sömu blaðsíðu og hann vissi að það myndi kosta fórnir að koma þessum skilningi á.
Hann deildi á prestastéttina og kallaði þá réttilega hræsnara er þeir létu blása í lúðra til að láta vita er þeir gáfu ölmusur til fátækra; iðkuðu réttlæti sitt öðrum til sýndar og sér til upphefðar.  Þóttust nær Guði en aðrir.  Hver kannast ekki við slíkt úr samtímanum?   Kristur bað.þess í stað að menn gæfu í leynd, svo að hægri höndin vissi ekki hvað hin vinstri gjörði. Að gefa sér til andlegs vaxtar og hljóta laun af himnum fyrir, sem þýddi að þeir sem gerðu gott, hlytu gott að launum. Að stæra sig af góðverki er að benda á ræfildóm annara og upphefja sjálfan sig á kostnað þeirra. Bágt eigum við enn með að standast slíkt. Gott sækir gott heim og illt sækir illt heim.
Hann hvatti til þessarar nýju breytni m.a. með orðunum: "Það sem þú villt að aðrir menn gjöri yður, það skalt þú og þeim gjöra."  einnig: "Svo sem þú sáir, svo munt þú upp skera." Þetta gildir að sjálfsögðu líka um hið slæma sem við gerum; við fáum það aftur, sem við látum frá okkur. Við skulum því ekki gjöra illt heldur elska náungann eins og okkur sjálf.  Það tel ég hann meina í þeirri vissu að við erum öll samtengd í einu afli. Ef við gerum einum illt þá gerum við það öllum og líka okkur sjálfum. 
Hann uppáleggur okkur að dæma ekki aðra, því að með því erum við að leggja okkur undir sama dóm. Ef við höfum ekki umburðarlyndi fyrir mistökum annara, þá getum við ekki vænst umburðarlyndis af öðrum í okkar mistökum. Sama prinsipp. Við erum öll eitt og hið sama; hluti af Guði og sigurverki hans. Öll í sömu lauginni ef svo má segja, svo maður sýpur seiðið af því til jafns við aðra ef við kúkum í hana.
Bænasamkomur og opinbert bænahald virðist ekki vera samkvæmt hans fyrirmynd.  Hann segir að Guð heyri bæn þína áður en þú biður; heyrir ekkert betur ef þú ferð með skrúðmælgi og skjall. Kristur segir svo: "En þegar þú biður þá farðu inn í herbergi þitt, lokaðu að þér og biðjið."  Svo kennir hann okkur faðirvorið. Engin fjöldasamkoma þar. Bænin er því einkasamband okkar við Guð. Eintal sálarinnari við allt, sem er. Ögun hugans til nýrra verka. Samhæfing sjálfs og anda, svo sjálfið taki ekki af okkur völdin og girndirnar beri okkur ofurliði. Oftast er það nefnilega svo að það sem freistar okkar mest, kemur okkur í mest vandræðin.
Við verðum því að efla andann því hann er sameiginlegt afl okkar allra.Halda egóinu í skefjum og taka ekkert heldur gefa til þess að fá gefið. Þessu höfum við ekki enn náð tökum á. Við treystum ekki Guði og viljum hafa hönd í bagga. Kristur fullvissar okkur samt um að ef við trúum þá muni bænir vorar undantekningarlaust rætast. Amen þýðir: Svo skal verða.  Maður verður að hafa fullvissu í hjarta um að svo muni verða. Treysta því að jákvæð eftirvænting hlutgeri þarfir okkar og bænir. Við bítum í kinn, efumst og látum ekki einu sinni reyna á þetta.
Fólkið vissi ekki hvernig ætti að biðja, svo Kristur kennir faðirvorið svona sem dæmi.  Víst er að eitthvað hefur það verið lagað til og flúrað. Skemmtileg hugleiðing um þetta er að fyrir utan bænina sjálfa, hefur verið bætt við einskonar skjalli síðar: þitt er ríkið mátturinn og dýrðin og allt það.  En það sem er eftirtektarverðast er það að við þúum Guð en þérum okkur sjálf í bæninni.  " Faðir vor þú sem ert á himnum...." Hvers vegna það er veit ég ekki, en mér finnst það einhvernveginn skondinn vitnisburður um sjálfhverfu mannsins.
En fyrst að Kristi var svona illa við kirkjur og presta, hvers vegna talar hann um sína kirkju? Svarið við því er að hann talar aldrei um kirkju.  Sá bókstafur í Testamentinu, sem kirkjan byggir helst á er: "Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal." Hann segir ekki 25 eða 450 eða hópur, heldur segir hann tveir eða þrír. 
Hann vildi augljóslega afnema stofnanir og mannlega yfirboðara í Guðs nafni.  Hann sá fyrir sér að ef tveir eða þrír kæmu saman og ræddu boðun hans og kynntu boðskap kærleika og umburðalyndis, þá gæti einn úr þessum hópi fundið einn eða tvo aðra til að flytja þeim boðskapinn og ræða. Svona myndi það svo ganga koll af kolli með margfeldisáhrifum, þar til trúin yrði útbreidd um alla jörð.  Rétt eins og pýramídamarkaðsetning (network marketing) er uppbyggð.  Herbalife byggir t.d. á kynningum vöru og ágætis hennar auk sölu á henni án yfirbyggingar. Markaðsetningin er maður á mann, sem síðan fer og finnur annan mann.  Það tel ég hafa verið hugmynd Krists.  Þess vegna náði boðun hans líka svo hraðri útbreiðslu.
Hann grunaði þó sennilega að þessi hugmyndafræði myndi ræna aðalinn völdum og auði.  Slíkt yrði ekki gefið eftir þegjandi og hljóðalaust svo þess vegna yrði reynt að þagga niður í honum eða drepa hann. Fátt annað skýrir ofsóknir á hendur honum. Hann þekkti sitt heimafólk. Hann lét þó ekki bugast þótt að honum sækti angist er að lokum leið. Hann var jú mannlegur. Maður sem skildi og sá hvernig alheimurinn var saman settur. Fyrir þetta hugrekki er hans minnst. Án þess hefði hann fallið í gleymsku.  Píslarvætti hans efldi aðeins hina kúguðu fylgjendur.
Kristur vissi væntanlega hvað hann var að gera. Vissi að það var hægt að byggja samfélög í kærleika og sætti án yfirþyrmandi leiðtoga. AA samtökin hafa engan leiðtoga t.d. og byggja á frjálsum framlögum og hjálp til sjálfshjálpar af þeim sem hafa náð sér frá bölinu.  AA byggir á þessum trúarlega grunni, kærleiks,  umburðarlyndis og óeigingirni og það gengur upp. Hin óeigingjarna eigingirni, eins og ég vil kalla það.
Ég fæ ekki séð annað en að hann hafi komið til að leggja að velli kirkjuna og endurreisa hið sanna veldi Guðs, veldi einingar, hjálpsemi og jöfnuðar. Við komum eins í heiminn og förum eins héðan, hví ættum við þá að byggja lífið á mismunun? Ómálga börn eru háð kærleika og hjálp þeirra, sem betur eru í stakk búnir.  Þau gefa í staðinn hlýju og kærleik og lífinu tilgang og ljós. Bæn þeirra er heyrð án orðskrúðs.  Eru það ekki hin fullkomnu skipti?  Hið fullkomna hlutskipti?
En fyrst Kristur kom til að afnema kirkju og klerka, hvers vegna er vald hans í höndum þeirra nú?  Það er löng saga og flókin, en í stuttu máli var hreyfing Kristinna svo öflug og hratt vaxandi í Rómarríki fyrir tilstilli þessarar grasrótarútbeiðslu að keisarinn sá ekki annað fært en að innlima trú þeirra og blanda henni við gömlu fjölgyðistrúna. 
Hann gerði trúna að valdastofnun sér til fulltyngis og nóg var af breyskum mönnum til að taka það að sér.  Meira að segja helgidagar Kristninnar eru þeir sömu og í Rómverskri heiðni.  Páfadómur umbreytti síðan fjölgoðafyrirbærinu í dýrlingafyrirkomulag, bætti heiðnu ritúali við eins og reykelsum, kertum og söng, svo umskiptin urðu saumlaus. Framhaldið þekkjum við. 
Hvers vegna er þá allt í þessum ólestri enn, þrátt fyrir allar þessar voldugu kirkjustofnanir? Af hverju afsaka þær sig með að þetta sé ekki að marka enn, því að Kristur eigi eftir að koma aftur og setja smiðshöggið á verkið?  Eftir hverju er hann að bíða ef svo er?  Vill han láta mannkyn þjást svolítið lengur, svo við látum okkur þetta allt að kenningu verða?  Erum við ekki að gleyma þeirri staðreynd að einstaklingurinn verður ekki að meðaltali nema um 70 ára og að okkur er slétt sama um örlög fyrri kynslóða?  Það er eitthvað hérna, sem gengur í berhögg við fyrirheit hans.  Hann sagði okkur að hafa ekki áhyggjur, því með þeim bættum við ekki spönn við æfi okkar.  Hann sagði okkur að óttast ekki og treysta og trúa á hið góða afl, því í raun væri ekkert annað í boði en elskan ein. Samt elur kirkjan á þessum ragnarrakaótta og fyllir sóknarbörn sín kvíða og skelfing fyrir dómsdegi. Hvaða þvaður er þetta um um endurkomu Krists, sem klifað er á?  Eru umboðsmennirnir ekki í nógu sambandi til að fullna verk hans? Eru þeir kannski að gera eitthvað vitlaust?
Ég held að Kristur hafi aldrei farið í ákveðnum skilningi. Orð hans og máttur er með okkur alla daga og væri lífið æði undarlegt án kennisetninga hans. Honum renndi  þó trúlega í grun um að fyrirætlun hans yrði skrumskæld, sem raun varð á, enda þekkti hann mannlegt eðli og fordæmið hafði verið gefið oft og einarðlega til slíkrar ályktunar. Endurkoma hans er því mínum huga heit um viðreisn og uppfyllingu fyrirætlana hans um stofnanalaust trúboð. Maður á mann eins og í Herbalife hugmyndafræðinni; hinni rótlægu markaðsetningu. 
Við munum fyrr en síðar fara okkur að voða, því við létum ekki segjast og settum aftur á stofn, það sem hann kom til að uppræta. Við látum óttann stjórna og grömsum til okkar lífsgæðum á kostnað samferðafólksins í valdi hans. Við eigum eftir að ganga frá auðlindum jarðar og lífsviðurværum okkar og þegar ekkert er eftir lengu til að bítast um, þá verðum við sjálfkrafa neydd til að meðtaka boðskap hans um samvinnu, sáttfýsi, kærleika, jafnrétti, hjálpsemi, hófsemi, auðmýkt og trú á að allsherjaraflið muni vel fyrir sjá. Þá staðreynd að með því að gefa munum við öðlast og með því að taka munum við glata.  Hugmyndafræðin er pottþétt. Við eigum varla annan kost annan en að meðtaka hana.
Hvenær þetta verður er erfitt um að segja. Horfur okkar til frambúðar hér á jörð eru ekki bjartar. Mannfjölgun, auðlindaþurrð, mengun og stríð verður hlutskipti okkar vegna blindni, græðgi og tillitsleysi við samborgara og náttúru. Fróðir segja 50...kannski 100 ár. Lengur getur eyðingaræðið ekki gengið. Allt á sér takmörk.

Þannig veltir "trúleysinginn" ég fyrir mér þessu orði. 


Sérkennileg veiðiaðferð

Svona veiða menn í Brasilíu

Vinir Guðs eða...

Í gærkvöldi horfði ég á heimildamynd frá HBO . Myndin Friends of God: A Road Trip With Alexandra Pelosi    fjallar um risasveiflu trúaðra í USA og hvernig þessi sívaxandi hópur fólks hefur það að markmiði að troða kristnum gildum uppá samfélagið og koma sínu fólki til æðstu metorða.  Það er þessi hópur sem kennir sköpunarsöguna og afneitar þróunarkenningunni.  Vitleysingurinn Jerry Falwell sem er reyndar hættur að boða vegna anna á hinum staðnum og séra Ted Haggard sem hrökklaðist úr embætti forseta National Association of Evangelicals fyrir perragang leika stórt hlutverk í myndinni sem allir ættu að sjá. Það voru mörg stórkostlega atriði í myndinni þar sem hver trúðurinn toppaði þann næsta, svo sem atriðið í Drive inn bænasjoppulúgunni.  En undirtónninn var hryllilegur og það versta var líklegast að sjá heilaþvottinn sem óþroskuð börn og unglingar urðu að þola af hendi uppalenda og trúboða. 

þetta vísukorn Jóns Helgasonar prófessors á ágætlega við

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist

sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist

Því hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst

þótt maður að endingu lendi í annarri vist.

 

 


Nú grætur öndin; Jóakims

Fokking helvíti frændi, hvað er eiginlega að gerast á skítaskerinu, er ekki í lagi með ykkur fávitana. Ég segi það enn og aftur of mikill skyldleiki, of mikið sofið hjá frænkum og frændum og útkoman andlegt og líkamlegt vanhæfi. Ég var að koma af apaskytterí með Muutu flugmanninum mínum, þegar ég fékk fréttirnar.  GG sett útí kuldann, búið að slátra gullgæsinni. Ég á ekki eitt einasta aukatekið orð í eigu minni eins og hún mamma heitin sagði alltaf ef eitthvað fór of langt útá tún. Þið eruð vitlausari en aparnir sem ég var að elta á Afríkutúndrunni. Og guð minn, aumingja Bjarni, svo ekki sé nú talað um vin minn hann Hannes gullpúng. Búnir að leggja nótt við dag í nokkra mánuði að móta þessa frábæru hugmynd til þess eins að vera skellt flötum af einhver kommakellingu. Þvílíkt óréttlæti og þvílík sóun á verðmætum. Ég sá það á vefnum að Júlíus Vífill sá mikli kapítalisti var að rífa kjaft yfir verðmati á GG, talar um ofmat uppá nokkra milljarða. Hvað er að manninum, hefur hann ekki verið í rekstri sjálfur. Sér hann ekki hversu framsýnir þessir strákar eru, sjá lengra en aðrir menn, eru með þriðja augað, sjá tækifæri þegar aðrir halda að sér höndum. Eru allir búnir að gleyma því þegar þeir af góðseminni einni saman keyptu skítafyrirtæki og breyttu í seðlamaskínu á einum degi. Eru allir búnir að gleyma því  hvenig hann Bjarni stýrði bankanum á sínum tíma, rétt nýfermdur. Og þó hann lánaði sjálfum sér nokkrar kúlur til að kaupa smá hlut, hann var vel að því kominn þessi dugnaðardrengur sem lítur alltaf út eins og hann sé nýbúinn að leiða gamar blindar konur yfir götu. Ég sem var búinn að leggja til hliðar smá í gegnum hann Bjarna til að kaupa í útrásinni, nú er það farið til fjandans. Æ Æ ég hefði betur verið áfram að skjóta apa í Afríku því þetta er eiginlega of mikið fyrir mig. Nú leggst ég í smá þunglyndi frændi og leyfi öndinni að gráta. Það gerist alltaf þegar ég tapa pening sem hefur ekki gerst mjög mjög lengi. Bið að heilsa eftir Inga úrkynjaða ra ra ra.

Why we fight - Eugene Jarecki

Ég var að horfa á afar merkilega heimildamynd eftir Eugene Jarecki. Myndin Why we fight er ekki eina mjög vel gerð og heldur manni við efnið allan tímann, heldur reifar hún grafalvarlegt  mál sem varðar framtíð okkar allra. Það er býsna forvitnilegt að hlusta í byrjun myndarinnar á lokaræðu Dwight D. Eisenhower forseta þar sem hann varar bandaríska þjóð við áhrifum hergagnaframleiðenda á framtíðarskipan mála. Í dag ráða þessi öfl bandarísku þjóðélagi. Þau ráða þinginu sem er eins og bent er réttilega á í myndinn samansafn auðmanna sem ganga  erinda hergagnaframleiðenda og stórfyrirtækja og eiga mikið undir að vélin gangi vel smurð. Þessi ógnaröfl ráða því hvernig mál eru matreidd oní pöpulinn heimafyrir og að heiman. Þau hika ekki við að leggja í stríð til að halda völdum í heiminum og beita til þess þeim ráðum sem þörf er á. Myndin sýnir í hnotskurn afvegaleidda þjóð í klóm kolklikkaðra heimsvaldasinna, hún er í senn sorgleg og hrollvekjandi.  

 


Swami Jóakim von Caymananda - uppskrift að velgengni.

Chayman 11 eitthvað 2000 og eitthvað

Nú er úti veður vont, verður allt að klessu, ra ra ra ... bara að grínast frændi.  Hér er sko ekkert skítaveður, það er svo mikil sól að sálin er komin með tan. Verst að ég hitti þig ekki síðast þegar ég kom heim til að kaupa í Green Giant Invest eða hvað þetta heitir þarna gufufélagið. Ég ætlaði nefnilega að bjóða þér að leggja í púkkið og lána þér fyrir því. Það er nú ekki eins og ég hugsi ekki hlýtt til þín kommúnistinn þitt. Veit að þú ert á hausnum og trúlega stutt í að þú verðir gerður upp. Annars er ég með plan sem ég ætla að leggja fyrir þig til að bjarga þér úr kommúnistaheiminum. Við setjum upp stórtónleika í Egilshöll með Fílharmoníunni í Sydney og fáum Einar B til að melda Kiri og Garðar með. Ég læt eitthvert risafyrirtæki sem ég á góðan hlut í, leggja til fjármagn, þú gerir disk, ég kaupi 6000 fyrirfram, stórfyrirtækið næstu 6000 og þannig færðu gull og svo platínu sem afhent verður með viðhöfn. Svo kaupi ég fyrstu tónleikana fyrir mig og fullt af stórefnafólki sem ég þekki, stórfyrirtækið kaupir tónleika númer tvö og svo koma þessir fáu sem ennþá fíla þig og kaupa nokkra miða, hina gef ég höltum og blindum.  Við látum gera vandaðan DVD pakka af tónleikunum og heimildamynd sem ég fæ að leika aðeins í.  Mér dettur í hug að við byrjum myndina með því að ég og þú förum saman í þotunni heim í heiðardalinn til að skoða ræturnar, heilsum uppá ættingjana,útdeilum gjöfum og afhjúpum styttu af frægasta syni svæðisins - mér. Svo fljúgum við til Cayman þar sem þú ert í fríi hjá frænda að leggja drög að heimsfrægðinni. Svona er planið algerlega pottþétt, allt spurning um settuppið asninn þinn. Annað sem er algerlega drepnauðsynlegt og það er útlitið á þér. Ég sá það í þættinum með leigubílalaginu hans ME. að þú þarft nauðsynlega að lita hárið, trúlega best að þú farir í ljóst og strípur og síðan í ræktina. Ég lána þér svo fyrir almennilegum bíl og leigi þér penthousið mitt í Reykjavík. Það er algerlega forsenda að þú flytjir frá Akureyri, alger forsenda. Þar varð ulllarsokkurinn fundinn upp og hann er ekkert á útleið. Það er líka spurning um hvort þú þarft ekki að yngja upp eins og sumir í þínum bransa hafa haft vit á að gera, það færi vel í S&H, þú fengir bullandi athygli útá það. Þegar við erum búnir að framkvæma þetta allt þá er búið að bjarga þér úr öreigaheiminum, repjút fjölskyldunnar er komið í viðundnadi lag. Þú veist ekki hvað ég hef þurt að líða fyrir bjánalegar spurningarnar sem dynja á mig í klúbbnum um öreigafrændann, sem geri lítið annað en rífa kjaft í nafni jafnaðar og bræðralags og taka þátt í Júróvísíon. Skoðaðu þetta af alvöru, ég er í gjafmildisástandi núna, mjúkur og meyr. ra ra ra

 

 


Af Búhssum og Balsebússum

Eftir að hafa horft á þátt um Jesús Búðirnar í sjónvarpinu í gærkveldi, þá datt mér í hug að henda eftirfarandi kafla úr sögu sem ég er með í tölvunni í vinnslu  -  þessar Jesúsbúðir eru austfirskar.

II

Ég fékk snemma áhuga á Guði, Jesús, dýrðlingum og Maríum. Fyrstu alvarlegu kynni mín af himnafegðunum voru þegar móðir mín fyrir tilstilli Bergþóru Ásgrímsdóttur, úr hvítasunnusöfnuði þorpsins, sendi mig í sunnudagaskóla þar sem messað var yfir okkur um himnaríki og helvíti og okkur syndugum krakkaskrílnum gefnar litlar snotrar bíblíumyndir í lok hverrar messu. Mér fundust þessar myndir alltaf dálítið fyndnar, fallegt fólki í hreinum hvítum kyrtlum að strá pálmalaufblöðum um sólstafateiknaðar götur og torg, skeggsnyrtir hjarðmenn með langa stafi, þrifaleg lömb og drifhvítar dúfur pössuðu illa við grámygluna og fótrakann í Útsveit. Bergþóra hvítasunnukona var kapítuli út af fyrir sig og átti alla mína athygli. Þessi hundrað og þrátíu kílóa kona hafði snúist í einu vetfangi til trúar.  - Guð laust mig auman syndarann á milli eyrnanna og sendi mér elskhugann eina og sanna til að verma sálina;  þrumar hún yfir mér yfir rjúkandi kaffibolla í eldhúsinu heima.  -  Þegar ég tók við honum í sundlauginni um árið koma hann til mín í dúfulíki og hreinsaði mig að innan sem utan; -  Diddi guðsmaður bróðir hennar sá um niðurdýfinguna og gekk hart fram, ákveðinn í að færa bersyndugri systur sinni nýjan mann. Viðstaddir skírnina sögðu að það hefði þurft að blása lífi í Bergþóru eftir niðurdýfinguna. En dúfan kom og Bergþóra gekk í það heilaga í annað sinn.     

Bergþóra stingur uppí sig stórum kandísmola,  - minn blessaði frelsari gaf mér lausn frá öllum mínum syndum stórum og smáum. Ég sé að mamma á erfitt með að halda aftur af sér þar sem hún hnoðar deig í lummur.  Þú varst nú varla svo slæm Bergþóra mín að það hafi staðið í honum Jésús að hreinsa þig;  Bergþóra hrekkur í einni svipan uppá háa séið,  - ekki slæm, ekki slæm!!  kandísfreyðandi munnvatnið frussast í allar áttir -  ég var svo syndug að það hefði orðið erfitt fyrir mig að fá inngöngu í helvíti; ég var kvalinn dag og nótt af öllum þeim verstu löstum sem til eru og hugsanir mínar voru rotnari en hákarlsbeitan hjá Stjána á Súðinni.  Bergþóra stendur með erfiðismunum upp frá borðinu og með upplyftum höndum er skipt um tóntegund;  - en nú er ég hrein eins og nýfallinn mjöll fyrir elsku Jésús sem læknar og græðir, hrein mey fyrir fallega frelsarann minn, halelúja, halelúja, þökk sé þér góði Jesús, minn elskaði unnusti á himnum, halelúja. Mamma djöflast á deiginu eins og hún eigi lífið að leysa og ég sé að hún skemmtir sér.  Heldur þú að Jesús hafi verið svartur, svartur eins og Satan!  Ég veit ekki hvað fékk mig til að láta þetta út úr mér og hefði ég betur látið það eiga sig. Bergþóra horfir á mig um stund, það er eins og hún nái ekki alveg spurningunni. Svo gómar hún mig eldsnöggt með feitri krumlunni og lyftir mér upp og yfir borðið. Hún heldur mér svo nálægt sér að ég sé stíflaðar svitaholurnar á þrútnu andlitinu og eldrauð, æðasprungin augun lýsa af ofsa. Fýlan útúr henni ætlar mig lifandi að drepa og mér verður skyndilega óglatt.  Balsebúb og hans svörtu satansenglar tala í gegnum þig andskotans auminginn þinn og hórkrógi. Svo skellir Bergþóra mér niður þannig að ég enda á hnjánum fyrir framana hana. Hún heldur mér niðri með annarri krumlunni sem er grafinn í öxlina á mér en með hinni bendir hún til himins  - Jesús læknar, hans heilaga orð þvær syndir okkar og þínar líka Sveinn svarti andskoti,  elsku Jesús þvoðu af honum sálina, settu hann á suðu svo hann endi ekki í vistinn hjá Balsebúb sem væri reyndar alveg mátulegt á hann, gerðu það fyrir mig að hreinsa Svein djöful af syndinni. Og  líka hana Stínu af syndinni sem bjó til Svein andskota. Ef hún Stína hefði ekki verið með brókarsótt þá væri ég ekki hér að biðja þessum litla djöfli griða. En hún Stína er vinkona mín svo góði Jesús komdu nú með þvottapokann þinn og þvoðu Svenna að framan og aftan, að innan og utan í Jesús nafni amen - segðu amen andskotinn þinn -  Bergþóra slær mig utan undir.  Mamma stöðvar Bergþóru áður en ég fæ annað högg  - hingað og ekki lengra Bergþóra, svona lætur þú ekki við hann Svein sem hefur alltaf verið góður við þig, hættu .þessu eins og skot.  Við þetta inngrip móður minnar er allt loft úr Bergþóru sem hlammar sé niður við eldhúsborðið og snýr sér að kaffidrykkju og kandísmolasogi.   

 


Joakim von gullrass

ra ra ra ra ra ra  - ef þið hafið ekki fattað það ennþá þá er raraið í byrjun þessarar litlu, en afar nauðsynlegu bloggfærslu minnar, upphafsraið úr laginu " Ef ég væri rikur "  lag kommúnistafiðlarans sem dreymdi drauma um peninga og völd uppá þaki á öreigabústað, á rússneskum síðkvöldum.  Og ef ég bæti nú einu rai við þá er það upphafsraið í laginu hans Johns L sem var að kveikja í útí Viðey í gær. Hann var kommúnisti eins og Tevje, en ríkur kommúnisti sem er afar sjaldgæft. Við fórum nokkra hringi yfir Viðey áður en stefnan var tekin á Cayman. Það var nú dálítið flott að sjá ljósastaurinn úr þotunni en það munaði reyndar litlu að við flygjum á Esjuna því eitthvað ruglaði ljósastaurinn þann svarta sem ég réð fyrir nokkru. Hann heitir Abu Hassan Halimal Kunda og fékkst fyrir slikk. Ég þarf nú samt að láta skoða skírteinið hans aðeins betur því hann er að villast aðeins. En af því að ég var nú að raula kommúnistasönginn um að vera ríkur, þá hafði ég aldrei þörf fyrir slíkar draumfarir. Kallinn var kaupfélagsstjóri, með mikil völd. Hann bjó til útgerð nokkrum árum fyrir kvótalög og bjós svo til litla sæta gulldrengurinn hann Jóakim von gullrass sem kom í heiminn stuttu síðar.  Ég vil uppfræða ykkur smámaurana sem hafið Tevjeskar draumfarir, um mikilvægar líffræðilegar staðreyndir. Menn hafa það í genunum að vera ríkir. Þetta hefur verið vísindalega sannað. Þeir sem eru ríkir hugsa öðru vísi, borða öðruvísi, drekka öðruvísi,elska öðruvísi og að sjálfsögðu eyða peningum öðruvísi. Ég var til dæmis alveg með þetta í genunum, svona leiðtogatýpa sem var með hirð af undirmálsmönnum í kringum mig alveg frá því ég man fyrst eftir mér. Þess ber að geta að nóg var af slíku fólki þaðan sem ég kom. Karlinn átti krummaskuðið og réð  hvort menn hefðu í sig og á, vel staðsettur í miðju stjórnmálanna, dáður af frömmurum og hefði örugglega farið langt í stjórnmálum hefði hann ekki verið fullur frá morgni til kvölds.  Ekki að það kæmi að sök þar sem hann réð öllu, átti allt og gat þar af leiðandi gert það sem honum sýndist.  Allt varð að gulli í höndunum á honum og þannig er mitt líf í dag. Ég má varla snúa mér við þá klingir einhversstaðar í krónu. En auðvitað kemur þetta ekki átakalaust. Ég er stöðugt á ferðalögum til að kaupa bréf og það tekur vissulega á. Ég hélt til dæmis að mitt síðast væri runnið upp þegar djöfulsins atgangurinn í kringum orkufélagið, Græna risann eða hvað það nú heitir sem unglingurinn hann Bjarni ætlar að reka, fór af stað. Ég flaug heim fyrir viku, tilbúinn í slaginn með fullt af klinki til að kaupa og þá verða kommarnir í borginni kolvitlausir útaf smáaurum til lykilmanna. En það er sem betur fer búið að snúa onaf þessari vitleysu, allir sáttir, ég búinn að kaupa vel af bréfum og farinn í sólina. En af því að allt er nú uppá borðinu hjá mér og engin leyndarmál í gangi þá má ég til með að segja ykkur eitt. Ég er búinn að sækja um einkaleyfi fyrir nafninu Ísland, svona incase. Mér finnst það líka bara viðeigandi þar sem við eigum fiskinn, erum að verða búnir að kaupa allt landið með fylgihlutum, eigum alla peningana, erum með megnið af fólkinu veðsett uppfyrir haus, þannig að það er stutt í eháeffið. ra ra ra ra ra ra ..


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband